Sunnudaginn 7. maí efnir Garðasókn í Garðabæ til árlegrar Vídalínshátíðar í Vídalínskirkju. Jafnframt verður minnst fimm ára vígsluafmælis Vídalínskirkju, en kirkjan var vígð þann 30. apríl 1995. Dagskráin hefst með guðsþjónustu í kirkjunni kl. 14.

Sunnudaginn 7. maí efnir Garðasókn í Garðabæ til árlegrar Vídalínshátíðar í Vídalínskirkju. Jafnframt verður minnst fimm ára vígsluafmælis Vídalínskirkju, en kirkjan var vígð þann 30. apríl 1995. Dagskráin hefst með guðsþjónustu í kirkjunni kl. 14. Í guðsþjónustunni verður fjölbreyttur tónlistarflutningur, m.a. flytur kór Vídalínskirkju kafla úr kantötu eftir J.S. Bach og hluta úr messu eftir Schubert. Einnig munu einsöngvararnir Marta Guðrún Halldórsdóttir og Hjálmar Pétursson syngja einsöng við athöfnina. Með kór og einsöngvurum leikur strengjakvartett og organisti verður Sólveig Anna Jónsdóttir. Stjórnandi verður organisti Garðasóknar, Jóhann Baldvinsson. Predikun sr. Friðrik J. Hjartar.Við guðsþjónustuna þjóna prestar kirkjunnar og djákni, Nanna Guðrún Zöega.

Að lokinni guðsþjónustu verður kaffisala í safnaðarheimilinu til styrktar gluggasjóði kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð hefur verið fenginn til að hanna steinda glugga í hina sjö glugga á suðurhlið Vídalínskirkju. Er hér um að ræða mjög spennandi útfærslu á sköpunarsögunni í Genesis, fyrstu Mósebók. Verður kaffi selt við vægu verði eða kr. 500. Vídalínshátíð er árviss atburður í safnaðarstarfinu, þar sem leitast hefur verið við að hafa menningarlegt efni á boðstólum auk þess sem lesið er úr Vídalínspostillu.

Í kaffisamsætinu munu koma fram Anna Júlíana Sveinsdóttir söngkona, ásamt Sólveigu Önnu Jónsdóttur undirleikara. Lögreglukórinn syngur undir stjórn stjórnanda, Guðlaugs Viktorssonar. Flutt verður ágrip af byggingarsögu kirkjunnar. Lesið verður úr Vídalínspostillu.

Hans Markús Hafsteinsson, sóknarprestur Garðaprestakalls, sem inniheldur þrjár sóknir, Bessastaðasókn, Garðasókn og Kálfatjarnarsókn á Vatnsleysu-strönd. Þessar þrjár sóknir eru hluti af hinu víðfeðma Kjalarnesprófastsdæmi.

Fundur safnaðarfélags Grafarvogskirkju

Síðasti fundur safnaðarfélags Grafarvogskirkju á þessum vetri verður mánudaginn 8. maí. Eins og venja hefur verið undanfarin ár ljúkum við vetrarstarfinu með því að fara í kvöldferð út í vorið. Að þessu sinni verður farið í Bláa lónið. Boðið er upp á rútuferð og farið frá kirkjunni stundvíslega kl. 20. Drukkið verður kaffi í Bláa lóninu og kostar það kr. 550. Kynnt verður saga staðarins og tekið lagið.

Verum nú dugleg og drífum okkur í skemmtilega kvöldferð. Allir velkomnir og takið með ykkur gesti.

Stjórnin.

Þjóðlagamessa í Landakirkju

Vestmanneyingar hafa notið þess síðustu árin að geta farið í poppmessur í Landakirkju annað veifið. Nú verður bryddað upp á nýrri tegund af messu í Landakirkju. Næstkomandi sunnudagskvöld verður sungin þjóðlaga-messa. Það er messuform ættað frá Svíþjóð. Presturinn, Per Harling, hefur samið tónlist og endurgert messusvör hefðbundnu messunnar. Í þjóðlagamessunni er tónlistin ráðandi. Ljúfar hendingar með

innihaldsríkum texta líða fram hver af annarri og lifir tónlistin í huga og sinni lengi eftir að heim er komið. Eldri börn í Litlum lærisveinum leiða sönginn undir stjórn Guðrúnar Helgu Bjarnadóttur og Ósvalds Guðjónssonar. Þrír kennarar úr Tónlistarskóla Vestmannaeyja hafa myndað þjóðlagagrúppu í tilefni

messunar. Þau eru Michelle Gaskell sem spilar á harmonikku og margskonar flautur, Ósvaldur Guðjónsson á gítar og Eggert Björgvinsson á slagverk.

Prestur er séra Bára Friðriksdóttir. Allir Vestmanneyingar sem unna fagurri tónlist mega ekki láta þessa messu fram hjá sér fara. Hver sem ann lögum Oddgeirs Kristjánssonar kann vel að meta lögin sem flutt verða í þjóðlagamessunni í Landakirkju, sunnudagskvöldið 7. maí kl. 20:30. Athygli er vakin á því að messan kl. 14 fellur niður.

