ÞAÐ er áfangi fyrir Samfylkinguna að stofnfundur hennar sem formlegs stjórnmálaflokks hefur komið saman og að ný forysta með formlegt umboð trúnaðarmanna hins nýja flokks hefur verið kjörin.

ÞAÐ er áfangi fyrir Samfylkinguna að stofnfundur hennar sem formlegs stjórnmálaflokks hefur komið saman og að ný forysta með formlegt umboð trúnaðarmanna hins nýja flokks hefur verið kjörin.

En jafnframt er ljóst að við val á forystu flokksins hefur þess verið gætt að fulltrúar þeirra fjögurra stjórnmálaafla, sem standa að stofnun hins formlega stjórnmálaflokks,gegni lykilstöðum. Það eina, sem getur skekkt þá mynd, er kosning sem fram mun fara í dag um ritara flokksins. Færi svo að fyrrverandi trúnaðarmaður Kvennalistans næði ekki kjöri í það embætti hefur ekki tekizt að velja forystu sem endurspeglar allar þær stjórnmálahreyfingar sem að flokksstofnuninni standa.

Kjör Össurar Skarphéðinssonar sem formanns Samfylkingarinnar kemur ekki á óvart eftir atburðarás síðustu mánaða. Þar er á ferð stjórnmálamaður með víðtæka stjórnmálareynslu að baki. Össur Skarphéðinsson hefur bæði starfað í Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki og að auki verið ritstjóri tveggja dagblaða, Þjóðviljans og Dagblaðsins Vísis. Sú víðtæka reynsla mun áreiðanlega koma sér vel fyrir nýkjörinn formann á næstu mánuðum og misserum þegar miklar kröfur verða til hans gerðar.

Það kom heldur ekki á óvart að Margrét Frímannsdóttir var kjörin varaformaður flokksins. Það var að sjálfsögðu nauðsynlegt samkvæmt þessari vinnureglu, úr því formaður kom úr Alþýðuflokki að varaformaður kæmi frá Alþýðubandalagi. Með vali Ágústar Einarssonar til formanns framkvæmdastjórnar hefur þeim sem stóðu að stofnun Þjóðvaka verið tryggður ákveðinn sess í forystusveitinni. Það á svo eftir að koma í ljós hvort kvennalistakonur verða sáttar við sinn hlut eftir kosningu ritara flokksins.

Styrkleiki þessarar nýkjörnu forystu Samfylkingarinnar er sá að þarna eru gamalreyndir stjórnmálamenn á ferð. Veikleikinn er með sama hætti að hér er ekki sleginn nýr tónn með vali á nýju fólki. Þess vegna verða þau orð Össurar Skarphéðinssonar í ræðu við upphaf stofnfundarins ekki ýkja sannfærandi, að Samfylkingin sé "hið nýja afl í íslenzkum stjórnmálum 21. aldar."

ESB átakamálið

Ef marka má ræðu Össurar Skarphéðinssonar, er úrslit í formannskjöri höfðu verið kynnt á stofnfundi Samfylkingarinnar og drög að stjórnmálaályktun flokksins, sem birt voru í heild í Morgunblaðinu í gær, má gera ráð fyrir að spurningin um aðild að ESB verði átakamálið í íslenzkum stjórnmálum af hálfu Samfylkingarinnar á næstu misserum. Hvorki ræða formannsins né drög að stjórnmálaályktun gefa vísbendingu um að hinn nýi flokkur ætli að marka sér þá sérstöðu í öðrum málaflokkum að leitt geti til verulegra átaka.

Í ræðu sinni sagði Össur Skarphéðinsson m.a. um aðild að ESB:

"Við gerum okkur grein fyrir því að staða EES-samningsins, sem var ótvírætt framfaraskref, er óðum að veikjast. Evrópusambandið er að breytast og stækka og atburðarásin getur leitt til þess að þjóðin standi frammi fyrir því að gera upp hug sinn um aðild. Það getum við ekki nema ljóst sé um hvað við viljum semja. Ég tel því að næsta skref í þessum málum sé að hefja skipulega vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Um þau markmið þarf að ríkja meirihlutasamstaða meðal þjóðarinnar."

Þetta eru athyglisverð orð og verða ekki skilin á annan veg en þann að hinn nýi formaður ætli að hefja það starf á vettvangi Samfylkingarinnar að "skilgreina samningsmarkmið Íslendinga". Alla vega er ljóst að það verkefni er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar.

Af þessum orðum er nærtækt að draga þá ályktun að þau skilgreindu samningsmarkmið verði eitt helzta kosningamál Samfylkingarinnar í næstu kosningum.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að einn stjórnmálaflokkanna taki sér þetta verkefni fyrir hendur og efni til umræðna um Evrópumálin með þeim hætti. Hitt er alveg ljóst, ef tekið er mið af nýútkominni skýrslu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um Evrópusambandið, að það verður erfitt ef ekki ómögulegt að færa efnisleg rök fyrir þeirri niðurstöðu að Íslendingar eigi að sækja um aðild að ESB að óbreyttri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Og samkvæmt skýrslunni eru slíkar breytingar ekki á dagskrá.