DAGSKRÁ fyrir alla fjölskylduna verður í Kringlunni í dag, laugardag.
Kringluvinir verða á Stjörnutorgi kl. 10.30. Þar verður ýmislegt um að vera, m.a. mun Hafnarfjarðarleikhúsið kynna leikritið Júlíus, Eiríkur Fjalar mætir á svæðið og kór Snælandsskóla mun syngja.
Á sviðinu á 1. hæð verður á vegum Reykjavíkur - menningarborgar 2000 margt í boði. Þar mun hljómsveitin Ensími stíga fyrst á svið um kl. 14 og taka nokkur lög. Þar á eftir verður kynning á heimildarmyndinni Silfrið salta sem fjallar um síldarævintýrið og frumsýnd verður í Háskólabíói seinna sama dag. Einnig mun leikhópurinn Perlan flytja brot úr sýningunni Perlur og skínandi gull sem frumsýnt verður í Iðnó sunnudaginn 7. maí.
Verslanir í Kringlunni eru opnar til kl. 18 á laugardögum en veitingastaðirnir eru opnir fram á kvöld.