Guðlaug Jörundardóttir fæddist í Reykjavík 21. desember 1916. Hún lést í Sjúkrahúsi Reykjavíkur 27. febrúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fríkirkjunni 3. mars.

Það er hverjum einstaklingi hollt að fá að starfa og kynnast þeim sem reyndari og eldri eru. Ég er einn af þeim sem áttu kost á því. Byrjaði ungur aðeins ellefu ára að starfa á sumrin hjá Skipaútgerð ríkisins sem sendill. Og sumrin urðu fleiri en eitt. Þar hitti ég einmitt margan reyndan starfsmanninn fyrir og þar á meðal hana Guðleifu Jörundardóttur sem við kveðjum í dag með söknuði.

Ég komst fljótt að því að hún Leifa var skelegg kona. En það hræddi mig nú ekki, heldur lærði maður að best væri að vera trúr sinni sannfæringu. Þannig var Leifa og duldist það engum.

Ég var heppinn að kynnast Leifu og tókst með okkur mikill vinskapur og var gaman að sitja við skrifborðið hennar og spjalla. Spjalla við konu sem bar ómælda virðingu jafnt fyrir ungum sem öldnum. Allavega gaf hún sér góðan tíma að tala við ellefu ára guttann þannig að honum leið eins og fullorðnum manni og þeim allra lífsreyndasta í heimi.

Einnig fékk ég að kynnast þeirri hlið á Guðleifu að börnin og barnabörnin voru henni dýrmæt. Þau kveðja hana með miklum söknuði því nú er horfin þeim móðir og alvöru amma.

Kæri Ragnar og fjölskylda. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi minningin um góða konu lengi lifa.

Gunnar Sverrisson.