FORELDRAR tveggja telpna, sem þurfa að nota sýklalyfið Primazol að staðaldri, komust að því að verð lyfsins var afar mismunandi eftir því í hvaða apótek var farið. Stundum virtist lyfjakort fyrir sýklalyfinu lækka kostnaðinn, stundum ekki. Móðirin fór t.
FORELDRAR tveggja telpna, sem þurfa að nota sýklalyfið Primazol að staðaldri, komust að því að verð lyfsins var afar mismunandi eftir því í hvaða apótek var farið. Stundum virtist lyfjakort fyrir sýklalyfinu lækka kostnaðinn, stundum ekki. Móðirin fór t.d. í apótek, keypti eina flösku og greiddi 700 krónur fyrir. Henni var sagt að lyfjakortið lækkaði ekki verðið. Faðirinn greiddi um fimmtungi lægra verð fyrir sama magn þegar hann sýndi lyfjakortið í öðru apóteki. Hvernig stendur á þessu?

Þær upplýsingar fengust hjá lyfjadeild Tryggingastofnunar ríkisins að kaupandi greiðir að fullu fyrir sýklalyf nema í þeim tilfellum að hann hafi fengið lyfjakort. Sá sem hefur fengið lyfjakort fyrir sýklalyfi greiðir fyrir lyfið samkvæmt ákveðnu kerfi, sem er þannig að hann greiðir fyrstu 1.200 krónurnar af smásöluverði lyfsins, 80% af verði umfram það en þó aldrei hærra en 3.800 krónur fyrir hverja afgreiðslu. Ef handhafi kortsins er barn sem fær umönnunarbætur, eða er öryrki eða lífeyrisþegi greiðir hann fyrstu 400 krónurnar af smásöluverðinu, 50% af því sem er umfram en að hámarki 1.100 krónur. Lyfseðill getur að hámarki gilt fyrir 100 daga skammti og er því hagkvæmast að kaupa hámarksskammt hverju sinni og nýta þannig afsláttinn að fullu, sem lyfjakortið veitir.

Skýringin á því hvers vegna afsláttur var stundum veittur þegar lyfjakortið er sýnt er líklegast sú að apótekin sjálf taka á sig hluta kostnaðarins, sem annars félli á kaupandann.

Fasteignamat

Hverjar eru reglurnar í sambandi við kaupsamning íbúða þegar ekkert fasteignamat liggur fyrir?

"Eins og er áætla sýslumenn matið," segir Magnús Ólafsson, framkvæmdastjóri matsviðs hjá Fasteignamati ríkisins. "Verið er að endurskoða þær reglur sem þeir vinna eftir og er þess vænst að þær liggi fyrir eftir nokkrar vikur," segir Magnús.