Í HAFNARBORG hefst í dag kl. 16 sýning á verkum færeysku listakonunnar Elinborgar Lützen. Hún fæddist í Færeyjum árið 1919 og stundaði fyrst listnám í Kaupmannahöfn. Á stríðsárunum varð hún innlyksa í Kaupmannahöfn eins og svo margir aðrir, en flutti eftir það heim til Færeyja. Þaðan fór hún síðar til framhaldsnáms í Bergen hjá grafíklistamanninum Paul Christensen. Að loknu námi hjá honum sneri hún enn á ný til Færeyja þar sem hún gat sér gott orð fyrir bókaskreytingar, en sú vinna varð jafnframt sá starfsvettvangur sem entist henni alla ævi. Elinborg lést árið 1995.
Verk hennar spretta oftast nær upp úr heimi ævintýranna en hún myndskreytti mikið þjóðsögur og ævintýri sem gefin hafa verið út í færeyskum ritsöfnum. Þær myndir voru mestmegnis dúkristur og náði hún mikilli færni í þeirri tækni og skapaði sér jafnframt mjög sérstakan stíl. Í bæklingi frá Listasafni Færeyja kemur fram að Elinborg hafi fundið myndefni sitt í færeyskri náttúru; meðal dýra, plantna, vætta, dverga og trölla, - í gömlu umhverfi þar sem ævintýrin eiga sinn samastað. Í bæklingnum er fjallað um það hvernig tengsl nútímafólks við náttúruna hafa rofnað og hversu mikilvægt það er að rækta það sem eftir lifir af þeim sagnaheimi sem Elinborg hefur léð myndlistarlegan búning.
Sýningin er fengin að láni frá Listasafni Færeyja og stendur til 29. maí.