Gulfoss er ekki síður fallegur í vetrarbúningi. Hér stendur maður á ísuðum stalli við neðri fossinn og virðir fyrir sér frostúðann. Myndin er úr bók Hjálmars, Hvítá frá upptökum til ósa, 1989.
Gulfoss er ekki síður fallegur í vetrarbúningi. Hér stendur maður á ísuðum stalli við neðri fossinn og virðir fyrir sér frostúðann. Myndin er úr bók Hjálmars, Hvítá frá upptökum til ósa, 1989.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjálmar R. Bárðarson er maður ekki einhamur. Fyrir utan það að teikna skip og síðar að gegna erilsömu embætti siglingamálastjóra liggur eftir hann umfangsmikið og glæsilegt höfundarverk.

Hjálmar R. Bárðarson er maður ekki einhamur. Fyrir utan það að teikna skip og síðar að gegna erilsömu embætti siglingamálastjóra liggur eftir hann umfangsmikið og glæsilegt höfundarverk. Í marga áratugi hefur Hjálmar verið einn af okkar fremstu ljósmyndurum og segja má, að hann sé búinn að mynda náttúru Íslands frá öllum hugsanlegum sjónarhornum á rúmlega 60 árum og er enn á fullu, enda ekki nema 81 árs.

Íslandsbækur Hjálmars eru orðnar 11. Sú fyrsta, Ísland farsælda frón kom út 1953 og sú síðasta, Íslenskur gróður kom út í árslok 1999. Áður hafði hann gefið út kennslubók í ljósmyndun og Flugmál Íslands, verðlaunaritgerð úr MR frá 1939.

Bókverk Hjálmars hefur alveg sinn eigin svip, sem helgast af því, að hann hefur tök á því að hanna bækurnar sjálfur í tölvu. Hann leggur með öðrum orðum gjörva hönd á heila móverkið nema prentunina og gefur bækurnar út sjálfur.

Tvennt er það einkum að mínu mati sem gefur bókum Hjálmars gildi. Annarsvegar margar afburða góðar ljósmyndir sem eru ávöxtur myndrænnar tilfinningar og þeirrar elju og þolinmæði að gefa sér tíma til þess að fara aftur og aftur á sömu staði á ýmsum árstíðum. Hinsvegar felst gildið í ítarlegum og frábærlega vel unnum myndatextum þar sem Hjálmari tekst að koma yfirgripsmikilli fræðslu á framfæri.

Hjálmar R. Bárðarson er fæddur á Ísafirði 1918 og þar ólst hann upp. Ungur að aldri fór hann að taka ljósmyndir á ferðalögum með skátafélagi og jafnframt eignaðist hann snemma góða myndavél, Rolleikord 6x6 og 35mm Retinu. Núna er hann betur vélvæddur og tekur mest á Hasselblad og Nikon; en Fuji 6x17 bregður hann fyrir sig þegar myndefnið krefst þess að hafa mjög breiðan vinkil.

Ljósmyndir af íslenzkri náttúru fór Hjálmar að taka um 1930, en í fyrsta eiginlega ljósmyndaleiðangurinn fór hann sumarið 1939, sem eftir skrám Veðurstofunnar er bezta sumar 20. aldarinnar á Íslandi. Þá fór Hjálmar einsamall í nærri þriggja vikna gönguför um Hornstrandir og á þeim tíma var þar enn byggð. Þá var ekki um annað ræða en svarthvítar myndir og Hjálmar myndaði mest landslag, en líka bæi og fólk. Þótti þeim Strandamönnum stórskrýtið að maður gæti verið við aðra eins iðju um hábjargræðistímann.

Eftir stúdentspróf lagði Hjálmar stund á skipaverkfræði í Danmörku. Að loknu námi starfaði hann fyrst hjá Stálsmiðjunni og teiknaði þar dráttarbátinn Magna, fyrsta stálskipið sem smíðað var á Íslandi. Síðar varð hann skipaskoðunarstjóri og skipaskráningarstjóri og gegndi embætti siglingamálastjóra frá 1970 til 1985. Síðan þá hefur bókverkið verið aðalviðfangsefni hans.

