SEÐLABANKI Íslands spáir nú 5,5% verðbólgu á milli áranna 1999 og 2000 og 5% verðbólgu yfir árið. Í janúar sl. spáði Seðlabankinn 3,8% verðbólgu yfir árið 2000, en áhrif kjarasamninga og erlendrar verðbólgu eru meginskýring hækkunar á spánni og nema tæplega 1% af 1,2%, að því er fram kemur í ársfjórðungsriti Seðlabankans, Peningamálum, sem kom út í gær. Seðlabankinn birtir nú verðbólguspá sína í fyrsta skipti í ritinu.
Viðskiptahallinn er einnig vaxandi langtímaógnun við stöðugleikann, að mati Seðlabankans. "Viðskiptahalli sem á sér vart hliðstæðu meðal þróaðra ríkja og horfur eru á að verði að óbreyttum forsendum viðvarandi á næstu árum er hins vegar veruleg ógnun við efnahagsstöðugleika. Því er þörf á að grípa til frekari aðgerða," segir í Peningamálum.
Kjarasamningar og erlend verðbólga hafa áhrif til hækkunar
Frá janúar 1999 til janúar 2000 hækkaði vísitala neysluverðs um 5,8%. Seðlabankinn spáir nú að á þessu ári muni vísitalan hækka um 5% og um 4% á árinu 2001. Það felur í sér að meðalhækkun verðlags á milli áranna 1999 og 2000 verður 5,5% og 4,5% á milli áranna 2000 og 2001, eins og segir í riti Seðlabankans.Að hluta til stafar mismunurinn á spá Seðlabankans frá í janúar og spánni sem birt var í gær, af verðhækkunum sem þegar hafa orðið, en horfur um verðlagsþróun til loka ársins hafa einnig versnað töluvert. Að mati Seðlabankans má rekja það til þess að ýmsar forsendur spárinnar hafa breyst til hins verra og er annars vegar vísað til þess að hækkun launa mun verða töluvert meiri en gert var ráð fyrir í janúarspánni og hins vegar að horfur um þróun innflutningsverðs eða erlenda verðbólgu hafi versnað nokkuð.
Í janúarspá Seðlabankans var reiknað með 6,5% hækkun launakostnaðar á árinu 2000, en forsenda nýjustu spárinnar er að launakostnaður hækki um tæp 8% árið 2000 og um 5,5% árið 2001. Gert er ráð fyrir 2,5% launaskriði árið 2000 og 1,5% launaskriði árið 2001. Forsenda um þróun framleiðni á árinu 2000 er óbreytt eða 2% en gert er ráð fyrir framleiðniaukningu sem nemur 1,5% á næsta ári.
Varðandi versnandi horfur um þróun innflutningsverðs segir í riti Seðlabankans: "Í janúar var búist við 2% hækkun innflutningsverðs í erlendri mynt, en nú er gert ráð fyrir að það hafi hækkað með 3,5% árshraða fyrstu 3 mánuði yfirstandandi árs en muni hækka með 2% árshraða eftir það. Á móti kemur að gengi krónunnar sem lagt er til grundvallar spánni hefur hækkað um 2,1% frá því að janúarspáin var gerð."
Birgir Ísleifur Gunnarsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, segir muninn á milli verðbólguspáa Seðlabankans nú og í janúar í raun innan skekkjumarka. "Við viljum auðvitað sjá verðbólguna lækka með meiri hraða en við höfum spáð. Spá okkar nú bendir til heldur meiri verðbólgu en í janúar, en við gerum þó ráð fyrir að hún hjaðni þegar líða tekur á árið."
Að mati Seðlabankans eru þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið, innan þeirra marka sem búast mátti við miðað við aðstæður. "Kjarasamningarnir eru ekki mikill verðbólguhvati þótt þeir séu kannski á ystu nöf. Þeir hefðu getað orðið verri," segir Birgir Ísleifur í samtali við Morgunblaðið.
Styrkleiki kjarasamninganna sem eru í höfn felst að mati Seðlabankans m.a. í því að þeir eru gerðir til langs tíma eða til ársins 2003. Seðlabankinn telur framlag ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna ennfremur hóflegt og meira svigrúm nú en árið 1997 til að beita sköttum í hagstjórnarskyni.
