Fjöldi fólks sótti málstofu um jafnaðarstefnuna við breyttar aðstæður.
Fjöldi fólks sótti málstofu um jafnaðarstefnuna við breyttar aðstæður.
Sjö málstofur voru haldnar á fyrra degi stofnfundar Samfylkingarinnar í gær. Þar var meðal annars rætt um byggðamál, auðlindamál, menntakerfið og þekkingarþjóðfélagið.

EINAR Karl Haraldsson ritstjóri var fundarstjóri á málstofu í hátíðarsal Verslunarskólans um jafnaðarstefnuna við breyttar aðstæður og stéttarstjórnmál nútímans. Mikilvægi menntunar í þjóðfélagi framtíðar var ofarlega í hugum þeirra sem fluttu framsöguerindi en fram kom í máli þeirra að í framtíðinni myndi þekking skilja á milli feigs og ófeigs.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, reið á vaðið en hann flutti erindi um hugsjónir frjálslyndrar jafnaðarstefnu. Vilhjálmur sagði hugsjónir reyndar vandmeðfarið fyrirbæri enda sýndi sagan að mönnum hætti til að misbeita valdi sínu í nafni þeirra eða þá að á daginn kæmi að hugsjónir reyndust klisjur einar.

Án hugsjóna væri öll pólitík hins vegar blind. Sagði Vilhjálmur það lykilatriði fyrir nýjan stjórnmálaflokk að átta sig á því í hverju hugsjónir hans fælust.

Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur lagði áherslu á að til að standa undir væntingum yrði Samfylkingin að hafa góðan málstað, setja fram skýra stefnu og skýra forgangsröðun. Til að þekkja verkefni sitt yrði flokkurinn jafnframt að brjóta samfélagið til mergjar.

Aukin menntun mikilvæg fyrir alla

Edda Rós lagði áherslu á aðgengi að menntun í þekkingarsamfélaginu, ekki aðeins hefðbundinni menntun heldur einnig starfsmenntun. Sagði hún m.a. mikilvægt að allir gerðu sér grein fyrir þessu, líka þeir sem áttuðu sig í raun á mikilvægi menntunar en tækju skilaboðin ekki til sín og vísaði hún þar t.d. til eldra fólks.

Berit Andnor, þingmaður sænska Jafnaðarmannaflokksins, steig næst í pontu en hún er formaður almannatrygginganefndar sænska þingsins. Hún skilaði hamingjuóskum til fundarmanna frá flokki sínum og fullvissaði viðstadda síðan um að jafnaðarstefnan glataði aldrei gildi sínu, hugtökin frelsi, jafnrétti og bræðralag væru í gildi í dag, rétt eins og fyrir hundrað árum.

Andnor gerði velferðarsamfélagið að umtalsefni sínu en hún sagði það eitt af verkefnum stjórnmálamanna að stuðla að jafnrétti og að allir hefðu jafna möguleika til að bæta hag sinn.

Stjórnmál framtíðar verði stjórnmál sátta

Velferðarkerfið var sömuleiðis viðfangsefni Karls Steinars Guðnasonar, forstjóra Tryggingastofnunar. Hann sagði að sú fátækt sem ríkti hér á landi væri að vísu lífskjaravandi sérhópa en þessum vanda yrði einfaldlega að eyða með hærra framlagi til almannatryggingakerfisins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði stjórnmál framtíðarinnar verða stjórnmál sátta, þ.e. samræðu og málamiðlana. Endurvekja þyrfti trúnaðartraust milli stjórnmálamanna og almennings. Hugsunin ætti ekki að vera að stjórna fólki, heldur stjórna með því.

Margir hefðu hallmælt svonefndu miðjumoði en Ingibjörg sagði það þó betra en að fela andstæðingnum einfaldlega stjórn mála. Lýsti Ingibjörg þeirri ósk sinni að Samfylkingin yrði flokkur vinnandi, hugsandi fólks.