SENNILEGA fæst seint svar við þeirri spurningu hver sé "rétta" opnunin á spil af þeim toga sem vestur heldur á - fáir punktar, góður sjölitur í láglit og fjórspila hálitur til hliðar. Vestur gefur; allir á hættu.

SENNILEGA fæst seint svar við þeirri spurningu hver sé "rétta" opnunin á spil af þeim toga sem vestur heldur á - fáir punktar, góður sjölitur í láglit og fjórspila hálitur til hliðar.

Vestur gefur; allir á hættu.

Norður
ÁD43
6543
K5
852
Vestur Austur
G1062 K985
-- K10972
G3 Á6
KDG10743 Á9
Suður
7
ÁDG8
D1098742
6

Spilið er úr Politiken-mótinu í Kaupmannahöfn. Á einu borðinu vakti Ítalinn Duboin á þremur laufum:

Vestur Norður Austur Suður
Duboin Forrester Bocchi McIntosh
3 lauf Pass 3 grönd 4 tíglar
Pass 5 tíglar Dobl Allir pass

Duboin kom út með lauftíuna og Bocchi tók slaginn á ásinn. Bocchi átti í engum erfiðleikum með að "lesa" lauftíuna sem hliðarkall í hjarta og skipti yfir í þann lit. En valdi til þess smæsta spilið, svo Duboin spilaði háu laufi þegar hann hafði trompað hjartadrottningu suðurs. Það kostaði slag, því nú gat sagnhafi rekið út tígulásinn, spilað trompunum í botn og þvingað austur í hálitunum í lokin. Hann slapp því einn niður, en fer tvo niður ef vestur spilar spaða í þriðja slag.

Á öðru borði ákvað Szymanowski að passa með spil vesturs:

Vestur Norður Austur Suður
Szym. Palmund Martens Kalkerup
Pass Pass 1 hjarta 2 tíglar
Dobl* Redobl 3 spaðar 4 tíglar
4 spaðar Dobl Allir pass

Kalkerup kom út með einspilið í laufi, sem Martens tók heima og spilaði strax laufi um hæl. Kalkerup gat trompað með einspilinu, sem leit út fyrir að vera góð byrjun fyrir vörnina. En Martens vissi vel hvað hann var að gera. Kalkerup skipti yfir í tígul og Martens tók á ásinn, trompaði hjarta, spilaði hálaufi og henti tígli. Þegar laufið hélt, var ljóst hvernig spaðinn lá, og Martens gat notað laufið til að aftrompa norður og fékk sína tíu slagi.