Höggið  sem höfuðið verður fyrir þegar bolti er skallaður getur jafnast á við högg frá góðum áhugaboxara.
Höggið sem höfuðið verður fyrir þegar bolti er skallaður getur jafnast á við högg frá góðum áhugaboxara.
KNATTSPYRNUMÖNNUM hefur verið ráðlagt að skrá þau höfuðmeiðsl sem þeir verða fyrir, eftir að í ljós kom að þau geta valdið vandamálum síðar á æfinni.

KNATTSPYRNUMÖNNUM hefur verið ráðlagt að skrá þau höfuðmeiðsl sem þeir verða fyrir, eftir að í ljós kom að þau geta valdið vandamálum síðar á æfinni. Samtök skoskra atvinnuknattspyrnumanna hvöttu til þessa er fjölskyldur tveggja fyrrverandi knattspyrnustjarna undirbjuggu málshöfðun vegna meintra meiðsla þeirra af völdum þess að hafa skallað bolta.

Knattspyrnumennirnir tveir, Billy McPhail og Jock Weir, voru á hátindi ferils síns á fimmta og sjötta áratugnum. McPhail er nú alzheimersjúklingur og Weir er haldinn elliglöpum, að því er breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá.

Verkfræðingar við Glasgow-háskóla hafa greint frá því, að hámarkskraftur sem höfuð knattspyrnumanns þyrfti að taka við þegar hann skallaði eldri gerð fótbolta gæti numið allt að hálfu tonni. Samsvarandi tala þegar um nýja gerð bolta er að ræða er um það bil helmingi lægri.

Dr. Ron Thomson sagði að engu að síður væri um að ræða meiri kraft en góður áhugahnefaleikamaður gæti framkallað með höggi. Ef þetta endurtæki sig oft á meðallöngum knattspyrnuferli mætti búast við að skaði hlytist af.

Graham Teasdale, prófessor við taugavísindadeild háskólans, sagði að þótt knattspyrnumenn yrðu að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem fylgdi íþróttinni vildi hann ekki gera of mikið úr áhættunni við að skalla venjulegan bolta.