Kötturinn skeit í beðið. Þetta er upphaf og aðeins ætlað til þess að vekja áhuga lesarans.
Ritgerðin er átakaverk og samin með absurdstíl í huga.
Eins og sjá má er kötturinn symbolskur, þemað í verkinu en engan veginn aðalpersóna.
Slík hlutverk eru raunar í leikritum, en það er leikaranna vegna og höfundar. Við viljum gleymast, þetta fólk, er sýnir sig í leikhúsum í menningarskyni. Eins hinir, lesendur.
Fólk að mestu undir sæng og veit að það getur gert betur. En gerir það ekki. Eins og sjá má er höfundur gamalreyndur kaffihúsakommi en hafði ekki tíma til þess að frelsa heiminn. Seinlátt verk valdalausum manni.
Svona eiga prologusar að vera. Leiða lesarann af stað og láta hann svo eiga sig. Munið bara þetta með köttinn. Hafa hann í huga en eins og fram kemur við lestur er þetta engan veginn saga um dýr heldur fólk. Örlög, átök og endalok.
Raunirnar eru raktar yfir kettinum en honum er sama. Nú þarft þú, lesari góður, að sjá framfyrir tærnar á þér.
Kona er komin til sögunnar. Öldruð, á með sig sjálf, ekkja og heilsteyptur aristokrat.
Í raun fátæk en því leynir hún. Á þó lítið gamalt hús efst á stórri lóð. Leitt að geta þess en eignin er skráð á banka.
Götu megin er rifsið og stærri tré á stangli. Þessi gróður er í beðinu. Kötturinn hefur lokið því af að skíta og gerir klárt með því að draga sig áfram á framfótunum í sitjandi stöðu.
Doppi Dopp Doppi minn koma heim og éta fiskinn sinn. Konan stendur í dyrunum. Hún ætlar að deila matnum með Doppa. Fékk hann raunar út á köttinn. Maðurinn, sem selur fiskinn hafði tekið til smálegt í poka. Nokkuð fleira frú Guðríður? En kona var þá á leið í matarboð. Ekki alveg satt en áður fyrr fór hún stundum í boð. Það var í gamla daga. Nú voru engin boð. Í öllum bænum, förum ekki að gera mikið úr þessu. Aristokrati segir ekki ósatt. Hann er í annarri stöðu en sýnist. Hann leynir aðstæðum af kurteisi. Doppi fékk þunnildi af ýsu og kona hamsatólg að vestan auk kartaflna.
Maðurinn hennar Guðríðar vann á kontór. Hann rakti fyrir konu sinni samtölin við forstjórann. Sífellt var fyrirtækið að taka upp tillögurnar hans. Forstjórinn leitaði ráða og gerði allt að sínum hugmyndum. Þetta sagði maðurinn konu sinni. Hann var í reglu og fór á fundi í kjól. Mennirnir voru bræður en konur þeirra systur.
Árlega var þeim haldið systrakvöld. Bankastjórafrúrnar stjórnuðu þessu. Allar systurnar sögðu: Frú Guðríður, hvað finnst þér? sumar sögðu yður.
Konurnar í síðu kjólunum sögðust vera hræddar við frekjuna í ógiftum konum, sem heimtuðu barnaheimili hvað þá annað. Þær æstu upp siðprúðar stúlkur. Og konurnar sem vildu barnaheimili svo þær gætu unnið úti áttu börnin einsamlar.
Frú Guðríður veiddi sykurmola upp úr karinu með töng. Þá var hún eins og hinar systurnar og kinkaði kolli eins og þegar maðurinn hennar sagði frá sér og forstjóranum.
Maðurinn hennar var löngu dáinn. Hann var í félagsskap með mönnum sem voru jafnvel enn fínni en hann sjálfur. Guðmundur hét hann og hún var ein. Mataðist við borðið þeirra Guðmundar en Doppi lá í stólnum húsbóndans. Guðríður var farin að hafa skoðanir eins og maðurinn hennar sálaði og systurnar í síðu kjólunum sem vildu ekki að konur ættu börnin einsamlar.
Þessi saga væri út í loftið ef ekki kæmi annað til. Sögumaður, þ.e. ég, höfundurinn sjálfur, kom stundum í þetta hús og sá þannig köttinn og talaði við konuna, hana frú Guðríði.
Alfarið vegna þessa hvernig lokakoman í húsið var fór ég að semja sögu. Eins mætti kalla þetta játningu því endirinn sat í mér og situr raunar enn. Var svo sem annað að gera? Og þó. Þetta hét karlmennska en var allt annað. Henni frú Guðríði var misboðið og hlutirnir lagast ekkert þó svo að hún hafi verið dáin og erindi mitt og minna góðu félaga í litla húsið sem stóð efst í lóðinni hafi verið vegna dauða hennar. Nú er þar annað hús en beðið og trén fengu að halda sér.
