ÞEGAR öld Vatnsberans hóf að teygja anga sína inn í líf okkar um og upp úr miðri síðustu öld með uppreisnum gegn ríkjandi kerfum, upprætingu hafta og hverju því sem hélt frjálsri hugsun fanginni komu fram listamenn sem túlkuðu þessar breytingar og...

ÞEGAR öld Vatnsberans hóf að teygja anga sína inn í líf okkar um og upp úr miðri síðustu öld með uppreisnum gegn ríkjandi kerfum, upprætingu hafta og hverju því sem hélt frjálsri hugsun fanginni komu fram listamenn sem túlkuðu þessar breytingar og breyttu heiminum með gerðum sínum. Söngleikurinn Hárið frá 1968 var eitt þeirra listrænu verka sem skildi eftir sig djúp spor í vitund manna um nýja tíma, þar var fyrrnefnt frelsi lofsungið og vitnað til aldarinnar sem nú er runnin upp. Titillag verksins "Aquarius" fjallaði um komandi tíma og breytingar á hugarfari sem afstaða plánetanna myndi efla á ákveðnum tímapunkti:

"When the moon is in the seventh house and Jupiter aligns with Marz, then peace will guide the planets and love will still the stars. This is the dawning of the age of Aquarius."

Þessi tímapunktur var í gær, 5. maí, þegar pláneturnar fimm; Merkúr, Venus, Mars, Júpíter og Satúruns röðuðu sér í beina línu við tungl, jörð og sól svo úr varð einskonar risastór geislasproti sem myndaði segulmagnað tog milli plánetanna og margfaldaði geislaflóð þeirra sem þaut af miklum móð í gegnum myrkvana sem mynduðust milli stjarnanna og magnaði kraft þeirra. Áhrifin af þessum huldu kröftum urðu sýnileg í auknu stórstreymi sjávarfalla og kannski fundu sumir sig jarðbundnari en fyrr. En það eru hin duldu áhrif sem eru hvað merkilegust því samkvæmt útlistunum fræðimanna munu þau efla hug mannsins margfallt og kalla fram nýja gerð hugsunar þar sem hugtakið friður og ást fær nýja og göfuga merkingu. Skilningur mannsins á sjálfum sér, umhverfi sínu, Guði og tilveru allri skerpist verulega og nýtt ljós kviknar í vitundinni. Hin bjarta framtíð, sem var svo óralangt í burtu með sín fögru fyrirheit, er því mætt á staðinn og nú er að sjá hvað setur. Ef þú vilt kynna þér nánar hvað gerðist getur þú slegið inn slóðina http://www.inward.com á Netinu og kannað málið en mig langar að biðja þig og alla aðra lesendur pistilsins að senda Draumstöfum drauma síðustu nætur og nátta til frekari glöggvunar.

Draumur "Stínu"

Gætirðu ráðið fyrir mig draum sem ég hef reglulega? Hann snýst um æskuheimili mömmu sem var bóndabær en er nú í eyði. Þessi staður er niðri við sjó, einbýli, fjós og hlaða. Ég hef alltaf verið heilluð af þessum stað og komið þangað nokkrum sinnum og myndi vilja gera upp húsið fyrir sumarbústað. En alltaf dreymir mig þennan stað. Stundum eru önnur hús þarna, stundum er einhver samkoma þarna, margt fólk. Eitt sinn lágu tveir bátar við akkeri. Nú síðast var komin sjóeldiskví þarna í óleyfi, tölva var í húsinu með e-mail til mín, en þar áður var skilinn eftir símsvari. Merkilegast þótti mér þegar mig dreymdi að þarna stæði kirkja og þegar ég sagði frá draumnum kom það upp úr dúrnum að þarna á sama stað og draumakirkjan var staðsett hafði verið bænahús reist um 1530 sem lítið er vitað um síðan. Einnig í þeim draumi ætlaði ég að labba afleggjarann upp að hliði við þjóðveginn sem er um klukkustundar langur gangur en þá mæta frændur mínir mér á hestbaki og láta mig fá hestana tvo, ljósan og dökkan, sem svo taka á stökk alla leið upp að hliði, þar fer ég af baki (var á þeim ljósa) og hestarnir fara að fá sér hey á bás.

Ráðning

Nú er mikið rætt um gen og erfðafræði sem lausn á erfiðum þrautum mannsins svo sem sjúkdómum, elli og hrörnun enda sé þar lyklana að finna að þeim og fleiri leyndardómum. Draumarnir hafa líka sinn litningabanka og lykla sem ljúka upp huldum dyrum, ein þeirra er hurðin að gátunni um líf eftir þetta og að fyrri lífum. Í draumi þínum er lykill að sjálfri þér og þeirri staðreynd að þú hafir átt líf fyrrum í tengslum (miðaldakirkjan) við þann stað sem draumurinn snýst um. Bönd staðarins við þig virðast óvenju sterk (tölvan, e-mail og símsvarinn) og það er eins og hann kalli á þig að taka sig að sér áður en honum verði breytt í eitthvað (sjókvíin) sem má ekki verða. Þá benda draumarnir á að þú sért næm persóna og eigir auðvelt með að setja þig í spor annarra og skynja líf þeirra og tilfinningar en það mun koma þér vel í því sem þú ert nú að leggja út í. Frásögn þín bendir til að í þessum sama draumi (en ólíkum eftir nóttum) farir þú sálförum um tímann, tilveru staðarins og húsinu við hafið.

Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:

Draumstafir

Morgunblaðið

Kringlunni 1

103 Reykjavík

eða á heimasíðu Draumalandsins

http://www.dreamland.is

Draumstafir Kristjáns Frímanns

Höf.: Draumstafir Kristjáns Frímanns