Fyrsta Íslandsbók Hjálmars, Ísland farsælda frón kom út með texta á 6 tungumálum 1953. Hún er nú uppseld. Næst í röðinni var Ísland - Iceland - Islande, 1965, einnig með texta á 6 tungumálum og einnig hún er uppseld. Sú þriðja var Ís og eldur 1971, sérútgáfur á íslenzku, ensku, dönsku og þýzku. Fjórða bókin er Ísland, svipur lands og þjóðar, 1982 og 1986, sérútgáfur á íslenzku, ensku og þýzku. Sú fimmta í röð Íslandsbóka er Fuglar Íslands, sem fyrst kom út 1986, sérútgefin á fjórum tungumálum. Sú sjötta er Hvítá frá upptökum til ósa 1989 og var hún sérútgefin á íslenzku, ensku og þýzku. Sjöunda Íslandsbókin er Vestfirðir 1993, sú áttunda er Íslenskt grjót, 1995 og sú níunda er jafnframt sú nýjasta: Íslenskur gróður, 1999.

Hjálmar er búinn að "kemba landið" eins og stundum er sagt. Hann hefur verið óþreytandi ferðagarpur á öllum árstíðum og telur þær allar jafn góðar til ljósmyndunar. Ekki tekur hann eitt landsvæði fram yfir annað, en meðal þess, sem hann hefur lagt sérstaka stund á að mynda, eru eldgos. Hann er félagi í Jöklarannsóknafélaginu og í Surtseyjarfélaginu hefur hann verið frá stofnun þess.

Í jöklaferðir hefur hann ekki farið öðruvísi en í einhverjum félagsskap, en annars er hann oftast einn á ferð - og þá vel vopnaður myndavélum. Það getur tekið langan tíma að finna myndefni, rétt sjónarhorn og bíða eftir hagstæðri birtu, og það er naumast á aðra leggjandi að vera á ferðinni með náttúruljósmyndara. Jafnframt hefur Hjálmar verið á ferðinni í loftinu; tekið urmul mynda úr flugvél. Sveinn Björnsson, sonur hins þekkta flugmanns Björns Pálssonar, hefur flogið með Hjálmar á eins hreyfils Cessna-flugvél. Úr þeirri flugvél tók Hjálmar margar frábærar loftmyndir í Vestfjarðabók sína; einnig í Hvítárbókina.

Vegna nýju bókarinnar um íslenzkan gróður hefur Hjálmar hinsvegar ekki þurft að bregða sér upp í háloftin. Fremur hið gagnstæða: Að lúta lágt því myndefnið er oft við fætur ljósmyndarans. Flestar myndanna tók Hjálmar á Hasselblad-vélina með macro-linsu sem er sérstaklega gerð fyrir nærmyndir. Það kann að koma á óvart, en við þessar aðstæður notar Hjálmar blossa, tveggja lampa macroflash, jafnvel í sólskini.

Hjálmar hefur þann hátt á í bókum sínum að hann byrjar á því að bregða ljósi á myndunarsögu og uppruna. Náttúruunnendur geta ef þeir vilja fengið í samþjöppuðu formi ágætar upplýsingar. Vestfjarðabókin hefst til dæmis á greinargerð um myndun Vestfjarðakjálkans og í Hvítárbókinni er upphafskafli um vatnið í öllum sínum myndum. Í nýjustu bók Hjálmars um gróður Íslands er á sama hátt farið aftur í tímann og hugað að því sem steingervingar segja okkur um gróðurfar fyrir 12-14 milljónum ára.

Í bókinni er margt hnýsislegt sem ástæða væri til að vekja athygli á, en rýmið leyfir það ekki hér. Til dæmis mætti nefna sveppi, sem vaxa villtir og Íslendingar þora helzt ekki að bragða og telja þá alla eitraða. Einn er sá sveppur sem af ber sökum litfegurðar. Það er berserkjasveppur og er í bókinni minnisstæð mynd af tveimur slíkum, sem virðast vera í ástaratlotum.