Þannig var að ég hafði komið í heimsókn. Hún svo sem með þetta eilífa gestakaffi og meðlætið.
Innbúið. Málverk eftir tvo meistara, annað frá yngri forstjóranum við fyrirtækið sem hann Guðmundur hafði unnið við þangað til aldurinn svipti hann mannréttindum. Bækur í skáp með gleri og drasl ofan á. Barnleysi þeirra hjóna skildi eftir tómið sem verður þegar afa- og ömmubörnin eru engin.
Alltaf ætlaði ég að stela þremur bókum frá henni frú Guðríði, en framkvæmdi ekki. Þetta voru biblíusögur í myndum, gamla útgáfan, veraldarsaga Sveins frá Mælifellsá og Alþýðubókin. Í hana vantaði að vísu alheimskortið og titilblaðið var defect.
Einhvern tíma hefir það dottið í hann Guðmund að binda inn bækur sínar. Skurðurinn of mikill svo spássíurnar voru eins og rönd um lesmálið og spjöldin groddaleg. Frágangur líkastur lestrarfélagsrómönunum sem áður gengu milli bæja og spilltu bókmenntasmekk. Sveitirnar töpuðu forskotinu.
Nú eru allir eins. En þetta er innskot og sögu okkar með öllu óviðkomandi. Undir lok þessara heimsókna varð sú breyting á að konan sem átti köttinn, hann Doppa, var farin að tala um einn atburð og hætt að segja frá fólkinu sínu fyrir vestan.
Áfram hélt ég að ávarpa hana frú Guðríður. Hvernig sæki ég að? Er yður bötnuð gigtin? Það var hún sem kallaði þetta nagandi innanmein gigt.
Aristokrati kann sig. Hún var enn ein af systrunum í þessum miklu kjólum er mættu aldri sínum með áhyggjum af félagslegri framvindu. Sjálfsagt hefir hún stundum öfundað stúlkurnar með eingetnu börnin því hún átti ekkert barn. Engin börn heimsóttu hana og þar með vantaði barnabörnin. Hún var ekki amma.
Merkilegt nokk. Breyting hafði orðið og frú Guðríður sló mig með blautum sjóvetling og það eftir að ég hafði bæði sagt frú og yður. Hún var önnur eins og fólk tekur upp á eftir mikla reynslu eða áfall.
"Gætir þú Björn minn farið og skoðað fyrir mig lyftuna hjá herra biskupnum? Málið var kannað og auðvelt að gera sér upp erindi við ritara herradómsins. Höfðum einu sinni verið á lögregluhjólum og sektað ökumenn er óku jafn hratt og við. Hann var mér yngri maður. Komst að lokum upp á lag með að hjóla í áttu og krassa standinum niður í asfaltið. Ritarinn var á fundi en það gerði ekkert til. Lyftan var mæld og reyndist knöpp fjögur fet á kant. Nú tók málið óvænta stefnu. Konan var farin að rökræða við mig og köttinn um þessa lyftu. Hún tönglaðist á öllum forsendum, vaxtarlagi tignarmanna, jafnvel dómgreindarskort. Svona talaði þessi gætna kona, hún Guðríður, aristokrat og systir. Fólk þarf að gá að sér því næsti bær við svona tal er aulaskapur. Forsetar í fylgd heimamanns eru undanþegnir slíku. Nú var komið að aukaheimsókn, því lyftan gat ekki verið nema inngangur að öðru meiru.
Hún var hætt að þéra mig. Ég í bobba því illt að nota þriðjupersónu á mótherjan nema sami eigi eitthvað undir sér.
Konan tók um brjóst sér og kvið, strauk lærin. Gigtin aftur hlaupin í hana. Sjálfsagt veður í aðsigi. Hún var orðin ofantekin eins og sagt var og fötin rúm.
Við Doppi fengum meðferðina. Kötturinn sýnilega orðinn þessu vanur en ég kom af fjöllum. Þetta var þá jubeleum konungsleysis á Íslandi. Og henni sem þótti öfugt farið að þessum myndarlega kóngi er hélt uppi landvörnum í ríki sínu með því að ríða hvítu um torgið sitt.
Guðríður hafði sum sé gert kúvendingu á lífsmáta sínum og farið í skemmtiferð. Og það til Þingvalla.
Ríkisstjórnin hélt upp á sjálfa sig með boðum og ræðum. Hún fór til þess að sjá kónga og fólk af líku standi en það er ekki í umferð hér á landi.
