Geir H. Haarde
Geir H. Haarde
GEIR H. Haarde fjármálaráðherra segir að heimild í tekju- og eignaskattslögum til frestunar skattlagningar söluhagnaðar af hlutabréfum, sé það mikilvæg að ekki komi til greina að afnema hana. "Slíkt yrði alltaf róttæk breyting.

GEIR H. Haarde fjármálaráðherra segir að heimild í tekju- og eignaskattslögum til frestunar skattlagningar söluhagnaðar af hlutabréfum, sé það mikilvæg að ekki komi til greina að afnema hana. "Slíkt yrði alltaf róttæk breyting. Frestunarheimildin er í dag mjög mikilvægur þáttur í því starfsumhverfi sem hlutafélög og eigendur þeirra starfa í," segir Geir.

Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri vakti athygli á því í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins á fimmtudag, að hugmyndin með setningu ákvæðisins um frestun skattlagningar söluhagnaðar hafi verið að halda fjármagni í atvinnustarfsemi á Íslandi. Nú þegar íslenskir aðilar nýti sér frestunina með fjárfestingum í gegnum eignarhaldsfélög í Lúxemborg mætti spyrja sig hvort það hafi verið ætlun löggjafans í upphafi.

Geir segir að menn verði að hafa í huga að ekki sé hægt að gera greinarmun á innlendum og erlendum hlutafélögum vegna þeirra skuldbindinga sem Ísland hafi gengist undir með EES-samningnum og geri ráð fyrir frjálsum fjármagnsflutningum á milli landa. "Af þeim sökum hefur til dæmis þurft að gera breytingar á skattalögum og setja erlend hlutabréf undir sama hatt og innlend bréf, hvað skattaafslátt af hlutabréfum varðar. Það myndi því ekki standast gagnvart þeim skuldbindingum sem á okkur hvíla að gera breytingar á þessu og binda endurfjárfestinguna við innlend hlutafélög."

Tryggja þarf samkeppnishæft skattaumhverfi

Aðspurður um hvort það sé áhyggjuefni fyrir stjórnvöld að erlent fjármagn renni úr landi í eignarhaldsfélög í Lúxemborg, bendir Geir á að félögin stundi fjárfestingar bæði í íslenskum og erlendum hlutabréfum. "Verkefni okkar Íslendinga er að gera okkar umhverfi það aðlaðandi að fjármagnið streymi til baka. Við þurfum að tryggja að hér sé samkeppnishæft umhverfi í skattamálum. Á undanförnum árum höfum við staðið að breytingum á skattalögum, einmitt í þessum tilgangi. Þeirri vinnu verður að halda áfram. Ella missum við fólk og fjármagn úr landi.

Að mínum dómi er ekkert athugavert við að hver og einn leiti hagstæðustu fjárfestingar eða ávöxtunar, eftir því sem honum hentar, ef tryggt er að það sé innan þess ramma sem lög og reglur setja."

Geir segir að sjálfsagt og eðlilegt sé að hafa vakandi auga með þróun í skattamálum og vera tilbúin að endurskoða skattalögin með tilliti til þeirrar alþjóðavæðingar sem orðið hefur. Nefnd á vegum fjármálaráðherra hafi unnið að ýmsum atriðum þessu tengdu nú í vetur.