"Í dag vil ég gefa," segja leikarar Perlunnar í sýningunni.
"Í dag vil ég gefa," segja leikarar Perlunnar í sýningunni.
ÞAÐ ríkti gleði og eftirvænting í Iðnó þegar blaðamaður leit þar inn á æfingu leikhópsins Perlunnar. Á sunnudaginn, 7. maí, kl.

ÞAÐ ríkti gleði og eftirvænting í Iðnó þegar blaðamaður leit þar inn á æfingu leikhópsins Perlunnar. Á sunnudaginn, 7. maí, kl. 15 verður frumsýning á dagskránni Perlur og skínandi gull og tilefnið er þríþætt að sögn Sigríðar Eyþórsdóttur leikkonu og kennara sem er umsjónarmaður Perlunnar og listrænn leiðbeinandi.

"Leikhópurinn er sautján ára á þessu vori og þetta er fyrsta sýningin okkar hér í Iðnó eftir að Perlan og Leikfélag Íslands gerðu með sér samstarfssamning um sýningar Perlunnar hér í þessu fallega húsi. Sýningin er svo framlag okkar til Reykjavíkur - menningarborgar Evrópu árið 2000 og er unnin í samstarfi við Menningarborgina. Við höfum því ríka ástæðu til að gleðjast," sagði Sigríður.

Sex skínandi leikperlur

Sýningin samanstendur af fjórum leikperlum og tveimur dansperlum og fjallar m.a. um ástir, gull og græna skóga. "Þetta er fjölskrúðug sýning, túlkuð af mikilli einlægni og leikgleði, sem er aðalsmerki Perluleikara," segir Sigríður. Hópnum hefur bæst góður liðsauki þar sem er danshöfundurinn Lára Stefánsdóttir. Þegar blaðamaður staldraði við æfði hópurinn bráðskemmtilegt atriði, Handaspil, undir hennar stjórn. "Við ætlum einnig að sýna Romantica, klassískan dans sem Lára hefur samið fyrir hópinn og var frumsýndur í Ráðhúsinu á opnunardag Menningarársins 29. janúar. Meðdansari með Perludönsurunum er Kolbrún Björnsdóttir dansari og leikkona. Þá frumsýnum við nýtt atriði, Í dag, sem er látbragðsleikur við ljóð Sigurðar Sigurðssonar frá Arnarholti. Tónlist og áhrifshljóð hefur Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson samið fyrir okkur og Bryndís Hilmarsdóttir og Nína Njálsdóttir búningahönnuðir hafa aðstoðað við búningaval. Önnur atriði í sýningunni eru Mídas konungur, Ef þú bara giftist... og Kærleikurinn er sterkasta aflið. Kynnir á sýningunni á sunnudaginn verður enginn annar en Örn Árnason leikari, en hann er mikill vinur hópsins og hefur oft lagt okkur lið," sagði Sigríður.

Björk leggur Perlunni lið

Leikhópurinn Perlan er virtur leikhópur skipaður fullorðnu þroskaheftu fólki sem hefur það að markmiði að sýna opinberlega. Í hópnum eru nú tólf leikarar á aldrinum 25-50 ára. Þau heita Ásdís Gísladóttir, Birgitta Harðardóttir, Eva Peters Donaldsdóttir, Gerður Jónsdóttir, Guðrún Ósk Ingvarsdóttir, Hildur Davíðsdóttir, Hreinn Hafliðason, Ingibjörg Árnadóttir, Lilja Valgerður Jónsdóttir, Ragnar Ragnarsson, Sigrún Árnadóttir og Sigfús Svanberg Sveinbjörnsson.

Hópurinn kom fyrst fram árið 1982 og hafur margoft sýnt í sjónvarpi, á ráðstefnum, hjá félögum og félagasamtökum, styrktarskemmtunum og listahátíðum. Einnig hefur hópurinn farið fjölmargar leikferðir til útlanda. Perluleikarar hafa hvarvetna vakið athygli fyrir einlægan og hrífandi leik og má segja að þau hafi með sérstæðri listsköpun sinni bætt við nýjum lit í litróf listanna. Sigríður sagði að samstarfssamningurinn við Leikfélag Íslands um afnot af Iðnó endurspeglaði þá stöðu sem Perlan hefur skapað sér. "Þetta eru einlægir listamenn sem sinna listsköpun sinni af alvöru og áhuga."

Björk Guðmundsdóttir er verndari Perlunnar og mun hún troða upp með Perlunni á árinu. "Það hefur ekki verið ákveðið með hvaða hætti það verður, en kannski förum við í stúdíó og tökum upp efni með hennar aðstoð og undir hennar leiðsögn," sagði Sigríður að lokum.