Kaffisala kvenfélags Háteigssóknar

Sunnudaginn 7. maí verður kaffisala í safnaðarheimili kirkjunnar (gengið inn að norðan) og stendur frá kl. 14.30 til kl. 17. Um kl. 15. stígur fram barnakór kirkjunnar og syngur undir stjórn Birnu Björnsdóttur. Þetta er aðal fjáröflunardagur kvenfélagsins, sem er nær jafngamalt sókninni, sem nálgast nú fimmtíu árin. Kvenfélagið hefur frá upphafi látið til sín taka í starfsemi safnaðarins og veitt fé til fegrunar kirkjunnar og vil ég þar minna á kórmynd í kirkju og altaristöflu í kapellu og er þá fátt eitt nefnt, auk þess sem þær hafa stundað mikið félags-, líknar- og menningarstarf. Þær eru enn að og huga að nýjum landvinningum til að gera kirkju og safnaðarheimili hæfari til að gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað. Um leið og ég færi Kvenfélagi Háteigssóknar þakkir safnaðarins fyrir heilladrjúgt starf hvet ég alla þá sem unna kirkjunni og félaginu að koma og njóta glæsilegra veitinga og styrkja kvenfélagið til nýrra átaka.

Tómas Sveinsson sóknarprestur.

Biskup Íslands á fundi í Hallgrímskirkju

Mánudaginn 8. maí kl. 20 verður fundur í safnaðarsal Hallgrímskirkju á vegum áhugahóps um kristniboð og hjálparstarf. Eitt ár er síðan hópurinn var stofnaður og hafa verið mánaðarlegir fundir í allan vetur. Á þessum síðasta fundi vetrarins mun biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, ræða um málefni kristniboðs og hjálparstarfs á kristnitökuhátíðarári. Einnig verður gerð grein fyrir vetrarstarfi, reikningar lesnir og kosin stjórn næsta starfsárs.

Messur liðinna alda í Hjallakirkju

Sunnudaginn 7. maí kl. 11.

Messa Jóns Vídalíns. Í tilefni af 1000 ára kristnitökuafmæli Íslendinga var ákveðið að á dagskrá Reykjavíkurprófastsdæma yrðu sérstakar messur er fjölluðu um gamla messusiði og sýndu okkur lítillega inn í þjóðlíf fyrri alda.

Messur liðinna alda eiga að vekja fólk til umhugsunar um andblæ liðins tíma, bæði þjóðfélagslega og guðrækilega, þannig er notað tiltækt efni frá ákveðnum tímum fyrri alda til að vinna úr. Þá er einnig reynt að varpa ljósi á hvernig kristin messa þróaðist í gegnum aldirnar, með því að velja hverri messu stað á mismunandi tímabili. Í messunni er sungið tón og sálmar þess tíma sem messan er tileinkuð, í predikun er tíðarandanum gerð skil og aðrir hlutar messunnar framkvæmdir eins og talið er að þeir hafi verið iðkaðir á því tímabili sem er til umfjöllunar í hvert sinn, þó með hliðsjón af okkar tímum. Þessar messur eru almennar messur, en ekki leiksýningar, þannig koma almennir kirkjugestir til kirkju eins og venjulega og taka þátt í messunni.

Bæklingi sem útskýrir messurnar, svo og hvar og hvenær þær eru haldnar og um hvaða tíma þær fjalla, hefur verið dreift í allar kirkjur í prófastsdæmunum og er fólk hvatt til að ná sér í eintak.

Messan í Hjallakirkju er sjötta messan af sjö messum undir heitinu: Messur liðinna alda. Þessi messa er tileinkuð Jóni Vídalín og er tímabilið 18. öldin.

Athygli er vakin á sýningu í anddyri kirkjunnar á bókum og munum sem tengjast þessum tíma. Kirkjukaffi verður að lokinni messu.

Messa fyrir Súðvíkinga í Dómkirkjunni

Á sunnudaginn kl. 14. verður messa í Dómkirkjunni í tilefni af samkomu á vegum Félags Álftfirðinga og Seyðfirðinga vestra. Samkoman verður haldin í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar að messu lokinni. Við messuna mun sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson prédika og þjóna fyrir altari en hann var prestur Súðavíkur og Eyrarkirkju í Seyðisfirði árin 1977-1989. Á samkomunni verða kaffiveitingar og tækifæri til þess að rifja upp forn kynni og leita frétta af gömlum kunningjum. Gamlir Súðvíkingar hugsa til liðinnar tíðar en gleðjast einnig yfir uppgangi og framförum byggðarinnar þar vestra um þessar mundir. Þeir senda

hlýjar kveðjur vestur.

KR-guðsþjónusta í Neskirkju

Það verður KR-stemmning í guðsþjónustu i Neskirkju nk. sunnudag 7. maí kl. 11. Félagar úr hinum ýmsu meistaraflokkum á vegum KR aðstoða við helgihaldið, ræðu flytur Kristrún Heimisdóttir, fv. knattspyrnukona, og Selma Björnsdóttir mun syngja. Prestur er sr. Örn Bárður Jónsson.

