Spurning: Hvað veldur því að myndun eyrnamergjar stöðvast? Hversu nauðsynlegt er að losna við eyrnamerg og er hugsanlegt að þess háttar úrgangsefni safnist í slíkum tilfellum saman annars staðar í líkamanum?
Spurning: Hvað veldur því að myndun eyrnamergjar stöðvast? Hversu nauðsynlegt er að losna við eyrnamerg og er hugsanlegt að þess háttar úrgangsefni safnist í slíkum tilfellum saman annars staðar í líkamanum? Geta sár í eyrum hindrað framleiðslu eyrnamergjar? Hverjar eru orsakir þess að myndun eyrnamergjar stöðvast og getur það haft áhrif á heilsu viðkomandi?

Svar: Eyrnamergur er eðlilegur og nauðsynlegur. Hann er brúnn og vaxkenndur og er myndaður af sérstökum kirtlum í þeim þriðjungi hlustarinnar sem er næstur opinu. Húðin sem þekur hlustina að innan vex á þann hátt að hún flytur eyrnamerginn stöðugt út úr ytra eyranu. Eyrnamergurinn er dálítið súr sem gerir það að verkum að hann hindrar vöxt ýmissa sýkla. Eyrnamergurinn ver hlustina og hljóðhimnuna í botni hennar fyrir sýkingum. Til eru rannsóknir sem sýna að ef eyrnamergur er fjarlægður jafnóðum og hann myndast eykst vöxtur baktería í hlustinni svo og tíðni sýkinga.

Það er talsvert breytilegt milli einstaklinga hversu mikið myndast af eyrnamerg; sumir mynda svo lítið að eyrnamergur nær aldrei að safnast fyrir en aðrir svo mikið að hreinsa þarf hlustina á nokkurra mánaða fresti. Með aldrinum verður eyrnamergurinn þykkari og þurrari og meiri hætta er á að hann safnist fyrir og loki hlustinni. Venjulegir þvottar og böð eru oftast nægjanleg til að hreinsa eyrnamerginn hæfilega mikið burtu. Eyrnapinnar með bómull eru í lagi ef þeir eru notaðir mjög varlega og ekki stungið langt inn í hlustina heldur einungis notaðir til að hreinsa opið. Aldrei má stinga neinu langt inn í hlustina vegna hættu á að skadda hljóðhimnuna eða ýta eyrnamerg inn að hljóðhimnu.

Þeir sem fá hellu fyrir eyra og skerta heyrn eftir að fara í bað eiga ekki að reyna að hreinsa hlustina sjálfir heldur fara til læknis. Áður fyrr var hlustin hreinsuð í slíkum tilvikum með því að sprauta volgu vatni inn í hana en það er sjaldan gert nú orðið vegna smávegis hættu á að skemma hljóðhimnuna. Flestir læknar nota þá aðferð að draga eyrnamergstappann út með lítilli töng eða krók, stundum eftir að hann hefur verið mýktur upp með vökva.

Það er nánast óþekkt að myndun eyrnamergjar stöðvist en svo getur virst hjá fólki sem fer mikið í böð eða sund og notar mikla sápu þannig að eyrnamergurinn hreinsast burtu jafnóðum og hann myndast. Eyrnamergur er ekki úrgangsefni heldur gagnlegur hluti af vörnum líkamans gegn sýklum.

Á NETINU: Nálgast má skrif Magnúsar Jóhannssonar um læknisfræðileg efni á heimasíðu hans á Netinu. Slóðin er: http://www.hi.is/~magjoh/

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta.

Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok. Fax 5691222. Einnig geta lesendur sent fyrirspurnir sínar með tölvupósti á netfang Magnúsar Jóhannssonar:elmag@hotmail.com

Sýklavörn

Höf.: Sýklavörn