ÁHERSLA á mikilvægi menntunar kom skýrt fram í máli allra frummælendanna í málstofu sem bar yfirskriftina: Hvernig breytum við Íslandi í þekkingarþjóðfélag? Þeir töldu allir þörf á að styrkja íslenskt menntakerfi ætti það að geta mætt kröfum næstu ára.

ÁHERSLA á mikilvægi menntunar kom skýrt fram í máli allra frummælendanna í málstofu sem bar yfirskriftina: Hvernig breytum við Íslandi í þekkingarþjóðfélag? Þeir töldu allir þörf á að styrkja íslenskt menntakerfi ætti það að geta mætt kröfum næstu ára. Framsöguerindi fluttu Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands, Halldór Grönvold, skrifstofustjóri ASÍ, og Þorvarður Tjörvi Ólafsson, sem sæti á í stúdentaráði Háskóla Íslands.

Ingjaldur Hannibalsson fjallaði um það í erindi sínu hvaða framtíð við vildum á Íslandi. Hann lagði áherslu á að miklu skipti að Íslendingar ykju hlut hátækniiðnaðar til þess að bæta samkeppnisstöðu sína á alþjóðavísu.

Menntakerfinu þarf að breyta hratt

Verðmætasköpun er að breytast í heiminum, að mati Ingjalds. Draga mun úr vægi framleiðslu og vægi þjónustu aukast. Þekking skipti því æ meira máli. Í þessu samhengi lýsti Ingjaldur áhyggjum sínum af því hve fáir Íslendingar lykju prófi í raunvísindum og tungumálum, en þá menntun telur hann afar mikilvæga í þeirri þróun sem fyrir höndum er.

Ingjaldur benti á að íslenskt menntakerfi hefði aldrei staðið í fremstu röð í menntamálum. Kerfið megi hins vegar bæta mjög en breytingar þurfi að gerast hratt ef menntakerfið eigi að geta mætt kröfum framtíðarinnar.

Þekking ræður þátttöku

Halldór Grönvold velti því fyrir sér í framsögu sinni hverjir muni taka þátt í þekkingarsamfélaginu. Halldór telur að góð grunnmenntun og símenntunn verði lykillinn að þátttöku einstaklingsins í þekkingarsamfélaginu.

Halldór vék að goðsögninni um hina menntuðu þjóð og varaði við henni. Hann sagði staðreyndina vera þá að hið íslenska menntakerfi þyrfti að gera mun betur.

Halldór telur mikilvægt að treysta þekkingargrundvöll þjóðarinnar, í því sambandi sé brýnast að efla kennslu í íslensku, stærðfræði, tölvufærni og tungumálum. Halldór er raunar þeirrar skoðunar að á Íslandi ætti að ala upp tvítyngda þjóð, sem tali bæði íslensku og ensku, en hann telur mikið upp á skorta að enskukunnátta þjóðarinnar sé fullnægjandi. Þá telur Halldór ástæðu til að efla sértaklega tækni- og sérþekkingu Íslendinga, sem og samskiptahæfni.

Halldór segir að tryggja þurfi jafnrétti til náms á forsendum einstaklinganna sjálfra, meðal annars í formi betri aðgangs að símenntun og með uppbyggingu endur- og eftirmenntunar. Þannig ættu allir að geta tekið þátt í þekkingarsamfélaginu.

Meiri fjármuni í menntun

Þorvarður Tjörvi Ólafsson nefndi erindi sitt: Auðurinn býr í fólkinu sjálfu. Hann lagði þunga áherslu á að menntun ætti að vera fyrir alla og fagnaði tilkomu fjarnáms í því sambandi, það veitti mörgum aðgang að námi sem ekki hefðu hafthann fyrir.

Þorvarður Tjörvi telur þörf á að stjórnvöld verji miklu meiri fjármunum til menntunar og benti í framsögu sinni á að fiskur án menntunar væri lítils virði, menntun gæti hins vegar verið mikils virði án þess að tengja þyrfti hana við sjávarútveg.