En verður ekki að hafa grasafræðing með í ferðum þegar ráðizt er í svona verkefni? Ekki hafði Hjálmar með sér neinn slíkan að staðaldri, en Eyþór Einarsson grasafræðingur fór með honum í þrjá leiðangra. Bók um gróður verður hinsvegar ekki unnin nema með því að hafa til hliðsjónar ýmsar skrár um gróður og þar er Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson grundvallarrit. Nokkrar aðrar greiningabækur studdist Hjálmar við svo sem sjá má af langri ritaskrá aftast í bókinni. Einnig hafði hann samband við helztu sérfræðinga okkar og þeir greindu plöntur fyrir hann þegar hann var í vafa og aðstoðuðu hann við gerð myndatextanna. Þar var haft að leiðarljósi að textarnir væru almenns eðlis en lýstu þó plöntunum.

Upphaflega var hugmynd Hjálmars að búa til eina bók um grjót og gróður. Myndefnið vatt hinsvegar svo upp á sig að niðurstaðan varð sú að skipta því í tvær bækur. Fjölmargar myndir hefur hann tekið sérstaklega fyrir þessar bækur, en hann gengur einnig í sjóð mynda sinna frá fyrri áratugum. Gróðurmyndirnar eru frá síðustu 20 árunum, segir hann.

Þegar Hjálmar lítur til baka telur hann að Fuglabókin hafi verið tímafrekust. Hugmyndin var upphaflega sú, að Finnur Guðmundsson, fuglafræðingur og frændi Hjálmars, skrifaði texta bókarinnar en Hjálmar tæki myndirnar. En áður en til þess kom dó Finnur. Hjálmar hélt samt sínu striki og í myndatextum studdist hann við ýmsar ritgerðir Finns um fugla. "Feður okkar Finns ólust upp saman í Kollafjarðarnesi," segir Hjálmar, "og ég tileinkaði honum bókina."

Hvítárbókin var mjög víðfeðmt verkefni. Þemað er í rauninni hringrás vatnsins og hugmyndin kviknaði við dálítinn læk sem sprettur upp og rennur yfir mosa við innstu upptök Fúlukvíslar við Langjökul. Hún rennur síðan í Hvítárvatn en bókin spannar allt vatnasvæði Hvítár. Hjálmar fylgir öllum ám sem falla til Hvítár og neðan við ármót Sogs og Hvítár fylgir hann Ölfusá til ósa.

En það er ekki aðeins náttúran og vatnasvæðið sem er umfjöllunarefni í þessari frábæru bók; þar er margt um mannlíf og sögu og að vanda rúmast margvíslegur fróðleikur í myndatextum. Við gerð þeirra kveðst Hjálmar hafa orðið að lesa sér mikið til, bæði um söguleg og jarðfræðileg efni.

Ljósmyndaleiðangrar Hjálmars eru orðnir fleiri en tölu verður á komið. Einn af þeim minnisstæðustu var ferð til Hveravalla um jólaleytið með Sigurjóni Rist vatnamælingamanni. Farartækið var beltadráttarvél. Hún var ekki ýkja hraðskreið og í tvær nætur urðu þeir ferðafélagar að sofa inni í þröngu vélarhúsinu. Báðir voru stórvaxnir en þetta tókst með því að báðir lágu í vinkil.

Í náttúruljósmyndun vinna menn stundum með heimildagildi sem forgangsverkefni, eða á hinn bóginn að megináherzlan er lögð á listrænu hliðina. Í seinni tíð hefur mikil gróska orðið í ljósmyndun í íslenzkri náttúru og nýjar og fallegar myndabækur um Ísland koma út á hverju ári. Listræna áherzlan er þar oftast í fyrirrúmi og við höfum eignast nokkra úrvalsljósmyndara sem sinna þessu.

Eftir því sem fleiri myndabækur koma út - oft með verulega áherzlu á gleiðlinsumyndir - er sýnt að þrátt fyrir tilbreytinguna í íslenzkri náttúru gætir orðið tilbreytingarleysis í þessum bókum.

Í þessum bókaflokki skera bækur Hjálmars R. Bárðarsonar sig nokkuð úr. Í fyrsta lagi vegna þess að honum tekst oft vel að sameina heimildagildi og listræn vinnubrögð, en einnig vegna þess að bækur hans eru um leið hafsjór af fróðleik.

EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Höf.: EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON