GENGI krónunnar hefur styrkst eftir víkkun vikmarka gengisins og hækkun Seðlabankavaxta í febrúar og hefur krónan ekki verið sterkari frá því að gengi hennar var fellt 28. júní 1993.

GENGI krónunnar hefur styrkst eftir víkkun vikmarka gengisins og hækkun Seðlabankavaxta í febrúar og hefur krónan ekki verið sterkari frá því að gengi hennar var fellt 28. júní 1993. Þetta kemur fram í nýútkomnum Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabanka Íslands.

Fram kemur að frá því að vikmörk gengisins voru víkkuð um 3 prósentustig og stýrivextir hækkaðir hafi vaxtamunur milli Íslands og annarra landa aukist, sem ýtti undir frekari styrkingu krónunnar.

"Gengi krónunnar hækkaði strax, fór í um 6% yfir miðgildi vikmarkanna.

Þann 25. apríl sl. var gengi krónunnar 6,24% yfir miðgildi vikmarkanna og hafði gengi krónunnar hækkað um 2% frá áramótum," að því er fram kemur í skýrslunni.

Sagt er að ýmsir þættir hafi leitt til svo hás gengis krónunnar. Eru þar m.a. nefndir til sögunnar háir vextir hér á landi, sem ýtt hafa undir erlendar lántökur og innstreymi erlends fjármagns. Einnig kunni óróleiki á erlendum hlutabréfamörkuðum í apríl að hafa leitt til tímabundinnar minni eftirspurnar innlendra stofnanafjárfesta eftir erlendum verðbréfum og þar með minna útstreymis fjár en ella og kunni það að vera skýring á styrkingu krónunnar síðustu vikur.

Velta á krónumarkaði jókst verulega

Millibankamarkaður með gjaldeyri hefur verið líflegur fyrstu mánuði ársins og hefur velta verið talsvert meiri en á síðasta ári. Fyrstu fjóra mánuði ársins 1999 nam veltan 128 milljörðum króna, en frá ársbyrjun til 25. apríl á þessu ári um 235 milljörðum króna, sem er rúmlega helmingur veltunnar á árinu 1999, en það ár var metár í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði. Í febrúar á þessu ári voru mestu viðskipti með gjaldeyri í einstökum mánuði og námu þau tæplega 83 milljörðum króna. Seðlabankinn hefur ekki átt viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri síðan í júní 1999, að því er fram kemur í Peningamálum.

Velta á krónumarkaði jókst verulega fyrstu fjóra mánuði ársins samanborið við veltu síðasta árs. Það sem af er þessu ári nemur veltan 219 milljörðum króna en á sama tíma í fyrra nam hún 160 milljörðum króna. Í mars var veltan 73 milljarðar króna og er það mesta velta í einum mánuði frá því að markaðurinn tók til starfa.

Seðlabankinn segir að ein helsta ástæða aukinnar veltu á millibankamarkaði séu aukin viðskipti á gjaldeyrismarkaði. Ennfremur hafi lausafjárreglur greitt fyrir viðskiptum á markaðinum. Lausafjárreglurnar eru einnig sagðar hafa aukið viðskipti með bankavíxla á Verðbréfaþingi, en fyrstu fjóra mánuði ársins námu þau 11 milljörðum króna, en voru árið 1999 6,5 milljarðar.

Hæsta ávöxtunarkrafa húsnæðisbréfa síðan 1997

Viðskipti með ríkisvíxla hafa dregist nokkuð saman, enda hefur verulega verið dregið úr útgáfu þeirra undanfarin ár, m.a. vegna góðrar stöðu ríkissjóðs, að því er segir í skýrslunni.

Þá var heildarfjárhæð útistandandi samninga endurhverfra viðskipta 25. apríl sl. um 35 milljarðar króna, sem er lítið eitt lægri staða en um síðustu áramót.

Veruleg hækkun varð á ávöxtunarkröfu skuldabréfa á eftirmarkaði í mars og fyrstu viku apríl. Á fimm vikum hækkaði ávöxtunarkrafa spariskírteinaflokksins með lengsta líftímann um 0,8 prósentustig og á helstu markflokkum húsbréfa og húsnæðisbréfa um 0,45-0,65 prósentustig. Frá 7. apríl hefur ávöxtun helstu flokka lítið breyst. Nokkur hækkun hefur þó verið á ávöxtun spariskírteina en ávöxtun húsbréfa lækkað lítið eitt.

Ávöxtunarkrafa helstu flokka húsnæðisbréfa og 5 og 15 ára spariskírteina hefur ekki verið jafnhá síðan um mitt árið 1997. Krafan á húsbréfaflokknum, sem er á gjalddaga árið 2021, fór hæst í 5,83% 4. apríl sem er sú hæsta frá því í febrúar 1996. Athygli er vakin á því í skýrslu Seðlabankans að hækkunin hafi orðið á sama tíma og uppkaup spariskírteina og húsbréfa áttu sér stað.

Ennfremur hefur útgáfa húsbréfa aukist verulega á árinu. Fyrstu þrjá mánuðina var hún 6,5 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða á sama tímabili 1999.