Þrýstingur á gengið haldi ójafnvægi áfram í þjóðarbúskapnum
Að venju gerir Seðlabankinn ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar frá spádegi, sem í þessu tilviki er 25. apríl, en gengisþróun á spátímabilinu er ævinlega einn helsti óvissuþáttur spárinnar, að því er fram kemur í riti bankans. Þar segir að ýmislegt bendi til þess að gengi krónunnar haldist stöðugt eða hækki jafnvel á næstu mánuðum vegna innstreymis fjármagns, m.a. vegna mikils vaxtamunar. "Þegar litið er lengra fram á spátímabilið er hins vegar ekki hægt að útiloka að þrýstingur myndist á krónuna til lækkunar, haldi ójafnvægið í þjóðarbúskapnum áfram. Annar veigamikill óvissuþáttur eru áhrif ofþenslu á launaskrið og verðlag."Gengi krónunnar hefur hækkað um 2,1% frá verðbólguspá Seðlabankans í janúar. "Það er ljóst að hátt og hækkandi gengi krónunnar vinnur gegn verðbólgunni og gegn hækkun innflutningsverðs eða erlendri verðbólgu. Verðbólguspáin nú væri því töluvert hærri ef gengi krónunnar væri hið sama og í janúar," segir Birgir Ísleifur í samtali við Morgunblaðið. Miðað við að hvert prósentustig í gengishækkun samsvari 0,4 prósentustigum í verðbólgu, má ætla að verðbólguspá Seðlabankans hljóðaði nú upp á nærfellt 6,5% verðbólgu á milli ára ef gengið hefði verið óbreytt.
Stefnir í 8% viðskiptahalla
Viðskiptahallinn nemur nú 7% af landsframleiðslu og hefur aukist frá síðasta ári. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að viðskiptahallinn haldi áfram að aukast í þjóðhagsspá sem birt var í mars, og gert er ráð fyrir að hann fari upp í 8% í framhaldinu.Viðskiptahallinn veldur stjórn Seðlabankans áhyggjum. "Það þarf að taka mjög alvarlega þegar viðskiptahallinn er kominn upp í 7% af landsframleiðslu og jafnvel útlit fyrir enn vaxandi halla," segir Birgir Ísleifur Gunnarsson í samtali við Morgunblaðið. Seðlabankinn hefur lagt áherslu á að auka þurfi þjóðhagslegan sparnað til að sporna gegn viðskiptahallanum. "Ríkisfjármálin geta leikið þar stórt hlutverk en jafnframt er æskilegt að reyna að örva einkasparnað eins og hægt er."
Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á blaðamannafundi í gær að viðskiptahallinn væri ógnun við gengisstöðugleikann til lengdar, en ekki á þessu ári. Hann sagði nauðsynlegt að grípa til aðgerða í ríkisfjármálum og nefndi þar m.a. niðurskurð útgjalda ríkisins og hækkun skatta. Einnig að draga þyrfti úr skuldahvetjandi þáttum skattkerfisins, svo sem í vaxtabótakerfinu, sem virtist gera það að verkum að heimili væru tilbúnari en ella að skuldsetja sig.
Hætt er við að traust markaðsaðila á stöðugleika krónunnar hverfi verði ekkert að gert, að því er segir í riti Seðlabankans. Hugsanlegt er að Seðlabankinn þurfi á næstu árum að halda uppi stöðugt hærri vöxtum til að halda gengi krónunnar sterku. "Hátt vaxtastig mun þá að lokum kæfa þann hagvöxt sem nú er til staðar, en stjórnvöldum gæfist kostur á að grípa til annarra ráðstafana til þess að draga úr eftirspurn og viðskiptahallanum á sársaukaminni hátt."
Álíka mikill halli og var undanfari gjaldeyriskreppu
Í Peningamálum kemur fram að til þess að dragi að ráði úr viðskiptahallanum þurfi útflutningur að vaxa umtalsvert hraðar en innflutningur. Í öðru lagi sé mögulegt að heimilin auki sparnað sinn á næstu árum. Engin leið sé hins vegar að spá fyrir um hvenær og hvernig umskipti verða í þessu efni.Sá viðskiptahalli sem Ísland býr nú við er einn sá mesti sem á nýliðnum árum hefur mælst í OECD-ríki. Hann á sér einungis hliðstæðu á Nýja-Sjálandi á síðustu árum, að því er fram kemur í riti Seðlabankans, en þar hefur viðskiptahalli minnkað síðan árið 1997. Seðlabankinn dregur þá ályktun að ástand efnahagsmála sé lakara á Íslandi en Nýja-Sjálandi að því leyti að verðlagsþróunin gefi ekki færi á neinni slökun á peningalegu aðhaldi í náinni framtíð, þar sem verðbólga hefur aukist hér á landi en hélst lág á Nýja-Sjálandi við svipaðar aðstæður.
Fram kemur að sú spurning verði áleitin hversu lengi svo mikið ójafnvægi getur varað án þess að traust markaðsaðila á efnahagsstefnuna bresti. "Alþjóðleg reynsla gefur til kynna að svo mikill halli sé mjög áhættusamur. Þetta er álíka mikill halli og varð undanfari gjaldeyriskreppu í Mexíkó árið 1994/1995 og í Taílandi árið 1997."