ÞEGAR börn kvarta yfir sífelldum martröðum eða vakna upp af skelfilegum draumum verður foreldrum þeirra um og ó. En samkvæmt nýlegri skýrslu er börnum eðlilegt að dreyma slíka drauma og þeir benda sjaldnast til veikinda eða tilfinningavandamála.

ÞEGAR börn kvarta yfir sífelldum martröðum eða vakna upp af skelfilegum draumum verður foreldrum þeirra um og ó. En samkvæmt nýlegri skýrslu er börnum eðlilegt að dreyma slíka drauma og þeir benda sjaldnast til veikinda eða tilfinningavandamála.

"Tuttugu til þrjátíu og níu prósent barna á aldrinum fimm til tólf ára fá matröð," skrifar dr. J.F. Pagel, við læknadeild Háskólans í Colorado í Bandaríkjunum. "Öfugt við það sem almennt er talið benda tíðar martraðir ekki til sálrænna kvilla."

Pagel er sérfræðingur í rannsóknum á svefntruflunum, og segir hann tvenns konar "vonda drauma" oft valda foreldrum barna ótta, martraðir og næturógnir. Martraðir eru skýrir, skelfilegir draumar sem oftast vekja barnið. Þetta kemur yfirleitt fyrir í djúpsvefni, oft snemma á morgnana.

Næturógnir koma oftast fyrir snemma á svefntímanum og lýsa sér sem ofsahræðsla og mikill ótti og það getur verið erfitt að vekja barnið. Eitt til fjögur prósent barna verða fyrir næturógnum og eru þær algengastar á aldrinum fjögurra til tólf ára. Sjaldnast bendir þetta til þess að barnið sé undir tilfinningalegu álagi, að því er fram kemur í skýrslu Pagels í læknaritinu American Family Physician.

Hann segir að það geti verið gott að ræða þetta við heimilislækni, en yfirleitt þurfi ekki að gefa nein lyf. Þessar svefntruflanir hverfi yfirleitt með aldrinum. Skýrslu Pagels fylgja leiðbeiningar til foreldra, þar sem bent er á að ef martraðir hafi áhrif á daglegt líf barns sé rétt að hafa samband við lækni. Þá sé rétt að gæta barna sem verða fyrir næturógnum því þau geti dottið fram úr rúminu eða gengið í svefni.

New York. Reuters.

Höf.: New York. Reuters