Konan var farin að tala hærra yfir mér og honum Doppa.
Kötturinn velti sér um hrygg eins og hestur. Lá svo á bakinu og strauk á sér skeggið.
"Ég tók með mér nesti, kaffi og svoleiðis." Sólin hoppaði á himni eins og til uppbótar fyrir rigninguna við lýðveldistökuna. Þá var hátíð. Verst að blessaður kóngurinn sendi ekki skeyti fyrr en Kaninn hafði samið það fyrir hann og þingmennirnir fífluðust með forsetakjörið.
"Já, ég heyrði svo sem manninn minn tala um þetta við bræður sem auðvitað voru í Flokknum! Systurnar stóðu hjá undir regnhlífum. Þá kunnu menn sig gagnvart konum."
Á þessari fimmtíuára fagnaðarhátíð lenti frú Guðríður í hremmingum. Allt átti að vera í standi og reglu. Hún fór vegna þess að veðurspáin var góð og í trausti á manninn er stjórnaði lögreglu, nefndum og skipulagi. Hún gekk og varð þreytt. Hún notaði nestið sitt og hafði áhyggjur af Doppa einum heima. Hún sá engan kóng því allt var stopp og stans.
Það tók að rofa til hjá höfundi þessarar átakasögu. Klósettin. Þeir sem treystu þingi og úrvali fólks í nefndir fyrir útisamkomu, eins og svona hét í sveitinni, verða fyrir áfalli við lokaðar klósettdyr. Svona mörgum kömrum á helgum stað.
Hún læddist frá. Hvergi afdrep og fólk út um allt. Álfkonur og fjalladrottningar í vandræðum á opnu svæði og þurftu að gera það sama og konan sem átti köttinn og var að tala við mig frekar en sjálfa sig. Hún hugsaði til upphafsins.
Hvað allir voru glaðir. Sælir með landið sitt eins og þeir einir er fá kvittun upp á fjöll og firði. Fólkið lifði stóra stund.
Maðurinn hennar, Guðmundur sálugi kontoristi, þekkti alla menn sem máli skiptu. Skólabræður og vinir í Flokknum og bræður í Reglunni.
Guðmundur var svo sem stúdent og það frá þeim tíma þegar prófið fékkst ekki með afborgunum og námskeiðum á kvöldin. Þetta hafði Guðríður heyrt. Maðurinn hennar, Guðmundur stúdent, bætti sér í munni um helgar og stundum oftar. Hann hafði að lokum hætt í Háskólanum en átti skólabræður í mörgum fögum. Þá var glatt á Völlunum. Guðmundur söng í sjálfskipuðum karlakór. Lög um Ísland, frelsið og baráttu karlmanna. Svo voru ekki aðrir eftir en menn með stúdentshúfuna hallandi til hægri og sungu á Latínu til þess að sortera sig frá pöplinum. Konurnar héldu sjálfar á regnhlífunum.
Guðríður komst í þrot. Þetta bara gerðist og hún grét.
Hún hafði heyrt um fátækar konur á Þingvöllum og örlög þeirra. Maðurinn hennar átti vanda til að lesa fyrir hana Íslandsklukkuna á kvöldin en hana langaði í svefn.
Að lokum komst hún bak við klett og losaði sig við undirbuxurnar, tók upp stein og setti yfir niðurlægingu sína.
Rútan var ófarin. Umferðin sagði fólkið og allir voru sárir. Sumir reiðir. Fólkið komst að lokum heim til sín úr þessu fimmtugsafmæli Þjóðarinnar.
Þú skoðaðir lyftuna hjá biskupnum? Nú vissi hún stærðina út frá fetunum og vitnaði í föður sinn, fjárbónda fyrir Vestan. Út frá reikningi um stærð fjárrétta og kvía fór hún að telja inn í margnefnda lyftu.
Fjórar ær um rúning. Sama fyrir tvo brundhrúta og lambkreistu. Gæti gengið með þrjá sauði og gemsa.
En hvað marga framsetta forseta með ritara?
Hvar voru konurnar í nefndinni vegna messunnar fyrirhuguðu árið 2000? Hvað þarf stóra gjótu og hve marga steina fyrir nefndina sem sat föst í lyftu eftir að hafa lagt á ráðin um velferð þegna sinna?
Eins og heyra má var þetta tal komið á fremstu nöf. Munur er á að hafa borið virðingu fyrir öllum stjórnvöldum og hætta því svo og hinu að hafa ekki haft skömm í lífinu.
