Hrafnhildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 1. ágúst 1932. Hún lést á líknardeild Landspítalans 10. febrúar síðastliðinn og fór útför hennar fram í kyrrþey.

Ljós ber á rökkurvegu,

rökkur ber á ljósvegu.

Líf ber til dauða,

og dauði til lífs.

(Þorsteinn Vald.)

Það var undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, að fundum okkar Hrafnhildar Þórðardóttur bar fyrst saman. Þá var algengt eins og margir muna að koma kaupstaðarbörnum til dvalar í sveit, en ástæða þess, að hún kom á heimili foreldra minna að Reyni í Mýrdal, var sú, að feður okkar, þeir Þórður Bjarnason og Sveinn Einarsson, höfðu verið skólabræður í Flensborg, reyndar á árum hinnar fyrri heimsstyrjaldar.

Þegar svo kom að mér að hleypa heimdraganum, dvaldi ég á heimili foreldra Hrafnhildar, eða Höddu, eins og hún var jafnan kölluð. Þau bjuggu þá á Strandgötu 50 í Hafnarfirði, í fögru umhverfi, fjörðurinn fram undan, ýmist úfinn af vetraröldu eða baðaður í kvöldskini. Þá áttum við oft glaðar stundir, unglingarnir. Við vorum jafnöldrur.

En tíminn stóð ekki kyrr, þá fremur en nú. Lífið kallar menn hvern í sína áttina, hver bjástrar við sitt og árin líða. Tækifærin til að hittast verða færri og strjálli. Alltaf vissum við Hadda þó vel hvor af annarri. Hún og fjölskylda hennar sýndu mér og börnum mínum órofa tryggð og vinsemd, sem aldrei brást. Það var sama hvort það voru jól, ferming eða stúdentsútskrift, alltaf mundi Hadda eftir mér og mínum, um það þurfti aldrei að efast.

Þótt vinnustaðir okkar Höddu væru ólíkir og fjarlægir hvor öðrum, þá veit ég eftir öruggum heimildum, að hún var góður starfsmaður, áreiðanleg og traust. Allt gerði hún með stakri alúð og smekkvísi, enda uppskar hún vinsældir og virðingu, bæði meðal samstarfsfólks og yfirmanna.

Svo nú, þegar lífið hafði flutt okkur að því æviskeiði, þegar meiri tími hefði átt að gefast til samfunda, kom reiðarslagið. Fyrir rúmu ári sagði hún mér á jólakorti, að nú myndi hún líklega ekki heimsækja mig í bráð, því að hún væri að fara á sjúkrahús og ætti að gangast undir mikla aðgerð. Dómurinn var fallinn. Sú aðgerð var raunar aldrei framkvæmd, sjúkdómurinn var lengra fram genginn en svo, að nokkur von væri um árangur af holskurði. Hægt og hljóðlega, án þess að nokkurn mann grunaði neitt slíkt, hafði hann læðst að fórnarlambi sínu og unnið sitt verk í kyrrþey. Þar með var hafin sú þrautaganga Höddu, sem nú er lokið. Eftir þetta hittumst við oftast á þeim sjúkrahúsum, þar sem hún háði stríð sitt. Allan þann tíma bar hún veikindi sín með aðdáanlegri reisn og þolgæði, mælti aldrei æðruorð og gerði jafnan lítið úr vanlíðan sinni, taldi sig lítt hafa þurft að nota verkjalyf fram að þessu. Hvort hún hefur aðeins verið að hughreysta mig, veit ég ekki, en hún var ekki að barma sér.

Og nú að leiðarlokum kveð ég Höddu æskuvinkonu mína með kærri þökk fyrir allt það góða og glaða og skemmtilega, sem við áttum saman. Friður sé með henni. Aðstandendum hennar votta ég samúð.

Sigríður E. Sveinsdóttir.