Oft þurfti að spyrja til vegar því kennileiti eru fá og hirðingjar færa ger sín oft á milli beitarhaga.
Oft þurfti að spyrja til vegar því kennileiti eru fá og hirðingjar færa ger sín oft á milli beitarhaga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GÓBÍEYÐIMÖRKIN er gífurlegt landflæmi sem liggur bæði í Ytri- og Innri-Mongólíu. Lítil úrkoma fellur á þessu svæði og sólardagar eru fleiri en 260 á ári að meðaltali. Munur á hita sumars og vetrar er frá +40° C til -40° C.

GÓBÍEYÐIMÖRKIN er gífurlegt landflæmi sem liggur bæði í Ytri- og Innri-Mongólíu. Lítil úrkoma fellur á þessu svæði og sólardagar eru fleiri en 260 á ári að meðaltali. Munur á hita sumars og vetrar er frá +40° C til -40° C.

Stormur geisar oft og á vorin berst fínn sandurinn með vindinum alla leið til Peking.

Þegar ég var þarna var um 15 stiga hiti um hádegi en féll niður fyrir frostmark á nóttunni.

Það hafði snjóað áður en ég kom, svo að í lautum og drögum lágu litlir snjóskaflar.

Í Góbí-eyðimörkinni er margvísleg náttúra en eyðileg. Landið er hrjóstrugt og virðist ekki byggilegt. Ger eru engin sjáanleg. Jarðvegur er sendinn með stöku grastóm hér og þar.

10 kameldýr standa yfirveguð og narta af og til í grastó. Fjær þjóta léttfættar gasellur yfir sléttuna. Þarna er auðvelt að efast um það að jörðin sé hnöttur. Þar sem himinn og jörð mætast er mjög líklega brúnin á flatkökulaga veröldinni.

Vegir voru varla sýnilegir nema sem slóði eftir annan bíl sem þarna hafði áður ekið einhvern tíma í vikunni.

Sandöldur eru ekki algengar í landslaginu heldur eru þær á afmörkuðum svæðum. Á einu slíku gekk ég eftir 4 metra háum ölduhryggjum og dáðist að gáróttu munstrinu sem vindurinn hafði mótað í gulan sandinn. Þar sem ég sat þarna á einni öldunni og stundaði rannsóknir mínar kom ríðandi til mín hirðingi til að forvitnast og leita frétta. Spjölluðum við um tíðina og skepnuhald eins og bænda er siður með því að teikna hin ýmsu dýr í sandinn máli okkar til skýringar. Hann dró með nokkrum strikum upp góða teikningu af kameldýri á meðan kindin mín leit út eins og köttur. Dáðist ég að dýrateikningum hans sem báru mjög af mínum.

Héldum við Túmbír bílstjóri nú áfram ferð okkar.

Við komum að geri og heilsaði hann fjölskyldunni með því að kalla kveðjuorðin sem þýða bókstaflega: "Haldiði hundinum" þótt enginn hundur sé nálægt. Ganga þá húsbændur út úr gerinu og taka á móti gestum.

Var honum fagnað vel af eldri konu og dóttursyni hennar, unglingsdreng, sem þarna bjuggu og héldu hjörð kinda og geita.

Veitingar voru bornar fram og fengum við þjóðardrykkinn aigri að drekka sem nú var gerjuð úlfaldamjólk, áfeng á við bjór.

Leit ég í kringum mig innanstokks á meðan bílstjórinn sagði fréttir úr kaupstaðnum. Snjó hafði verið safnað í bala og fötur til þess að láta hann bráðna. Í útsaumuðum verum sem lágu við vegginn voru sængurnar og við hliðina var handsnúin saumavél. Í hópinn bættust nokkrir gestir sem komu ríðandi úr nágrenninu. Grunaði mig að skemmtisögurnar sem Túmbír sagði væru frásagnir af skrítnum ferðamönnum því viðstaddir hlógu undrandi að frásögnum hans. Eftir að hafa staldrað við um stund kvöddum við og aftur var ekið af stað. Nú ætlaði bílstjórinn að stytta sér leið og beygði út úr hjólförunum sem sem hann hafði ekið eftir.

En snjórinn hafði bráðnað í eftirmiðdagssólinni og vatnið sigið niður í jarðveginn og orðið að aurbleytu sem bíllinn festist í og sökk því meira sem hann spólaði.

Dreif þegar að 3 unglinga ríðandi á hestum. Eftir nokkur orðaskipti þeystu þeir eitthvað út í buskann á fákum fráum en komu svo aftur með skóflu og viðarbúta til að setja undir hjólin, ef hægt væri að mjaka bílnum yfir á þá í stað þess að hann sykki í dýið.

Var nú mokað og ýtt, kíkt undir bílinn, sparkað og spekúlerað en ekkert dugði.

