Ruddalegur talsmáti á vellinum, óíþróttamannsleg framkoma og jafnvel lögbrot utan vallar eru áhyggjuefni margra þeirra sem fylgjast með bandarískum keppnisíþróttum.

Á vellinum eru fyrirmyndir barna og unglinga en því fer oft fjarri að hegðun átrúnaðargoðanna sé til fyrirmyndar. En það sem er eiginlega verra er að sú staðreynd virðist ekki hafa neikvæð áhrif á ímynd eða feril þessara fyrirmynda. Körfuboltakappinn Latrell Sprewell réðst á þjálfarann sinn árið 1997 og greip hann kverkataki en núna birtist hann í sjónvarpsauglýsingum fyrir íþróttaskó þar sem hann lýsir því yfir að hann sé ameríski draumurinn holdi klæddur. Starfsbróðir hans, Dennis Rodman, er alræmdur fyrir uppátæki sín. Þegar stjarna hans reis sem hæst sparkaði hann m.a. í kvikmyndatökumann og skallaði dómara en það kom ekki í veg fyrir að börn og unglingar í Chicago lituðu hárið á sér rautt til að líkjast átrúnaðargoðinu sem mest. Hornaboltahetjan John Rocker lét dæluna ganga í viðtali þar sem hann lýsti hatri sínu á nær öllum minnihlutahópum sem nöfnum tjáir að nefna, en hann er mættur aftur til leiks með dónalegar bendingar og merki til áhorfenda.

Sumir leikmanna virðast leggja sig fram um hegðun af þessu tagi til að vekja á sér athygli og komast örugglega á sjónvarpsskjáinn. Þeir hæðast að andstæðingum sínum með svipbrigðum og bendingum, draga fingur þvert yfir hálsinn á sér til að koma þeim skilaboðum á framfæri að þeir ætli að kála þeim sem standa í vegi fyrir þeim, stilla sér upp fyrir framan myndavélarnar og látast brjóta eitthvað í tvennt sem mun þýða að þeir ætli sér að mölva hvert bein í andstæðingunum og svo mætti lengi telja.

Það er sem betur fer óhætt að fullyrða að svona framkoma yrði ekki látin óátalin á Íslandi en í Vesturheimi er viðurlögum sjaldan beitt og svo vægilega að þau eru eiginlega mest til málamynda. Sektir sem þessir "heiðursmenn" eru skikkaðir til að greiða eru aðeins smábrot af tekjum þeirra og lengra keppnisbann er fátíðara en uppákomurnar gefa tilefni til.

En það er ekki þar með sagt að Bandaríkjamönnum standi almennt á sama um þessa þróun. Í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins George er m.a. fjallað um vaxandi áhyggjur þjálfara unglingaliða af þeim áhrifum sem óíþróttamannsleg framkoma stjarnanna hefur á óharðnaða unglingana. Krakkarnir blóta og ragna, láta ruddaleg frýjunarorðin dynja á andstæðingum sínum og hika ekki við að beita ofbeldi á vellinum. Sálfræðingur, sem tímaritið ræðir við, segir að umrædd hegðun stórstjarnanna veiki smám saman tilfinningu allra fyrir kurteisi og prúðmannlegri framkomu. Ein afleiðingin sé sú að ungir íþróttamenn telji sig á einhvern hátt meiri ef þeim tekst að gera lítið úr andstæðingunum, hvernig sem leikurinn fer.

Undir þetta tekur þjálfari nokkur og segir ekki við öðru að búast því fjölmiðlar hampi ruddalegum stórstjörnum og sjónvarpið margsýni atvik,þar sem átrúnaðargoðin berji á andstæðingum, dómurum eða áhorfendum. Börn og unglingar haldi að svona eigi íþróttirnar að vera, þær séu stríð en ekki leikur. Orðfærið, sem notað sé í íþróttafréttum, ýti frekar undir þetta en hitt. Það versta sé að margir foreldrar séu þessu samþykkir. Sumir hafi jafnvel sagt honum að hætta að leggja svona mikla áherslu á góða hegðun liðsins, hans hlutverk sé að tryggja sigur.

Í Flórída var slæm hegðun jafnt ungra íþróttamanna sem foreldra þeirra orðin verulegt áhyggjuefni. Ungur fótboltakappi skallaði dómara svo hraustlega að loka þurfti skurði á höfði hans með átta sporum, faðir í Palm Beach var handtekinn eftir að hann ógnaði þjálfara 11 og 12 ára barna með kylfu og beindi að honum byssu og hornaboltaleikur tveggja liða, sem voru skipuð 7 og 8 ára börnum, leystist upp eftir að þjálfurum og foreldrum laust saman. Sum atvik eru enn alvarlegri, til dæmis réðist 15 ára íshokkíleikmaður svo harkalega að marksæknum andstæðingi sínum eftir að leiktíma lauk að hann lamaðist fyrir neðan bringu. "Þetta ætti að halda honum í skefjum," voru orðin sem þokkapilturinn lét hafa eftir sér eftir árásina.

Í öðrum ríkjum er ástandið litlu skárra. Bæði í Ohio og Maryland hefur verið gripið til þess ráðs að halda svokallaða "þögla" leiki þar sem þjálfarar, leikmenn og áhorfendur verða að láta allar upphrópanir eiga sig. Sums staðar keppa yngstu liðin án áhorfenda vegna slæmrar reynslu af æstum foreldrum.

Í bæ einum í Flórída var gripið til þess ráðs að skikka foreldra allra barna, sem tóku þátt í íþróttastarfi, til að sækja námskeið um íþróttamannslega hegðun. Á námskeiðinu fræða barnasálfræðingar og þjálfarar foreldrana um hvernig best sé að hegða sér. Námskeiðinu lýkur með því að foreldrarnir undirrita eiðstaf þar sem þeir heita því að láta tilfinningalega og líkamlega velferð barna sinna ganga fyrir eigin löngun í sigur. Skipuleggjendur námskeiðsins segja þennan undirbúning nauðsynlegan því foreldrar láti oft blindast af hugsanlegum möguleikum barnanna til að ná frægð, frama og auðæfum með framgöngu á íþróttavellinum og börnin telji sjálfsagt að bregðast við harðri samkeppninni með framkomu sem "sæmir" atvinnuíþróttamönnum.

Jákvæð uppeldisleg áhrif íþrótta eru ótvíræð. Þeim stendur hins vegar alvarleg ógn af þessari uggvænlegu þróun sem fyrst og fremst á rætur að rekja til þess að of margir virðast ekki lengur gera greinarmun á heilbrigðri keppni annars vegar og ofbeldi hins vegar. Með fullri virðingu fyrir sálfræðingum, er hægt að ímynda sér nokkuð aumara en að þurfa að fá aðstoð þeirra til þess að ráða við að styðja barnið sitt á uppbyggilegan hátt við íþróttaiðkun?

Hönnu Katrínu Friðriksen

Höf.: Hönnu Katrínu Friðriksen