ÞRÍR framsögumenn ræddu efnið ný pólitík - ný vinnubrögð í einni málstofunni.

ÞRÍR framsögumenn ræddu efnið ný pólitík - ný vinnubrögð í einni málstofunni. Flokkur stofnaður árið 2000 verður að mæta kröfum nútímans var einnig yfirskrift fundarins og sagði Kristrún Heimisdóttir fundarstjóri að Samfylkingin yrði að vera öðruvísi en flokkur sem stofnaður var árið 1917.

Skúli Helgason stjórnmálafræðingur fjallaði um hugmyndalega endurnýjun sem hann sagði vera lífæð stjórnmálanna. Hann vitnaði til könnunar Ólafs Þ. Harðarsonar sem sýndi að traust á stjórnmálamönnum færi minnkandi en áhugi á stjórnmálum minnkaði þó ekki. Skúli sagði að hugmyndafræðileg endurnýjun væri ekki eingöngu tryggð með starfi innan flokks, leita þyrfti út fyrir flokkinn. Benti hann á að íslenskir flokkar hefðu mátt þola atgervisflótta eins og flokkar erlendis.

Skúli sagði nauðsynlegt að stefnuhópar og framtíðarhópar störfuðu innan flokksins sem tækju málefni til umræðu.Hann sagði brýnt að flokkurinn fjárfesti í rannsóknum og spurði hvort þeim 70 milljónum sem notaðar hefðu verið í síðustu kosningabaráttu hefði verið vel varið. Staðhæfði hann að fjárfesting til framtíðar skilaði sér betur en það fé sem færi í kosningabaráttu og varpaði því fram að flokkurinn tæki framvegis ákveðinn hluta af ríkisstyrk til starfsins og notaði til rannsókna.

Eigin þjóðhagsstofnun?

Birgir Björn Sigurjónsson hagfræðingur ræddi hagfræðilegt sjálfstæði stjórnmálaflokka. Benti hann á nauðsyn þess að stjórnmálaflokkur hefði eigin þjóðhagsstofnun og væri á undan með upplýsingar. Hann sagði stjórnmálamenn oft vera með froðusnakk og ræða hluti sem ekki skiptu máli. Hann sagði umræðu um hagfræðileg málefni fara fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi og að fólk spyrði fyrst og fremst um það hvaða áhrif hinar og þessar aðgerðir hefðu á pyngjuna. Hann sagði stjórnmál snúast um það að breyta samfélaginu og að stjórnmálaflokkur yrði að búa yfir hagfræðilegu greiningartæki til að byggja upp stefnu sína með og heildarsýn. Með því væri mögulegt að leiða umræðuna frá froðunni.

Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður fjallaði um stjórnfestu sem hún sagði að fælist í því að stjórnvöld færu skipulega og með festu eftir lögum og reglum og bæru ábyrgð. Hún sagði stjórnfestu einnig tryggja hagvöxt og bætt viðskiptasiðferði. Bryndís sagði að lýðræðisleg rökræða yrði að þrífast og að fjölmiðlar gegndu þar lykilhlutverki í gagnrýni á stjórnvöld og stjórnmálamenn. Hún taldi skorta nokkuð á stjórnfestu hér á landi og sagði slíkt geta unnið gegn efnahagslegum framförum.