VILHJÁLMUR Andrésson, forstöðulæknir á kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir Marsden Wagner, sérfræðing í barna- og nýburalækningum, vega ómaklega að sjúkrahúsinu í Morgunblaðinu í gær þar sem hann segir að tæknileg inngrip í fæðingar séu...

VILHJÁLMUR Andrésson, forstöðulæknir á kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir Marsden Wagner, sérfræðing í barna- og nýburalækningum, vega ómaklega að sjúkrahúsinu í Morgunblaðinu í gær þar sem hann segir að tæknileg inngrip í fæðingar séu meiri á Akureyri en annars staðar á landinu. "Gagnrýni hans þjónar engum tilgangi og gerir fólk hrætt og hissa og hræðir frá sjúklinga," segir Vilhjálmur.

Hann segir að tölum af því tagi sem Wagner slái fram í frétt Morgunblaðsins þurfi að taka með miklum fyrirvara. Það verði fyrir það fyrsta að flokka niður hvar inngrip hafi átt sér stað í fæðingar og hvers vegna. Þá séu tiltölulega fáar fæðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þannig að það þurfi ekki nema einn eða tvo keisaraskurði til þess að prósentuhlutfallið rjúki upp úr öllu valdi en mun fleiri keisaraskurði þurfi t.d. á Landsspítalanum til þess að fá samsvarandi hækkun á prósentuhlutfallinu.

Vilhjálmur segir að það þurfi ekki að felast neitt óeðlilegt í þeim tölum sem Wagner hafi tekið úr samhengi. "Staða mála er ekki svona alvarleg og öllum konum sem hafa fætt sín börn hér hefur vegnað vel. Málið lýtur einfaldlega ekki að tölfræði heldur því að bjarga móður og barni og allir leggjast á eitt um það," segir Vilhjálmur.

Alexander Smárason, yfirlæknir á kvennadeild FSA, segir með ólíkindum að maður sem ekki þekki sjúkrahúsið skuli veitast að því með þessum hætti án þess að hafa kynnt sér aðstæður. "Í 80% tilfella gengur yfirleitt allt vel en nú til dags samþykkir fólk ekki að nokkurt tilfella geti farið illa. Ef til vill er það af völdum hræðslunnar við þau tilfelli sem ganga illa sem það verða óþægilega mörg inngrip og stundum að óþörfu," segir Alexander.