Done House heitir þetta einbýlishús sem Glen Murcutt teiknaði og byggt var í hverfinu Mosman í Sydney í Ástralíu. Litanotkunin er eftirtektarverð; sterkur gulur og blár litur og húsið stendur  fallega með lágum gróðri.
Done House heitir þetta einbýlishús sem Glen Murcutt teiknaði og byggt var í hverfinu Mosman í Sydney í Ástralíu. Litanotkunin er eftirtektarverð; sterkur gulur og blár litur og húsið stendur fallega með lágum gróðri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ástralski arkitektinn Glenn Murcutt heldur fyrirlestur um eigin verk í Norræna húsinu mánudaginn 8. maí, en verk hans hafa vakið alþjóðlega athygli síðastliðinn áratug.

Ástralski arkitektinn Glenn Murcutt heldur fyrirlestur um eigin verk í Norræna húsinu mánudaginn 8. maí, en verk hans hafa vakið alþjóðlega athygli síðastliðinn áratug. Murcutt hlaut gullpening Ástralska Arkitektafélagsins (RAIA) í júní árið 1992 og í október sama ár hlaut hann Alvar Alto verðlaunin fyrir þá hæfni að fella hönnun sína að byggingarhefðum margvíslegra svæða ogaðlaga þær ríkjandi loftslagi og ennfremur fyrir þann tærleika sem fram kemur í tæknilegum lausnum bygginganna og þá óheftu tjáningu sem endurspeglast í verkunum.

Glenn Murcutt hlaut einnig hin virtu dönsku verðlaun "Den Grönne Naal" haustið 1999 en "Græna nálin" er viðurkenning fyrir vistvæna hönnun. Murcutt er þekktur fyrir sérstæða hönnun þar sem hann notar einkum bárujárn og timbur.

Glenn Murcutt fæddist í London árið 1936 þegar foreldrar hans voru á ferðalagi um Evrópu en bjó fyrstu árin í Papua á Nýju Gineu. Árið 1941 flutti fjölskyldan til Sydney í húsið sem hann býr og starfar enn í.

Snemma kynntist Murcutt verkum þekktra arkitekta eins og Frank Lloyd Wright, Charles Eames og Mis van der Rohe, þar eð faðir hans var mikill áhugamaður um byggingalist og rak um tíma einingahúsaverksmiðju. Glenn Murcutt stefndi fljótt að byggingarlistarnámi og nam arkitektúr í Sydney á sjötta og sjöunda áratugnum. Áhrifa byggingarlistar frá Kaliforníu gætti mjög í skólanum enda er margt líkt með þessum tveimur svæðum. Þó gætti þar einnig áhrifa frá Bretlandi og þá einkum neo-brutalisma. Árið 1962 hélt Murcutt að loknu námi til Englands en sú hefð hafði myndast í Ástralíu að allir ungir arkitektar héldu til Evrópu eða Bandaríkjanna til að kynnast ríkjandi straumum í byggingarlist. Hann hóf störf hjá Frazer & Associates í London og var þar næstu tvö árin. Á meðan á dvölinni stóð notaði hann hvert tækifæri til að ferðast og skoða sig um í Evrópu. Hann skoðaði verk Dudok, Rietvelt og Le Corbuiser.

Þeir staðir sem vöktu mesta hrifningu hjá honum voru Grikkland og Skandinavía. Hvítu kúbísku húsin í Grikklandi með tært útsýni og magnaða birtu við sjóinn minntu hann á heimahaganna. Í Danmörku hreifst hann af hönnun Jörn Utzon og í Finnlandi voru það verk Alvars Alto sem heilluðu hann. Í bréfi til foreldra sinna skrifaði hann,"Finnland er heimili nútíma arkitektúrs."

Þegar Murcutt kom aftur heim hóf hann störf á teiknistofu í Sydney og vann þar til ársins 1969 en þá stofnaði hann sína eigin teiknistofu. Árið 1972 var honum veitt "Gray and Mulroney Award of the Royal Australian Institute of Architects" fyrir endurgerð eigin húss. Verðlaunin voru ferð umhverfis jörðina til að skoða byggingarlist. Að lokinni heimsreisunni sagði Murcutt að verk Pierre Chareau , Maison de Verre, hefði verið stórfenglegasta byggingin sem hann hefði séð á ferð sinni.

Upp úr 1980 hóf Murcutt að rannsaka og safna upplýsingum um byggingaraðferðir frumbyggja Ástralíu og einnig kynnti hann sér hvernig hvítu landnemarnir bjuggu. Þessar athuganir veittu honum nýja sýn á hvernig byggja á í takt við náttúruna og hvernig sameina má nútímabyggingarlist staðnum, svæðinu og landslaginu.

