KONUNGLEGA óperan hefur undanfarin ár hafið starfsárið með ókeypis útitónleikum á Friðriksbergi. Í ár ætlar ballettinn að hafa sama háttinn á og byrja starfsárið með útisýningu á Kastellet, gömlu virki steinsnar frá litlu hafmeyjunni. Þeir sem verða í Kaupmannahöfn 12. ágúst þegar óperan verður með tónleika sína og 28. ágúst þegar ballettinn verður í Kastellet ættu að nota tækifærið og fara, því þetta eru einstakar samkomur.
Líkt og hjá flestum óperuhúsum í heiminum mun Verdi setja svip á komandi starfsár óperunnar, því 2001 er hundrað ára dánarafmæli meistarans. Hjá ballettinum fara saman uppsetningar á klassískum ballettum eins og Þyrnirósu í uppsetningu Helga Tómassonar og glæný verk. Að vanda skiptast á gamlar og nýjar uppsetningar í báðum listgreinum.
Verdi í norrænu samhengi
Upphaf óperustárfsársins verður að vanda í Søndermarken á Friðriksbergi. Fólk safnast saman í tæka tíð, lætur fara vel um sig á teppum á grasflötinni, hefur með sér mat og drykk og nýtur tónlistarinnar undir beru lofti. Og aðsóknin er ekki til að kvarta yfir, því þarna hafa komið um 15 þúsund manns.Komandi starfsár er það fyrsta, sem hinn nýji óperustjóri Kasper Holten hefur skipulagt upp á eigin spýtur. Hann hefur áður leikstýrt óperum og það ætlar hann að gera áfram. Fyrsta uppsetning hans við Konunglega verður ópera Tjækovskís, Spaðadrottningin, auk þess sem hann setur upp nýja barnaóperu. Tvær barnaóperur verða frumsýndar í samvinnu við óperuna í Ystad í Svíþjóð og alls verða 72 sýningar á þeim á Eyrarsundssvæðinu. Eyrarsundsbrúin verður opnuð í sumar og barnaóperurnar eru hluti af viðleitni til að undirstrika gildi landfastra tengsla landanna tveggja.
Carmen kemur upp í nýrri uppsetningu í desember, þar sem norska söngkonan Randi Stene fer með aðalhlutverkið. Hún hefur áður sungið hlutverkið á Konunglega með eftirminnilegum hætti. Aðeins verður flutt ein Wagner-ópera á komandi starfsári, en það er Parsifal. Holten segir það þó ekki neina stefnubreytingu, heldur aðeins að í ár verði áhersla á að bæta við fleiri verkum eftir Strauss og Verdi. Capriccio eftir Strauss verður sett upp í fyrsta skipti. Mozart gleymist ekki, því Brúðkaup Fígarós verður á fjölunum og einnig La Boheme eftir Puccini.
Tvær nýjar Verdi-uppsetningar verða á dagskrá, Otello og Grímudansleikurinn, sem bætast við tvær eldri uppsetningar, La Traviata og Falstaff. Í lok starfsársins að ári, 27. maí - 2. júní, verður svo Verdi-hátíð, þar sem áherslan verður lögð á Verdi í norrænu samhengi. Grímudansleikurinn byggir á sænskri sögu og í fyrirlestrum, með sýningum óperanna fjögurra og tónleikum verður þessi þráður rakinn frekar.
Nútíminn gleymist ekki. Þrjár óperur eftir Brecht og Weill verða aftur á dagskrá, Das Berliner Requiem, Der Lindberghflug og Dei Sieben Todsünden. Þær verða settar upp saman á sýningu, sem þótti á sínum tíma einstaklega áhrifamikil.
Í ár var frumsýnd ný dönsk ópera eftir Poul Ruders, Tjenerindens fortælling, byggð á bók Margaret Atwood. Sýningin vakti gífurlega athygli, þótti bæði sterk, áhrifamikil ogí anda bókarinnar. Það er hins vegar meiri rómantík en óhugnaður yfir Holger Danske frá 1789 eftir Friedrich Ludwig Aemilius Kunzen, þýskt tónskáld, sem um hríð bjó í Kaupmannahöfn. Þar varð hann fyrir áhrifum af dönsku sögunni um Holger danska, hetjunni, sem vaknar þegar Danmörku er ógnað.
Þyrnirós Helga Tómassonar og fleiri stórverk
Kastellet er eins og leiktjöld í sjálfu sér; fjarska fallegt umhorfs þarna og þar verður sett upp svið fyrir ballettinn og hljómsveitina. Til þessa upphafs eru ballettunnendur örugglega farnir að hlakka og svo er bara að vona að veðurguðirnir verði framtakinu hliðhollir.Þyrnirós í uppsetningu Helga Tómassonar við tónlist Tjækovskís var ákaft hrósað þegar hún var fyrst sett upp hér 1993. Miðarnir seljast alltaf upp á stundinni og sama verður vísast nú, en eins og sjá má hér að neðan er þó ekki öll von úti um að fá miða. Svanavatnið, annar klassíker við tónlist Tjækovskís, verður áfram á dagskrá og sú sýning er einfaldlega himnesk. Og enn meiri rómantík verður að hafa í Giselle.
Bítlar og ballett útiloka ekki hvortannað. John Neumeier ballettmeistari í Hamborg samdi á sínum tíma ballettinn Yesterday fyrir Konunglega við samnefnt lag bítlanna og fleiri lög og sá ballett er nú aftur á dagskrá. Rómeó og Júlía er annar ballett Neumeiers, við tónlist Prokofievs, sem enn verður tekinn upp, mörgum til óblandinnar gleði.
Nútímaklassíker eins og George Balanchine gleymist ekki og meðal annars verður hrífandi uppsetning á Symphony in C aftur á dagskrá. Auk þess eru nýrri verk eftir danshöfunda eins og Tom Rushton, breskan dansara og danshöfund, sem býr nú í Danmörku og hina bandarísku Lilu York, sem um árabil dansaði í New York með ballettflokki Paul Taylor.
Fransk-danski ballettmeistarinn Auguste Bournonville starfaði í Kaupmannahöfn á tímum Fjölnismanna. Kermessen i Brüggen er ballett frá 1851, byggður á hollenskri sögu og gott dæmi um verk meistarans, sem Konunglegi ballettinn geymir eins og sjáaldur augna sinna.
Ballettinn er í uppsveiflu þessi árin eftir tíð mannaskipti, nú síðast með hinni bresk-áströlsku Mainu Gielgud, sem tókst ekki að glæða dansgleðina. Það virðist allt annað núna að sjá ballettinn undir stjórn danska dansarans Aage Thordal-Christensens, sem sér til trausts og halds hefur hina bandarísku eiginkonu sína Colleen Neary sem 1. ballettmeistara.
Alltaf hægt að fá miða
Það er kannski of mikið sagt að alltaf sé hægt að fá miða, en það er þó þannig að þegar miðasalan opnar kl. 13 daglega eru settir í sölu miðar á sýningu dagsins, ef uppselt er. Það er því ekkert annað en að freista gæfunnar, mæta snemma og sjá hvort þetta hefst ekki. Ef ekki er uppselt eru miðar á sýningar kvöldsins seldir á hálfvirði eftir kl. 17.Heimasíða hússins er: www.kgl-teater.dk og síminn í miðasölunni er 00 45 33 69 69 69.