Birgir Andrésson, Ólafur Lárusson og Kristján Guðmundsson halda hér á verki Kristjáns.
Birgir Andrésson, Ólafur Lárusson og Kristján Guðmundsson halda hér á verki Kristjáns.
SAMSÝNING myndlistarmannanna Birgis Andréssonar, Ólafs Lárussonar og Kristjáns Guðmundssonar verður opnuð á Myndlistarvori Íslandsbanka í Vestmannaeyjum í dag, laugardag, kl. 17. Sérstakur gestur þeirra verður Ásgeir Lárusson myndlistarmaður.

SAMSÝNING myndlistarmannanna Birgis Andréssonar, Ólafs Lárussonar og Kristjáns Guðmundssonar verður opnuð á Myndlistarvori Íslandsbanka í Vestmannaeyjum í dag, laugardag, kl. 17. Sérstakur gestur þeirra verður Ásgeir Lárusson myndlistarmaður.

Birgir og Kristján hafa sýnt áður í Eyjum, en Ólafur og Ásgeir eru að sýna þar í fyrsta sinn. Ólafur mun sýna það sem hann kallar, póstmódernískan punktisma, og segir að séu myndir í ramma. Sjálfur segist hann gefa lítið fyrir skilgreiningar og viti í raun ekki hvað póstmódernismi sé, en punktismi sé hins vegar eitthvað sem geti af sér annan punkt og svo þann þriðja, og þá hengi menn iðulega forskeytið póst á hann.

Birgir Andrésson sýnir myndir bæði nýjar og gamlar, en megnið hefur hann ekki sýnt opinberlega áður. Hann mun sýna blýantsteikningar, bæði af mosa og hrauni, en einnig myndir af fálkum. Fálkamyndirnar, sem eru sex að tölu, eru eitt ákveðið verk. Þar snýr hann fálkanum á alla kanta, en verkið kallar hann: "Sú undarlega hegðun íslenska fálkans að snúa sér stöðugt í hringi." Sjálfur segist hann vita lítið um það hvort fálkinn geri mikið af því. Hann segist hins vegar vinna mikið með ímyndir og sér í lagi ímynd íslensku þjóðarinnar og fyrir hvað hún standi í víðara samhengi.

Kristján Guðmundsson mun sýna litaljóð sem hann hefur ekki sýnt áður á Íslandi. Ljóðin eru einhvers staðar sprottin af "concrete poetry". Litaljóðin tengist því bókverkum hans og þar eigi þau einhverjar sameiginlegar gamlar rætur. Kristján segir að hann eigi sér gamalt vinnumottó og það sé í fullu gildi enn þá: - Mynd skal stefnt til heilla -.

Gestur þeirra þremenninga, Ásgeir Lárusson, hefur ekki sýnt áður í Vestmannaeyjum, en hann mun vinna verk á staðnum, sem tengjast lit Eldfellsins og Helgafells. Þessa liti ætlar hann að setja á flöt, en að öðru leyti mun verkið mótast af andrúmi staðarins.

Sýningin stendur til 14. maí og er opin frá kl. 14-18. Lokað virka daga.