Hilmar Örn ásamt hljómsveitinni Sigur Rós.
Hilmar Örn ásamt hljómsveitinni Sigur Rós.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Englar alheimsins, tónlist við samnefnda kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar. Tónlistin er í höndum Hilmars Arnar Hilmarsson og hljómsveitarinnar Sigur Rósar.

Englar alheimsins, tónlist við samnefnda kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar. Tónlistin er í höndum Hilmars Arnar Hilmarsson og hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Aðstoðarmenn Hilmars Arnar (HÖH) voru Szymon Kuran (fiðla), Kristján Eldjárn (gítar), Birgir Baldursson (trommur og slagverk), Sigtryggur Baldursson (trommur og slagverk) og Tómas M. Tómasson (bassi). Upptökumenn voru Tómas M. Tómasson og Georg Bjarnason. Upptaka á tónlist Sigur Rósar var í höndum Ívars Ragnarssonar. Textinn við "Bíum bíum bambaló" er eftir Jónas Árnason og lagið "Dánarfregnir og jarðarfarir" er byggt á stefi Jóns Múla Árnasonar. 41,12 mín. Krúnk gefur út.

HILMAR Örn Hilmarsson hefur átt góðu fylgi að fagna á útjöðrum tónlistarheimsins allt síðan hann lét fyrst til sín taka þar og þó nafn hans sé ekki á allra takteinum er hann engu að síður einn af virtustu hljómasmiðum landsins. Hér sameinar hann krafta sína sonum Íslands um þessar mundir hvað dægurtónlist áhrærir, Mosfellssveitinni Sigur Rós og er árangurinn af þessu samneyti hreint út sagt stórkostlegur.

Eiginleg kvikmyndatónlist er í höndum Hilmars Arnar, sem gjarnan notar listamannsnafnið HÖH. Hún byggist á stuttum stefjum sem eru frá u.þ.b. einni mínútu að lengd upp í fullar fjórar. Bútarnir eru leikur eður tilbrigði við stef þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum. Hljómar líða naumhyggjulega (e. minimalism) áfram, eru endurteknir í sífellu á áhrifaríkan hátt. Minnir tónlistin að þessu leytinu til nokkuð á verk Erik Satie og Gavin Bryars, jafnvel á hinn eistneska snilling Arvo Pärt. Á öllu poppaðri nótum er hún ekki alls ólík tónlist Hans Zimmer við hina einstaklega fallegu mynd, "The Thin Red Line", sem gerð var árið 1998 og var besta erlenda kvikmyndin það árið. Englar alheimsins er hins vegar hæglega ein besta og fallegasta mynd sem gerð hefur verið á Íslandi frá upphafi og tónlistin er þar í fullkomnu samræmi; falleg, hrífandi tær og melódísk.

Það er langt í frá vandalaust að búa til tónlist fyrir kvikmynd. Hún þarf að falla eins og flís við rass hvað myndinni viðkemur, má ekki skyggja á hana en þarf um leið að undirstrika hana á ákveðinn hátt þegar það á við. Aukinheldur verður hún að geta staðið ein og sér utan við myndina ef það er afráðið að gefa hana út á plötu eins og hér er gert. Hilmar stenst allar þessar prófraunir með miklum glans.

Sama er að segja um hlut Sigur Rósar. Í fyrra gaf sveitin út bestu plötu Íslandssögunnar fyrr og síðar og framlag þeirra hér eru fyrstu hljóðvershljóðritanirnar síðan hún kom út. Hljómsveitin spilar tvö lög sem eru bæði útgáfur af þjóðkunnum stefum. Hið fyrra er tilvísun í vögguvísuna "Bíum bíum bambaló" en seinna lagið er túlkun Sigur Rósar á útvarpsstefi því sem spilað er áður en upplestur á dánarfregnum og jarðarförum hefst á ríkisútvarpinu.

Bæði lögin eru afskaplega vel heppnuð og innkoma þeirra í sjálfri myndinni gleymist undirrituðum seint. Myndin lifnaði næstum því óþægilega við er hljómar Sigur Rósar hófu að heyrast undir henni. "Bíum bíum bambaló" er svo fallegt að með ólíkindum er. Á svipaðan hátt umturna þeir dánarfregnastefinu á glæstan hátt. Ég hef heyrt kvartað yfir því lagi erlendis og hefur það verið kallað afkáraleg hylling á framsæknu rokktónlistinni (e. prog-rock) sem viðgekkst á áttunda áratugnum. En lagið, sem er vel að merkja frábært í útgáfu Sigur Rósar, hefur auðsjáanlega allt aðra og dýpri merkingu fyrir Íslendinga, þar sem að stefið hefur lengi lifað góðu lífi í undirmeðvitund þeirra allra.

Umslagshönnun er afar glæsileg og til mikillar fyrirmyndar, smekklegri frágang í þeirri deild hef ég ekki séð í langan tíma. Tónlistin sjálf stendur fullkomlega ein og óstudd án myndarinnar og er á stundum nærri því átakanlega falleg, vafinn sorgarklæðum, nístandi merg og bein. Einfaldlega það besta sem ég heyrt á árinu hingað til. Hilmar Örn og Sigur Rós hafa lengi verið TónLISTAmenn í algerum sérflokki og innsigla þeir hér þann virðingarsess svo um munar.

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen