Malasíubúi athugar um tölvupóst sinn á netkaffihúsi í Kuala Lumpur í gær. Ástarveiran hefur breiðst út um allan hinn netvædda heim.
Malasíubúi athugar um tölvupóst sinn á netkaffihúsi í Kuala Lumpur í gær. Ástarveiran hefur breiðst út um allan hinn netvædda heim.
AÐ MINNSTA kosti fimm ný mismunandi afbrigði "ástarveirunnar" sk. komu fram í gær og ollu tjóni á tölvubúnaði víða um heim.

AÐ MINNSTA kosti fimm ný mismunandi afbrigði "ástarveirunnar" sk. komu fram í gær og ollu tjóni á tölvubúnaði víða um heim. Eitt afbrigðið berst með viðhengi sem ber nafnið "very funny" og mun þó vart verða til að vekja hlátur hjá þeim sem freistast til að opna skjalið. Annað afbrigði kemur með netbréfi þar sem tölvunotanda er tilkynnt um að færð hafi verið tiltekin fjárupphæð út af kreditkortareikningi hans sem greiðsla fyrir gjafir í tilefni af mæðradeginum. Notandanum er sagt að opna viðhengi með bréfinu og þegar hann gerir það verður veiran virk. Þetta síðarnefnda afbrigði er sagt hafa mun skaðlegri verkun en önnur afbrigði þar sem hún eyðileggur fleiri tegundir gagna en önnur.

Nú þegar hafa verið hönnuð veiruvarnaforrit sem verja eiga tölvur gegn ástarveirunni en hermt er að þau dugi ekki gegn nýjum afbrigðum hennar. Veirurnar dreifa sér á Outlook-póstforritinu og Explorer-netvafranum, hvort tveggja hugbúnaður sem framleiddur er af fyrirtækinu Microsoft. Einnig dreifir veiran sér gegnum hugbúnað sem notaður er til að starfrækja sk. spjallrásir á Netinu.

Grunur beinist að Filippseyjum

Ýmislegt þykir benda til þess að veiran hafi borist úr tölvu sem staðsett sé á Filippseyjum. Í kóða veirunnar er að finna netfang sem vistað er hjá netþjónustufyrirtæki á Filippseyjum en ekki er vitað hver eigandi þess er. Orðin "Manila, Filippseyjar" eru rituð í kóða veirunnar og óburðug setning á ensku sem útleggst á íslensku "ég hata fara í skóla".

Einnig hefur það beint athygli manna að Filippseyjum að upprunalega ástarveiran var útbúin á þann veg að tölvur sem smituðust tengdust tiltekinni vefsíðu á Filippseyjum. Með hjálp hugbúnaðar af vefsíðunni var leitað að lykilorðum tölvunotenda af ýmsu tagi og þau send á netfang sem vistað var í vefþjóni netþjónustufyrirtækis á Filippseyjum, AccessNet.

Skæðari en áður þekktir ormar

Útbreiðsla ástarveirunnar og afbrigða hennar er sögð vera sú hraðasta sem um getur í sögu illkynja tölvusendinga. Veirurnar dreifa sér með þeim hætti að þegar notandi hefur opnað netbréf sem inniheldur einhverja þeirra, sendir tölva hans sjálfkrafa svipað bréf til allra skráðra netpóstfanga í tölvunni. Veiran veldur skemmdum á hugbúnaði tölvunnar, m.a. svokölluðum MP3-skjölum, sem vista tónlistarhljóðritanir, og JPEG margmiðlunarskjölum. Einnig vinnur veiran skemmdir á ljósmyndum sem vistaðar eru á hörðum diski tölvunnar.

Sérfræðingar segja að ástarveiran sé mun skæðari en áður þekkt afbrigði af sk. "tölvuormum". Tölvuormar dreifa sér með svipuðum hætti og ástarveiran en valda ekki eiginlegum skaða á hugbúnaði. Á síðasta ári angraði tölvuormurinn Melissa marga tölvunotendur en skemmdi ekki skjöl á sama hátt og ástarveiran.

Washington, Manila. AP, AFP, The Washington Post.

Höf.: Washington, Manila. AP, AFP, The Washington Post