Frómt frá sagt var mér hreint ekkert illa við það að festast þarna. Ger gömlu konunnar sem við vorum nýbúin að yfirgefa var aðeins í kílómetra fjarlægð og ég þóttist viss um að hún mundi lofa mér að gista um nóttina ef bíllinn næðist ekki upp. Sem og varð.

Þegar tók að skyggja beiddist bílstjórinn gistingar fyrir mína hönd og var það auðsótt mál. Sjálfur ætlaði hann að sofa í bílnum og freista þess að koma honum upp í morgunsárið. Gamla konan og unglingurinn komu síðan meðljómandi góða súpu með heimatilbúnum núðlum og þurrkuðu geitakjöti handa mér og bílstjóranum.

Sofnaði ég síðan í öllum fötum í svefnpoka mínum á gólfinu hjá konunni sem undraðist hversu dúðuð ég ætlaði að sofa. Sjálf skreið hún undir sæng sína í undirkjól sýndist mér. Ég er óvön þeim næturkulda sem Mongólar myndu líklega kalla ferskt loft.

Eftir að eldurinn hefur slokknað í ofninum tekur næturkulið við og fer niður fyrir frostmark á þessum tíma árs.

Ekki vissi ég hvernig ferðinni lyki ef ekki tækist að koma bílnum upp úr aurnum, því engin dráttartæki voru til í nágrenninu.

Á tveggja sólarhringa ferðalagi höfðum við ekki mætt einum einasta bíl og vorum þó á ferðamannaleið.

Gleði mín var því óblandin þegar við um morguninn heyrðum bílhljóð nálgast og stöðvast fyrir utan. Brosmildur bílstjórinn kom inn með blöðrur á höndunum og þáði morgunverð.

Eftir að þessi indæla kona og gestgjafi minn hafði skrifað niður heimilisfang sitt svo ég gæti sent henni myndir, kvaddi ég og gaf henni fyrir næturgreiðann krukku með rússneskri sultu sem ég átti í farteski mínu.

Það var mér þó nokkur spurn hvernig hirðingi sem býr á flatri eyðimerkurgrund staðsetur sig á veraldarkortinu svo bréf til hans komist til skila. En þá er þess að minnast að póstþjónustan var "fundin upp" af Mongólum á tímum Djengis Khans, svo ekki er ástæða til að vantreysta þeim í þeim efnum.

Í Góbí er algengt að bændur haldi kameldýrahjarðir. Þetta eru harðgerð dýr sem þola langvarandi þurrka og geta léttilega borið tjald og búslóð á milli bithaga. Ullin af þeim er nýtt og mjólkin drukkin.

Hirðingar í Góbí hafa oft betri aðgang að mjólk en vatni. Kindakjötið er því algengt að sjóða í mjólk.

Var nú ferðinni heitið að Byanzag sem kallað er "Flaming Red Clifs" upp á ensku eða Logandi Rauðuklettar. Bergið í þeim er rauðleitt og í kvöldsólinni verða þeir sem glóandi. En það er ekki fyrir það sem þetta svæði, sem er á stærð við Rauðhólana, er þekkt. Þarna báru risaeðlur beinin sem síðar steingerðust og búið er að festa saman og stilla upp í rismiklum sölum vestanhafs og austan svo við mennirnir getum séð ferlegheitin sem á undan okkur gengu á þessari jörð.

Það var árið 1920 að Bandaríkjamanninum Roy Chapman Andrews, metnaðarfullum og dugandi steingervingafræðingi, tókst að safna nægilegu fé til þess að geta skipulagt rannsóknarleiðangur með fjölda vísindamanna inn í Gobí-eyðimörkina. Upphaflega lagði hann leið sína þangað til að leita að týnda hlekknum, frummanninum. Hann fann ekki aðeins týnda hlekkinn. Hann fann fyrstu risaeðlueggin og beinagrindur fjölda risaeðlutegunda sem ráfað höfðu um á þessum slóðum fyrir rúmum 70 milljónum ára.

Síðan hafa aðrir leiðangrar grafið á þessu svæði með skeiðum eða jarðýtum og oft með góðum árangri. Nú er eðlilega búið að banna að flytja þessar náttúruminjar úr landi.

Ég lagði af stað á risaeðluslóðir ríðandi á kameldýri, eftir að rússnesk hermannastígvél í hirðingjastíl höfðu verið dregin á fætur mína, því kamelbóndanum fannst íþróttaskór út í hött á reiðmanni.

Nokkrum dögum áður hafði ég farið í reiðtúr á hesti og sat þá í mongólskum hnakki. Hann er smíðaður úr tré og aðeins þunn motta lögð yfir til að sitja á.

Þótt ég hafi aldrei áður ferðast á kameldýri var það ævintýri mér ekki til mikils gamans þar sem þessi seinasti reiðtúr minnti ennþá óþægilega á sig.

Lét ég samt sem ekkert væri og fór í kappreiðar í kamelskundi við Batmagne, hirðingjasoninn broshýra, sem fylgdi mér eins og væri ég langt að komin uppáhaldsfrænka hans.