Þegar Murcutt hannar byggingu veltir hann fyrir sér hvernig sólarhæðin er á staðnum eftir árstíðum, hvernig nýta megi sólina til að hita bygginguna upp á veturna og hvernig best sé að draga úr áhrifum sólargeislanna að sumri til þannig að byggingin verði svöl. Hús hans eru oftast mjó og löng með renniflekum og rennihurðum á útveggjum, þannig að hægt er að stjórna opnun útveggjanna. Murcutt líkir húsinu við fatnað. Þegar heitt er í veðri þá getur maður verið léttklæddur en þegar kalt er bregður maður sér í þykkan frakka. Val á byggingarefnum stjórnast af því hversu vistvæn þau eru. Murcutt hefur ætíð talið mikilvægt að reikna út hversu mikla orku þarf til að framleiða það efni sem fer í byggingar hans. Til dæmis segir hann að kílóið af timbri kosti 1kJ í framleiðslu og til að vinna úr því planka eða klæðningu í útvegg þurfi að bæta við 5kJ. Til að framleiða stál þurfi 45kJ pr. kíló en ál um 142 kJ. Hann segir að mikilvægt sé að skoða dæmið í heild og ekki sé alltaf jafn víst að byggingarefni sem maður hafi talið vistvænt sé svo í raun og veru. Taka þarf tillit til fleiri þátta, t.d. hvort framleiðsla efnisins sé mengandi, hvernig orka var notuð við framleiðsluna o.s.frv. Murcutt segir að vistvæn hönnun sé afar mikilvæg við mótun umhverfisins en hún sé aðeins einn af mörgum þáttum sem taka þarf tillit til við hönnun mannvirkja.

Segja má að þrjú atriði hafi ráðið mestu í þroskaferli Murcutts sem arkitekts: Evrópskur funktionalismi í gegnum verk Chareau og Mies van der Rohe, Áströlsk hefð í landbúnaðar- og iðnaðarbyggingum og ósnortin náttúran og hvernig hún birtist á hverjum stað.

Frá upphafi hefur Murcutt kosiðað starfa einn síns liðs, án meðeigenda, aðstoðarmanna eða ritara. Hann vill ekki vera atvinnurekandi þar eð hann telur það hefta frelsi sitt til að ferðast og takast á hendur kennslu víða um heim, einkum þó í Bandaríkjunum. Þegar nauðsyn krefur semur hann við aðrar teiknistofur um að vinna teiknivinnuna eða sjá um eftirlit fyrir sig. Ljóst er að einyrkjabúskapurinn hefur það í för með sér að verkefnin sem hann getur tekið að sér eru fá. Hann leitast við að gefa hverju verkefni þann tíma sem hann telur nauðsynlegan þannig að þau falli sem best að umhverfi sínu og hlutverki. Murcutt hefur mikinn áhuga á fólki sem einstaklingum og því vill hann ekki vinna fyrir stór ópersónuleg fyrirtæki. Hann segir samband það sem myndast milli hans og viðskiptavinarins vera persónulegt. Segja má að velgengni hans hafi þann kost að hann velur viðskiptavini sína eigi síður en þeir hann. Í dag er biðtíminn eftir að fá hann til að hanna hús um fjögur ár. Telji viðskiptavinir hans sig ekki hafa tíma til að bíða svo lengi vísar hann þeim á fyrri nemendur sína sem fylgja sömu hugmyndafræði og hann.

Murcutt hefur alla tíð leitast við að halda góðu sambandi við alla þá sem koma að verkefnum hans. Frá árinu 1970 hefur hann ætíð unnið með sömu verkfræðistofunni og einnig hefur hann leitast við að ráða sömu byggingarverktakanna til að byggja húsin. Þetta eru oftast lítil fjölskyldufyrirtæki.

Murcutt talar oft um "hönnunarskák" því segja megi að efni, reglur og verkhlutar séu forskrifaðir en hvert nýtt verk krefst nýrrar nálgunar sem byggir á rökum. Þannig verði húsin mismunandi eins og leikfléttur skáklistarinnar.

Fyrirlesturinn í Norræna húsinu er á vegum Arkitektafélags Íslands og styrktaraðilar eru Garðastál og Húsasmiðjan. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

EFTIR GUÐMUND GUNNARSSON

Höfundurinn er arkitekt.

Höf.: EFTIR GUÐMUND GUNNARSSON