Hún ætlaði ekki á Þingvöll á aldamótum. Þó svo að páfinn kæmi aftur og blessaði hraunið og barrtrén í hlíðinni.
Satt að segja virtist ekki stefna í þátttöku frú Guðríðar í afmæli handauppréttinga um kristna trú. Útlit hennar bar í sér endalok og þetta uppgjör vísbending.
Hún var orðin sjálfstæð og kötturinn gamall.
Ósköp er vont að tapa trúnni. Þó svo að varla sé við hæfi að taka stórt upp í sig þá leiddist mér að sjá tjaldið falla.
Eitt er að vera gamall kommi með öllum fylgikvillum og annað að sjá aristokrata missa traust á öllum gildum lífsins.
Hún hafði verið niðurlægð á helgum stað. Og það var hennar Flokkur og hans Guðmundar sáluga stúdents sem stjórnaði og réð. Ráðherraskipuð nefnd sýknaði þann er hafði valið í hana en Guðríði var sama og náði í pilluglas.
Innihaldið virtist vera til að slá á kvalir en varla lækningameðal.
Svo leið tíminn og hlutirnir lentu í undandrætti. Við Guðríður vorum hætt að þérast og ef ég sagði frú var það óvart. Og ævintýrið hvarf um tímann að baki.
En svo rann upp lokaheimsóknin í litla húsið efst á lóðinni með beðið við götukantinn. Þetta var útkall og dálítið sérstakt.
Konan í húsinu var dáin. Sjúkralið með lækni var í vanda. Kötturinn, hann Doppi, sat á líkinu og hvæsti.
Ungir menn vilja vera karlmenni en fara stundum öfugt að. Eiga til að ruglast í ríminu og eru hræddari við dauða en lifandi.
Nema hvað annar félaga minna dró upp hylki úr beltinu og úðaði gasi framan í köttinn. Hann Doppa sem lá á bakinu meðan frú Guðríður lét dæluna ganga og ég hlustaði á hrun lífs hennar vegna auðmýkingarinnar á Þingvöllum og hvernig Flokkurinn virtist ætla að stefna í sömu átt á næstu aldamótum með ræðum og messum.
Og ljósið rann upp. Þannig stóð þá á þessum áhuga fyrir lyftunni í biskupsgarði.
Doppi datt ofan af líkinu hennar frú Guðríðar. Hárin risu og augun störðu á þessa menn. Vonandi hefir hann ekki þekkt mig.
Sá sem ekki úðaði gasinu yfir köttinn vildi vera aðili að málinu. Steig á hausinn á honum og braut. Báðir hlógu en góndu um leið upp í loftið. Dánarorsök er varla tilgreind þegar kettir eiga í hlut. Ég hafði jafnað mig nokkuð vegna breytinga er orðnar voru í húsinu efst í lóðinni og beðið hans Doppa götumegin.
"Þið gleymið varla þessu afreki í skýrslunni?"
Þetta sagði ég við þessa tvo ungu og dugandi menn. Þeir kærðu en enginn talaði við mig. Skýrslur eru nú einu sinni til þess að pútta þeim í möppu.
Eiturgas var forboðið án takmarkana í Þjóðabandalaginu ár 1919. Gas, ætlað til að sprauta í vitin á fólki, hafði verið tekið í notkun af ráðherranum sem skipaði nefndina til að kanna misfellur á framkvæmd fimmtugsafmælis konungsleysis á Íslandi.
Hanga þá hlutirnir saman tautaði ég við sjálfan mig líkt og ekkjufrú Guðríður að Vestan sem giftist, án barneigna, honum Guðmundi stúdent.
Þetta var orðin nógu stór hola fyrir kött. Doppi fór ofan í beðið sitt með brotinn haus og gasið í öndunarfærunum. Með öllum fyrirvara í upphafi er kötturinn symbolskur frekar en aðalleikari eða e.k. þungamiðja í þessari frásögn.
Þó skömm sé frá að segja fór ég með gott orð í kveðjuskyni. Nátturulega ekki við hæfi í svona tilfelli að lesa upp úr sjálfum sér úr blessuninni honum Ólafi gamla á Söndum. Það býr svo margt undir þegar hann segir "og yfirvöldum sendið lið".
Liðinn tími á það til að harmonera. Hvernig fór fyrir frú Guðríði á helgum stað? Hvað gerðist í lyftunni?
Var kötturinn hann Doppi, sem át þunnildin á móti konunni í húsinu, sá eini sem gerði klárt að verki loknu.
Dró sig áfram á framlöppunum í sitjandi stöðu.
SMÁSAGA EFTIR BJÖRN SIGURÐSSON
Höfundurinn er lögregluvarðstjóri.