Nú á ég ekki framar von á neinu sem gæti komið mér á óvart, ég vaki og ég sef. Eins og gamall sjómaður geng ég á strönd orðsins með net mín í dögun, endurnærður eftir langan nætursvefn. Ég horfi á eftir þeim ungu sem róa bátum sínum út á hafið ...

Nú á ég ekki framar

von á neinu

sem gæti komið mér

á óvart,

ég vaki og ég sef.

Eins og gamall sjómaður

geng ég á strönd orðsins

með net mín í dögun,

endurnærður

eftir langan nætursvefn.

Ég horfi á eftir þeim ungu

sem róa bátum sínum

út á hafið ...

og er glaður.

(Gott er að lifa, 1984.)Þetta ljóð úr síðustu bók Jóns úr Vör sýnist einfalt, og ef til vill finnst einhverjum óþarfi að rýna frekar í það eða fjalla um það. Orðaval er auðskilið og einungis gripið til einnar líkingar, sem kallar á mynhverfingu, sem aftur breytir því sem á eftir fer. Hvort tveggja er einnig auðskilið. Aftur á móti sýnist mér að einnig megi líta svo á að þetta litla, einfalda ljóð spegli á vissan hátt ævi Jóns og skáldskap, tón hans og hlýlegt viðmót.

Gott er að lifa (1984) er eins konar kveðjubók skáldsins. Nú er stund og staður til að líta yfir farinn veg, vita að kominn er tími til að hætta, - og una því glaður. Ljóðmælandinn í þessu ljóði er Jón sjálfur, að mínum skilningi. Hann finnur að hann hefur náð eins langt í lífi sínu, í lífsskilningi sínum og ljóðlist, og honum er unnt: hann á ekki lengur von á neinum breytingum í eigin lífi, ekki neinu sem muni koma honum á óvart.

Jón grípur til líkingar við gamlan sjómann er gengur á hinni myndhverfðu strönd orðsins. Þar með er sjómaðurinn í reynd orðinn skáld, net hans aðferð til yrkingar og skáldskapurinn veröld, land. Vel að merkja: á þessari orðaströnd stendur lítið þorp, lítið sjávarpláss skáldskapar, ÞORPIÐ, þekktasta og að sumu leyti ágætasta ljóðabók Jóns. Ég veit af samtölum við skáldið, að það fór stundum eilítið í taugarnar á honum, hversu ævinlega var talað um Þorpið, þegar skáldskap hans bar á góma, rétt eins og hann væri einnar bókar maður.

En Þorpið hefur þvílíka sérstöðu í íslenskri ljóðagerð, að hjá þessu verður ekki komist. Þegar sú bók birtist fyrst um 1946, vakti óðar athygli að ljóðin voru órímuð og frjálsleg í formi. Í viðtali við Þjóðviljann 13.10. 1946 sagði Jón: "Ég á von á því að um bók mína verði sagt: Þetta eru ekki ljóð. Ég svara: Mínir elskanlegu, kallið það hvað sem þið viljið." Hann lagði áherslu á, að mestu skipti að vekja sterkar kenndir. Nýjung Þorpsins á sínum tíma var ekki aðeins formið. Nú síðar vekur miklu meiri athygli, að þarna er að finna æskuminningar fátæks pilts í sjávarplássi, þar sem hamingjan getur verið nýveiddur steinbítur á þili. Ef til vill er aðalatriðið, að óvæginn hversdagsleiki verður að undursamlegum skáldskap.

Jón segir í einu ljóðanna, að enginn fái sigrað sinn fæðingarhrepp. Vera má að satt sé. En Jón hefur hins vegar stækkað fæðingarhrepp sinn í veröld í hnotskurn, - og alla tíð verið trúr uppruna sínum, - stutt málstað hins veikburða, skilið lífið með augum fábrotinna lífsgilda, sem sannarlega geta horfst blygðunarlaust í augu við þann tíma sem heldur að hamingjan sé hlutabréf og ekki steinbítur.

Eins og gamall sjómaður gengur Jón að lokum á strönd orðsins með net sín, endurnærður eftir langan nætursvefn. Þau net eru ekki lengur lögð í sjó. Hann horfir á eftir öðrum skáldum róa út á haf ljóðsins, - og gleðst. Svona er gott að enda sjómennsku sína á strönd orðsins: í sátt við hlutskipti sitt, í sátt við lífið, í sátt og öfundarlausri gleði yfir ljóðum annarra. Því umfram allt er það ljóðið sem gildir. Ljóðið, þessi djúpa viðleitni til að miðla skilningi og þó umfram allt skynjun, sem endurvekur sterkar kenndir hjá lesanda, "jafnvel sterkari kenndir, hjá góðum lesanda, en höfundi sjálfum" - eins og Jón komst að orði í áðurnefndu viðtali.

Strönd orðsins er því lykilhugtak í allri ljóðhugsun Jóns úr Vör. Enda segir hann í upphafi Þorpsins, í ljóðinu Hafið og fjallið:

Ströndin er okkar kirkja,

og hafið predikar sannindi

lífs og dauða.

Njörður P. Njarðvík

Höf.: Njörður P. Njarðvík