HLÉ var gert í gær á samningaviðræðum Ísraela og Palestínumanna um drög að varanlegum friðarsamningi og fulltrúar Palestínumanna sögðu að friðarviðræðurnar væru í mikilli hættu vegna deilna um öll helstu málefnin.

HLÉ var gert í gær á samningaviðræðum Ísraela og Palestínumanna um drög að varanlegum friðarsamningi og fulltrúar Palestínumanna sögðu að friðarviðræðurnar væru í mikilli hættu vegna deilna um öll helstu málefnin.

"Viðræðurnar um alla þætti rammasamkomulagsins og þriðja áfanga brottflutnings ísraelskra hermanna eru í mikilli kreppu," sagði Saeb Erakat, einn helstu samningamanna Palestínumanna.

Erakat lét þessi orð falla eftir tveggja klukkustunda viðræður samningamannanna í Rauðahafsbænum Eilat fyrir milligöngu Dennis Ross, sendimanns Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum.

Ross hefur sjálfur látið í ljósi efasemdir um að Ísraelar og Palestínumenn nái samkomulagi um drög að varanlegum friðarsamningi áður en fresturinn til þess rennur út um miðjan mánuðinn. Drögin eiga að ná til helstu deilumálanna, meðal annars landamæra hugsanlegs Palestínuríkis, stöðu Jerúsalemborgar, palestínskra flóttamanna og byggða gyðinga á hernumdu svæðunum.

"Þetta er löng og erfið leið og hún virðist nú vera lokuð," sagði annar samningamaður Palestínumanna.

Sjálfstætt ríki í september

Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, hefur heitið því að lýsa yfir stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis í september þegar fresturinn til að undirrita friðarsamninginn rennur út, jafnvel þótt samkomulag náist ekki fyrir þann tíma.

Síðasta lota samningaviðræðnanna hófst á sunnudag en þær hafa gengið mjög erfiðlega, meðal annars vegna deilna um tillögur Ísraela um landamæri hugsanlegs Palestínuríkis og áform þeirra um að stækka byggðir gyðinga á Vesturbakkanum.

Palestínsku samningamennirnir gengu af fundi á miðvikudag og neituðu að ræða tillögur Ísraela um landamærin, sögðu þær "óaðgengilegar".

Nokkur svæði sem ekki liggja saman

Þeir sögðu að tillögurnar fælu í sér að palestínska ríkið skiptist í nokkur svæði, sem lægju ekki saman, og að allir helstu þjóðvegirnir og stærstu byggðir gyðinga yrðu áfram undir yfirráðum Ísraels. Þá væri gert ráð fyrir því að öll Jerúsalem yrði áfram hluti af Ísrael, en Palestínumenn vilja gera austurhluta borgarinnar að höfuðborg palestínska ríkisins.

Palestínumenn hafa krafist þess að Ísraelar afsali sér öllum svæðunum sem þeir hernumdu í stríðinu árið 1967.

Þriðja áfanga brottflutnings ísraelskra hermanna frá hernumdu svæðunum á að ljúka í næsta mánuði, samkvæmt friðarsamkomulaginu sem náðist í Ósló árið 1993. Palestínumenn segja að þeir eigi þá að ráða yfir 90% hernumdu svæðanna, en þeir hafa nú fengið um 40% svæðanna.

Eftir að samningaviðræðunum lauk í gær ræddi Ross einslega við Yasser Abed Rabbo, aðalsamningamann Palestínumanna, og Oded Eran sem fer fyrir samninganefnd Ísraela. Hann ræddi einnig við Arafat í gærkvöldi í bænum Ramallah, en daginn áður hafði hann átt fund með Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels.

Gert er ráð fyrir að viðræður samninganefndanna hefjist að nýju á morgun.

Eilat. AFP.

Höf.: Eilat. AFP