Á undan guðsþjónustunni frá kl. 10 verður boðið upp á léttan morgunverð og kaffi í safnaðarheimilinu í umsjá KR-kvenna og Neskirkju og eru allir velkomnir.

Þetta er í þriðja sinn sem haldinn er slíkur KR-dagur með Neskirkju á jafn mörgum árum og hafa þeir verið fjölsóttir og þótt takast með afbrigðum vel. Allir KR-ingar og vesturbæingar eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í góðri og uppbyggilegri stund.

Kaffisala Kvenfélags Grensássóknar

Á morgun, sunnudaginn 7. maí, verður kaffisala Kvenfélags Grensássóknar að lokinni messu í Grensáskirkju. Vakin er athygli á því að messan hefst kl. 14 og kaffisalan í beinu framhaldi af messunni eða upp úr kl. 15. Um morguninn kl. 11 verður lokasamvera barnastarfsins fyrir sumarhlé en sjálfum messutímanum er hliðrað til svo betur henti vegna kaffisölunnar. Í rúmlega 36 ára sögu Grensássafnaðar hefur kvenfélagið verið einn helsti stuðningsaðili safnaðarstarfsins, bæði hvað varðar ytri aðbúnað og aðild að innra starfi. Hér verða ekki taldir upp allir þeir gripir kirkjunnar sem kvenfélagið hefur gefið; aðeins minnt á búnað á altari og glerlistaverk Leifs Breiðfjörðs í gluggum kirkjuskipsins, sem hvort tveggja er veglegt framlag sem lýsir stórhug og hlýju. Enn dýrmætari er þó sá bakhjarl sem fjölbreytt safnaðarstarfið á í kvenfélaginu og fyrir það er þakkað.

Stuðningur við kvenfélagið er stuðningur við lifandi starf Grensássafnaðar. Fjölmennum því á kaffisöluna, sóknarbörn og aðrir velunnarar Grensáskirkju.

Aðalfundur í Safnaðarfélagi Dómkirkjunnar og vorferðin til Akureyrar

Aðalfundur verður haldinn í Safnaðarfélagi Dómkirkjunnar sunnudaginn 7. maí nk. um kl. 12 á hádegi, að lokinni árdegismessu í Dómkirkjunni. Fundurinn verður haldinn á 2. hæð í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar, á horni Vonarstrætis og Lækjargötu, og hefst með léttum málsverði. Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Á fundinum verður einnig kynnt dagskrá vorferðar Safnaðarfélagsins til Akureyrar helgina 13.-14. maí nk. og geta væntanlegir þátttakendur skráð sig í ferðina á fundinum. Áætlaður kostnaður á hvern ferðalang er um kr. 4.500 til 5000 og er þar innifalið gisting og morgunverður, kvöldverður í Laxdalshúsi og rútuferðir. Fundir Safnaðarfélagsins eru opnir öllum velunnurum Dómkirkjunnar, innan sóknar sem utan, og eru þeir tilvalið tækifæri til að mynda og styrkja tengsl við Dómkirkjuna og Dómkirkjufólkið.

Stjórn Safnaðarfélags Dómkirkjunnar.

Landakirkja

Kl. 10 mun safnaðarfélag Landakirkju hreinsa reit nr. 26 á hreinsunardegi bæjarins. Allir sem teljast til safnaðarfélags Landakirkju eru hvattir til að mæta við Sorpu kl. 10 árdegis. Bærinn býður í pulsuveislu að hreinsun lokinni.

Neskirkja

Félagsstarf aldraðra kl. 12.30. Sr. Fjalar Sigurjónsson, fyrrv. sóknarprestur í Hrísey, segir á sinn skemmtilega hátt frá mannlífi í eynni. Fram verður borin tvíréttuð máltíð. Allir velkomnir. Sr. Frank M. Halldórsson.

Fríkirkjan Vegurinn

Samkoma kl. 20. Lofgjörð, prédikun og fyrirbæn. Allir hjartanlega velkomnir.

Hvammstangakirkja

Sunnudagaskóli kl. 11.

Akraneskirkja

Kirkjuskóli kl. 11. TTT-starf (10-12 ára) kl. 13. Stjórnandi Elín Jóhannsdóttir.

Safnaðarheimilið í Sandgerði

Kirkjuskólinn kl. 11. Lokasamvera og grillveisla.

Grindavíkurkirkja

Tónleikar verða í kirkjunni í dag kl. 17. Flytjendur eru nemendur Söngseturs Estherar Helgu, Regnbogakórinn, Brimkórinn og sönghópurinn Léttur sem klettur. Stjórnandi Esther Helga Guðmundsdóttir. Undirleikari Hreiðar Ingi Þorsteinsson.

KEFAS. Dalvegi 24, Kóp.

Samkoma kl. 14. Ræðumaður Björg R. Pálsdóttir. Mikil lofgjörð og söngur.