KVIKMYNDAFRAMLEIÐANDI nokkur heldur því fram að Steven Spielberg hafi stolið hugmyndinni að kvikmyndinni Small Soldiers úr stuttmynd sem hann vann verðlaun fyrir á sínum tíma.
KVIKMYNDAFRAMLEIÐANDI nokkur heldur því fram að Steven Spielberg hafi stolið hugmyndinni að kvikmyndinni Small Soldiers úr stuttmynd sem hann vann verðlaun fyrir á sínum tíma. Hann hefur nú lögsótt leikstjórann, kvikmyndaver hans, Dream Works, og einnig Universal Pictures sem sá um að dreifa myndinni. Maðurinn heitir Gregory Grant og heldur því fram að Amblin-fyrirtækið hafi íhugað að gera kvikmynd í fullri lengd eftir stuttmyndinni Ode to G.I. Joe en síðan hætt við og gert kvikmyndina Small Soldiers í staðinn. Í lögsókninni kemur fram að Grant hafi hitt forstjóra Amblin og þeir rætt þá hugmynd að gera kvikmynd í fullri lengd. Amblin hætti síðan við og var ástæðan sögð sú að fyrirtækið vildi ekki gera kvikmynd um dúkkur. Stuttu síðar var hins vegar gefin út yfirlýsing frá fyrirækinu og Steven Spielberg þess efnis að þeir hygðust gera Small Soldiers sem fjallar um litlar, brjálaðar stríðsdúkkur, sem eru hannaðar til að drepa góðhjartaðar smáverur. Grant heldur því fram að mörgum atriðum í þeirri mynd sé stolið úr stuttmyndinni hans og vill fá eitthvað í vasann fyrir.