SAMTALS 7.271 erlendur ríkisborgari var skráður með lögheimili á Íslandi í lok 1999 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

SAMTALS 7.271 erlendur ríkisborgari var skráður með lögheimili á Íslandi í lok 1999 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Erlendir ríkisborgarar voru því um 3% af íbúum landsins árið 1999, flestir frá Norðurlöndum og öðrum löndum Evrópu og búa flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sagði Helga Þórólfsdóttir félagsráðgjafi og verkefnisstjóri samstarfsnefndar Reykjavíkur um málefni nýbúa í málstofu um Sátt í fjölþættu samfélagi sem Ásta R. Jóhannesdóttir þingmaður stýrði.

Helga sagði að þekkingarleysi einkenndi umræðu Íslendinga um útlendinga sem settust hér að. Hefði hún ekki síst orðið vör við það í starfi sínu sem verkefnisstjóri um málefni nýbúa. Margar sögur væru í gangi sem byrjuðu gjarnan á orðunum: þetta fólk... eða þessar konur... og þegar rætt væri um hið jákvæða væri oftast minnst á alla þá mismunandi veitingastaði sem finna mætti á Laugaveginum í Reykjavík. Sagði Helga tímabært að hætta að hlusta bara á sögur um útlendinga á Íslandi heldur skoða í staðinn hvers konar fjölmenningarlegt samfélag væri að þróast á Íslandi, kosti þess og galla.

Fordómar eru til

Toshiki Toma, stjórnmálafræðingur og prestur innflytjenda á Biskupsstofu, velti því m.a. fyrir sér í sínu erindi hvort fordómar væru til á Íslandi. "Já þeir eru til," sagði hann m.a. og fjallaði því næst um það á hvern hátt þeir birtust hér á landi. Skipti hann fordómum í sýnilega fordóma og ósýnilega fordóma og sagði lítið um þá fyrrnefndu en þeim mun meira af þeim síðarnefndu. Ósýnilegu fordómarnir birtust til að mynda í lélegri þjónustu við útlendinga í stofnunum eða samskiptaleysi á vinnustöðum. "Í stuttu máli sagt eru ósýnilegir fordómar það að líta niður á útlendinga yfirleitt."

"Nýbúar og síbúar tali saman"

Bryndís Friðgeirsdóttir bæjarfulltrúi og svæðisfulltrúi Rauða krossins á Ísafirði fjallaði um það hvernig fólk frá um það bil fjörutíu þjóðlöndum lifði í sátt og samlyndi á Vestfjörðum. Sagði hún Vestfirðinga hafa langa og góða reynslu af aðkomufólki af erlendum uppruna en benti þó á að hin síðari ár hefðu aðstæður breyst. Æ fleiri atvinnurekendur í fiskvinnslu væru farnir að sækjast eftir vinnuafli að utan og því hefði fólki af erlendum uppruna fjölgað hratt á Vestfjörðum og á stuttum tíma. Sá hópur sem hér um ræddi væri gjarnan af sama þjóðerni, fólk sem væri sjálfu sér nógt og leitaði því lítið út fyrir hópinn. Sagði hún þetta veikja lítil byggðarlög og því nauðsynlegt að byggja brú milli "nýbúa og síbúa," eins og hún orðaði það en þeir síðarnefndu væru að sjálfsögðu heimamenn.

Reynsla Dalvíkinga

Halldór S. Guðmundsson félagsráðgjafi og félagsmálastjóri á Dalvík var síðastur til að halda erindi og fjallaði hann um reynslu Dalvíkinga af því að taka á móti flóttamönnum frá gömli Júgóslavíu. Kom fram í erindi hans að móttaka flóttamannanna hefði tekist vel enda undirbúningur góður. Benti hann þó á að það verkefni sem fólst í því að taka á móti flóttamönnunum frá gömlu Júgóslavíu hefði vakið athygli á því sem ekki væri gert fyrir aðra innflytjendur til Íslands. "Verkefnið gerði að verkum að þeir sem áður höfðu ekki fengið neina þjónustu fengu nú sömu þjónustu og flóttamennirnir," sagði hann.