Silja Schandorff og Kenneth Greve í Symphony in C eftir George Balanchine.
Silja Schandorff og Kenneth Greve í Symphony in C eftir George Balanchine.
Eftir mannaskipti er Konunglegi danski ballettinn greinilega kominn á gott ról eins og SIGRÚN DAVÍÐSDÓTTIR sá á nýjustu uppsetningu flokksins.

ÞRÍR ballettar, þar af tveir nýir, voru frumsýndir nýlega á Konunglega við feykigóðar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda. Eftir öldudal undanfarin ár og tíð mannaskipti virðist nú vera farin að færast ró yfir flokkinn. Dansgleðin geislar af dönsurunum og yljar áhorfendum um hjartarætur.

Annar nýi ballettinn er eftir Bretann Tim Rushton, sem hefur búið í Danmörku um árabil og dansað með Kongunglega ballettinum. Hinn er eftir bandaríska danshöfundinn Lar Lubovitch, sem hann samdi sérstaklega fyrir Konunglega ballettinn. Þriðji ballettinn er nútímaklassíker, Symphony in C eftir George Balanchine, sem John Taras, gamall samstarfsmaður Balanchine, setti upp hér ásamt Colleen Neary, 1. ballettmeistara við Konunglega og fyrrum sólodansmey hjá Balanchine.

Svipmynd úr Englum alheimsins

"Skildi þetta vera ballett byggður á Englum alheimsins?" var fyrsta hugsunin þegar tjaldið var dregið frá og við blöstu hráir veggir og mannverur, sem hjúfruðu sig upp að veggjunum. Þetta leit út eins og stílfærð og listræn útfærsla á lokuðu deildinni á Kleppi.

"Dominium" kallar Rushton ballett sinn, latneskt orð er vísar til valda og yfirráðasvæðis, þar sem Rushton notar inngang að nýrri óperu eftir Philip Glass, "The Civil Wars", auk nýsaminnar hörputónlistar eftir Martin Åkerwall í lokin. Verk Glass er fyrir hljómsveit og söngvara og Rushton fellir söngvarana inn í sýninguna á skemmtilegan hátt. Þarna fer allt saman, dansinn, sjónræn áhrif sviðsmyndar, búninga og ljósa, bæði hvað varðar liti, rými og tónlist.

Sex karldansarar eru lokaðir inni á þessari lokuðu deild eða svæði, þar sem konur standa yfir og horfa á þá. Um síðir opnast hurð, dansmey fetar sig inn og dansar á móti einum dansaranna. Það er spilað á tilfinningar innilokunar, yfirráða og valds á einfaldan, stílfærðan og sterkan hátt í magnaðri sviðsmynd og ljóssetningu.

Það eru þau Marie-Pierre Greve og Alexei Ratmansky, sem dansa parið, bæði tvö í hópi athyglisverðustu dansara Konunglega ballettsins. Greve hefur mjög sérstaka útgeislun, nær einhverju sem liggur á mörkum hins sjúklega og sem ýtir undir vott af óhugnaði, sem liggur í loftinu. Eftir þetta er óhætt að hlakka til fleiri verka frá Rushton.

Skrankenndur fegurðaróður

Lubovitch notar einnig söngtónlist, en lengra ná varla hliðstæður verka þeirra Rushtons. "All ye need to know" sækir heiti sitt í ljóðlínur úr "Ode on a Grecian urn" eftir breska skáldið John Keats (1795-1821): "Beauty is truth, truth beauty, that is all/ Ye know on earth, and all ye need to know." Tónlistin eru brot úr nokkrum óperum eftir Mozart.

Skilyrðislaus ástarjátning Lubovitch til fegurðarinnar vakti upp spurningar, þegar Lubovitch kynnti verkið fyrir blaðamönnum, m.a. umhvort að baki tilvitnuninni lægi einhver kaldhæðni. Það væri öldungis ekki, fullvissaði hann viðstadda um. Fegurðin væri honum eitt og allt.

Þessi fegurðardýrkun Lubovitch breyttist þó á sviðinu í hálfgert skranyfirbragð. Innst á sviðinu er stofa eins og á tímum Mozarts með sembal og þar voru söngvararnir klæddir í búninga Mozart-tímans inni á bak við svarleita blæju, sem skildi þá frá sviðinu. Útlitið minnti helst á mynd á ódýrum konfektkassa og vakti ekki góðar væntingar.

Dansararnir dönsuðu framan við Mozartstofuna, klæddir hvítum, léttum og einföldum búningum í algjörri mótsetningu við rókóko-ofhlæðið að baki þeim. Einhvern veginn náði þessi samsuða dansins, Mozarts, einfaldleika og smekkleysu aldrei að renna saman í neitt, sem nálgaðist heild, hvað þá að hún væri áhrifamikil. Sýningin komst aldrei lengra en að vera vandræðagangur. En það var þó þess virði að sjá ballettinn til að heyra sungið "Soave sia il vento"úr Cosi fan Tutte.

Hápunktur í nútímaklassík

Að mati John Taras er Symphony in C líkt og kennslustund fyrir dansara, áhorfendur og danshöfunda í öllu því, sem klassískur ballett hefur upp á að bjóða. Nokkurs konar flugeldasýning klassíska ballettsins. Það er auðvelt að fallast á það sjónarmið Taras þegar uppsetning hans og Colleens Neary rennur yfir sviðið.

Taras er upptekinn af hvað Balanchine var mikill snillingur í að fella dansinn að tónlistinni. Symphony in C er gott dæmi um það. Tónlistin, sem er eftir George Bizet, hreinlega líður inn í dansinn og lifnar í honum á undraverðan og hrífandi hátt. En undirstaðan undir þessu er að ballettflokkurinn dansar svo af þeim geislar.

Balanchine samdi ballettinn upphaflega fyrir ballett frönsku óperunnar, þar sem hann var frumsýndur 1947. Það er glæsileikinn franski með snert af sýndarmennsku á léttu nótunum, sem gegnsýrir ballettinn, þar sem skiptast á hópdansar í fjórum þáttum með sólópari í hverjum, auk hóps af dönsurum, sem gegna veigameira hlutverki en hópurinn.

Yfirbragðið er fallegt, létt og hrífandi og þrískiptingin í sólódansara, og hina tvo hópana gæðir ballettinn margfeldni og dýpt sem gerir sýninguna svo hraða og margslungna. Á þessum bakgrunni nutu stjörnudansarar eins og Caroline Cavallo og Alexei Ratmansky, Silja Schandorff og Kenneth Greve sín til fullnustu. Hér er á ferðinni sýning, sem ballettunnendur geta hlakkað til að berja augum.