Þegar ég steig af baki á brún Logandi Rauðkletta greip mig ógurleg löngun til þess að finna þó ekki væri nema litlafingurkjúku af risaeðluunga eða örðu af eggjaskurn. Klifruðum við Batmagne saman niður klettana og veltum um steinum í leit að beinum eða eggjaskurn. Fann ég loks brot af sveru beini sem ég bar laumulega inn á mér meðan ég krönglaðist aftur upp klettana. Komin upp á gilbarminn sýndi ég beinið hróðug trúnaðarmanni mínum bílstjóranum.

"Þetta bein," hneggjaði hann og lék, "er lærleggur af hesti".

Þar fór það.

Settumst við nú öll upp í bílinn og ókum fram hjá lítilli tjörn, vin í eyðimörkinni sem er frumskilyrði þess að hirðingjalíf þrífist á þessum slóðum. Bílinn stöðvaði á svæði með runnagróðri. Þarna var eina runnategundin sem vex í Góbí og ber laufblöð. Fæstar af greinunum voru samt laufgaðar heldur dauðar og uppþornaðar og því tilvalin sprek í eldinn.

Brutum við sprekið og söfnuðum því í bílinn. Að verkinu loknu gekk ég ein út í buskann og settist þar niður og hlustaði. Aldrei á ævi minni hef ég heyrt aðra eins þögn. Ekkert heyrðist nema suð sem ég vissi að var í minni eigin blóðrás.

Þegar sprekið var komið í bílinn ókum við til baka í gerið. Húsmóðirin, sem var nokkru yngri en ég, eldaði handa okkur grjónagraut og spann handa mér á snældu sína mórautt band úr úlfaldahári sem minjagrip. Hún sýndi mér fjölskyldumyndir og sagði mér af börnum þeirra hjóna sem væru 4. Þrjú þeirra væru í skóla en Batmagne sem væri 13 ára og læs væri heima því þau þyrftu á hjálp hans að halda. Gamli maðurinn í horninu hjá þeim væri faðir hennar.

Á meðan bílstjóri og húsbændur spjölluðu fór ég í vettvangskönnun um umhverfið með honum Batmagne vini mínum. Lékum við okkur að því að grípa smáeðlur af jörðinni og klóra þeim á bakinu og við að taka myndir til skiptis hvort af öðru og láta myndavélina taka mynd af okkur saman.

Þegar ég kvaddi fjölskylduna með litlum gjöfum kvaddi öldungurinn mig af stakri hlýju, en hann hafði annars lítt blandað sér í samræðurnar heldur reykt pípu sína. Það var auðséð að hann hafði á yngri árum verið höfðinglegur maður í útliti og mundi líklega tímana tvenna. Heimsókn útlendings eins og mín var þeim auðfinnanlega góð tilbreyting í hversdagslegu amstri.

Skrítið hvað hversdagslegt líf þeirra var mér mikill framandleiki.

Nú var ekið heimleiðis og kom ég til baka til Dalanzadgad eftir að dimmdi.

Komin heim á hótelið spjallaði ég eilítið við starfsstúlkurnar á orðfárri ensku. Fékk sjóðandi heitt vatn á brúsa, sötraði mitt te og lagðist til svefns í öllum fötum í ísköldu hótelherberginu.

Daginn eftir skein sól aftur í heiði og Alta dreif mig út á flugvöll, löngu áður en mér fannst tímabært að mæta þar. Hún hafði frétt að það væri ríflega yfirbókað í vélina. Á flugvellinum var stór ferðamannahópur sem átti farmiða og forgang með vélinni, fyrir utan okkur öll hin. Alta notaði nú öll sín sambönd og klókindi til þess að ég kæmist með. Næsta flugferð var ekki fyrr en eftir nokkra daga en þá átti ég að vera lögð af stað með lestinni til Peking.

Þetta tókst hjá henni auðvitað og ég flaug til Úlan-Bator og tók leigubíl að farfuglaheimilinu. Hitti ég þar aftur útlenda ferðalanga, félaga sem ég hafði kynnst þar áður.

Gisti ég þarna seinustu nótt mína í Mongólíu áður en ég lagði aftur af stað með rússnesku lestinni sem kom frá Moskvu með viðkomu í Úlan-Bator á leið til Peking.

Til Peking kom ég nokkrum dögum áður en 50 ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína var haldið hátíðlegt hinn 1. október síðastliðinn eins og menn muna.

Að verða vitni að því þegar Kínverjar undirbúa og halda hátíð með þátttöku hálfrar milljónar manna og að fylgjast með mannhafinu á götunum þegar þessi iðjusama þjóð tekur sér frídaga er annað ævintýri og önnur saga.

EFTIR ÁSTU ÓLAFSDÓTTUR

Höfundurinn er myndlistarmaður í Reykjavík.

Höf.: EFTIR ÁSTU ÓLAFSDÓTTUR