UNDANFARNA daga hefur leikstjórinn George Lucas verið önnum kafinn við leitina að leikaranum sem hentar í hlutverk Anakins geimgengils. En nú eru málin tekin að skýrast, a.m.k. halda slúðurblöðin því fram. Hlutverk unga mannsins Anakins í næstu Stjörnustríðsmynd gæti fallið í skaut hins 19 ára gamla Hayden Christiensen sem er óþekktur, ljóshærður leikari með litla reynslu í kvikmyndaleik. Enn hefur engin staðfesting fengist á þessum orðrómi en áður hafði Colin Hanks, sonur Tom Hanks, verið orðaður við hlutverkið en hann leikur í sjónvarpsþáttunum Roswell. Spámenn telja hann enn inni í myndinni.
Christensen er frá Toronto í Kanada og þykir líkjast hinum unga Jake Lloyd sem lék Anakin í Ógnvaldinum. Yfirlýsing frá Lucas og félögum kemur á næstunni en hægt er að fylgjast með nýjustu fréttum af Stjörnustríði á vefsíðunni www.starwars.com.