Kammerkór Kópavogs ásamt stjórnanda sínum, Gunnsteini Ólafssyni.
Kammerkór Kópavogs ásamt stjórnanda sínum, Gunnsteini Ólafssyni.
Kammerkór Kópavogs heldur tónleika í Selfosskirkju í dag kl. 16 og í Salnum í Kópavogi annað kvöld kl. 20.30. ORRI PÁLL ORMARSSON heyrði hljóðið í stjórnandanum, Gunnsteini Ólafssyni, en kórinn er einnig að senda frá sér geislaplötu.

VORIÐ er tími söngfuglanna. Með hækkandi sól koma þeir saman í smærri og stærri hópum, ræskja sig og hefja upp raust. Söngurinn ómar um sveitir og borg. Kammerkór Kópavogs er engin undantekning frá þessari reglu, brestur í söng á Selfossi í kvöld og á heimavelli, í Salnum í Kópavogi, á morgun. Það er vísast engin tilviljun að bæði vorið og fuglarnir verða þar ofarlega á baugi.

Yfirskrift tónleikanna er Gömul vísa um vorið en um þessar mundir er að koma út samnefnd geislaplata sem hefur að geyma verk eftir stjórnanda og stofnanda kórsins, Gunnstein Ólafsson. Á plötunni syngja, auk Kammerkórs Kópavogs, Kammerkór Biskupstungna, Kór Menntaskólans að Laugarvatni og Ágústa Sigrún Ágústsdóttir sópran.

Lítið til af kórtónlist

Efnisskrá tónleikanna er þríþætt. Þeir hefjast á því að kórinn flytur lög af plötunni. "Þetta eru lög sem mörg hver voru samin fyrir Kór Menntaskólans í Kópavogi sem ég stjórnaði þegar ég var þar við nám fyrir um tuttugu árum. Síðan hefur ýmislegt bæst við sem ég læt fljóta með. Þetta eru tólf lög allt í allt fyrir blandaðan kór, kvennakór og barnakór, auk einsöngslaga," segir Gunnsteinn. Segir hann lögin fyrst og fremst hafa orðið til vegna þess að framboð á íslenskri kórtónlist var af skornum skammti á þessum tíma. "Það var lítið sem ekkert efni til þegar ég var að byrja með kórinn sautján ára gamall. Það var helst að fara heim til tónskáldanna, útgáfum var ekki til að dreifa. Ég varð því bara að semja þetta sjálfur. Það var auðvitað góður skóli."

Að sögn Gunnsteins hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum tveimur áratugum. Íslensk kórtónlist sé orðin mun aðgengilegri en áður. Þar eigi Íslensk tónverkamiðstöð stóran hlut að máli.

Ástæðan fyrir útgáfunni er einföld, að sögn Gunnsteins - lögin mega ekki liggja niðri í skúffu. "Þetta er ekki byltingarkennd tónlist. Það viðurkenni ég fúslega. En þetta eru lög, sungin á íslensku, sem gætu nýst framhaldsskólakórum og öðrum kórum í sínu starfi. Þess vegna legg ég áherslu á að gera þau aðgengileg."

Lögin eru samin við ljóð íslenskra skálda á borð við Stein Steinarr, Jóhannes úr Kötlum, Guðmund Böðvarsson, Tómas Guðmundsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson, auk þess sem Gunnsteinn á eitt ljóð sjálfur, Tálsýn. "Lag og ljóð voru samin á næturvakt í Áburðarverksmiðjunni um árið. Ég orti svolítið þar mér til gamans."

Á tónleikunum í Salnum syngur Ágústa Sigrún Ágústsdóttir sópransöngkona ennfremur tvö einsöngslög Gunnsteins og með á píanó leikur Kristinn Örn Kristinsson.

Yfirskrift annars hluta tónleikanna er Fuglar alheimsins, en söngvar um fugla hafa fylgt öllum menningarsamfélögum frá upphafi vega. Fluttir verða nokkrir madrígalar og íslensk þjóðlög í útsetningu Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar, þar sem fuglar og fuglasöngur eru í brennidepli.

Að síðustu verða fluttar tvær svítur í þjóðlegum stíl; Lorca-svíta eftir finnska tónskáldið Einojuhani Rautavaara og Stjörnublóm ungverska tónskáldsins Lajos Bárdos.

Kórinn hefur látið þýða ljóðin og eru þau sungin á íslensku.

Góð æfingaaðstaða gulls ígildi

Kammerkór Kópavogs var stofnaður í janúar árið 1998 og hefur Gunnsteinn stjórnað honum frá upphafi. Margir kórfélaga sungu í Kór Menntaskólans í Kópavogi á árunum 1979-83 undir stjórn Gunnsteins.

Kórinn hefur það að markmiði að syngja fjölbreytta kórtónlist frá ýmsum tímum, bæði íslenska og erlenda. Kammerkór Kópavogs hefur komið fram við margvísleg tækifæri en fyrstu sjálfstæðu tónleika sína hélt hann í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, vorið 1999. Þá frumflutti kórinn á Íslandi ævintýraóperuna Arthúr konung eftir Henry Purcell ásamt einsöngvurum og barokksveit.

Gunnsteinn segir starfið hafa verið með ágætum. Töluvert hafi verið um mannabreytingar en í kórnum sé góður kjarni sem byggt sé á. "Það sem háir okkur, eins og svo mörgum öðrum kórum, er skortur á góðu æfingahúsnæði. Við æfum um þessar mundir í einum grunnskóla bæjarins, þar sem við höfum fengið góðar viðtökur, en því er ekki að leyna að við vildum helst geta æft í sal þar sem hljómburður er góður fyrir kórsöng - þar sem hægt er að móta hljóminn. Gott æfingahúsnæði er svo sannarlega gulls ígildi."