Hægri, vinstri, upp miðjuna. Mennirnir koma úr öllum áttum. Svartir, hvítir, loðnir og hárlausir. Svei mér ef þeir falla ekki af himnum líka. Oft hefur það flögrað að manni að þeir séu innundir hjá almættinu, þó það skjóti auðvitað skökku við, Rauðu djöflarnir. Slík er stríðsgæfan. En hver er sinnar gæfu smiður, segir máltækið og annar eins sóknarkraftur er sjaldséður. Aumingja andstæðingarnir geta í verstu hrotunum aðeins beðið bænirnar sínar, vonað hið besta, þegar sóknirnar skella á þeim eins og brim á barnsrassi. Það heldur enginn mannlegur máttur þessum þunga.
Meistarar Manchester United leiktíðina 1999-2000 eru mesta sóknarlið síðustu ára í ensku knattspyrnunni. 93 mörk hafa þeir þegar gert í úrvalsdeildinni, sem er met, og enn eru tveir leikir eftir. Hundrað marka múrinn verður hugsanlega rofinn. Flæðið í liðinu er frábært. Þar liggur styrkurinn fyrst og síðast. Það getur ráðist til atlögu úr öllum áttum. Beckham, Giggs, Scholes, Keane, Cole og Yorke, allir geta þessir menn látið til skarar skríða, með eða án fyrirvara, að ekki sé talað um Ole Gunnar Solskjær, sem endrum og eins er skipt inná til hátíðarbrigða.
Slakur varnarleikur
Helsta skýringin á þessum hetjudáðum er geta. Af henni eiga leikmenn Manchester United nóg. Og til hvers að spara hana? Önnur skýring á markaveislunni er sú að vörn meistaranna er ekki upp á marga fiska. 44 tuðrum hefur hún lekið í 36 leikjum, talsvert meira en marki í leik, sem er alls ekki gott. Fyrir vikið hafa framherjarnir beinlínis þurft að vinna í akkorði. Út á það gengur líka leikurinn, að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. Það skilja menn á Old Trafford.Á 1:0 (Cantona)-tímanum, um miðjan tíunda áratuginn, var þessu raunar öfugt farið. Franski furðufuglinn dró þá eina og eina kanínu upp úr hatti sínum og þar við sat. Steve Bruce, belgmikill og blásandi, og hinn bakveiki Gary Pallister, eins ótraustvekjandi og það nú hljómar, héldu sóknarmönnum andstæðinganna í skefjum, án teljandi vandræða. Eru af mörgum taldir besta miðvarðapar United fyrr og síðar. Skörð þeirra hafa ekki verið fyllt.
Hollendingurinn Jaap Stam og Frakkinn Mickael Silvestre hafa staðið vaktina lengstum í vetur en virðast ekki ná almennilega saman. Stam er auðvitað stórkostlegur varnarmaður, sollinn af holdlegu atgervi, en styrkur hans felst í návígjum - menn fara einfaldlega ekki framhjá honum - fremur en leiklestri og samþættingu varnarinnar. Silvestre er betri bakvörður en miðvörður. Henning Berg er prýðilegur leikmaður en skortir þéttleika.
Að vísu á United kjörinn félaga fyrir Stam, Ronny Johnsen. Hann hefur á hinn bóginn verið frá vegna meiðsla í svo til allan vetur og þar getur skýringin á lekanum legið að hluta. Þá hefur hinn bráðefnilegi Wes Brown einnig verið fjarri góðu gamni. Þessir menn munu styrkja liðið næsta vetur.
Síðan er vitaskuld enginn Peter Schmeichel í markinu lengur. Mark Bosnich passar ekki í hanskana hans. Athygli vekur aftur á móti að tvö síðustu meistaraliðin sem skörtuðu Schmeichel, 1996-97 og 1998-99, fengu á sig 44 og 37 mörk. Vandinn liggur því með öðrum orðum ekki í markvörslunni.
Framherjar á förum?
Eftir stórskotahríð, eins og verið hefur í boði á leiktíðinni, myndi margur ætla að staða framherjanna væri trygg. Svo er ekki. Í það minnsta var Sir Alex Ferguson reiðubúinn að bæta hollenska markahróknum Ruud van Nistelrooy í hópinn um páskana. Nítján milljónir sterlingspunda átti hann að kosta í híalíni og á takkaskóm. Dáðadrengur þessi gekk raunar úr skaftinu vegna hnémeiðsla en skilaboðin til hinna fjögurra fræknu, Yorkes, Coles, Solskjærs og Teddys Sheringhams, eru skýr - veldi ykkar er ógnað. Nú tala menn um Francesco Toldo hjá Roma, Tore Andre Flo hjá Chelsea og David Trezeguet hjá Mónakó.Það er stórmerkilegt að Ferguson skuli vera tilbúinn að borga nítján milljónir punda fyrir sóknarmann. Væri þessu fé ekki betur varið til kaupa á varnarmanni, til dæmis Sol Campbell? Hugsanlega. Reynslan hefur þó kennt manni að draga ekki dómgreind Fergusons í efa. Stjórnkænska hans er oft og tíðum snilldarleg. Eitt sumarið seldi hann Paul Ince, Andrei Kanchelskis og Mark Hughes á einu bretti, fyllti liðið í þeirra stað af bólugröfnum unglingum, og stóð uppi með tvennuna, sigur í deild og bikar, um vorið. Afbrigðilegt.
Van Nistelrooy er út úr myndinni, í bili að minnsta kosti, og það væri svo sem eftir öðru að Ferguson léti þar við sitja, hætti við kaup á framherja. Hann hefur þó opinberað vilja sinn og fyrir vikið hætt við að rót komist á fjórmenningana fræknu.
Dwight Yorke er traustur í sessi. Hann er óumdeilanlega helsti framherji liðsins, frábær leikmaður í blóma ferilsins, þótt ekki hafi hann leikið jafn vel á þessari leiktíð og þeirri síðustu. Framtíð hinna þriggja er óljósari.
Líklegt er að Teddy Sheringham rói á önnur mið í sumar. Hans hlutverki virðist lokið á Old Trafford. Það lá svo sem fyrir áður en kaupin á Van Nistelrooy komu til tals.
Andy Cole hefur leikið vel í vetur og samvinna hans og Yorkes er rómuð. Eigi að síður er hann nú orðaður við hin og þessi lið, innanlands og utan. Ævintýralegar afbrennslur loða við hann og sumir segja að Ferguson hafi fengið sig fullsaddan. Það mætti þó segja manni að Cole hafi grátið hrakfarir van Nistelrooys þurrum tárum.
Þá er það Ole Gunnar Solskjær. Framtíð hans er óræð. Norðmaðurinn hefur lítið fengið að leika, alltof lítið segja sumir, en stendur sig jafnan með sóma þegar á reynir. Hann virðist fastur í hlutverki varaskeifunnar. Það getur verið þakklátt hlutskipti, rétt eins og úrslitaleikurinn í meistaradeildinni í fyrra gefur til kynna, en líka þreytandi. Það er erfitt fyrir atvinnumann á besta aldri að leika ekki heilan leik nema endrum og sinnum.
Solskjær er alltaf sama sólskinsbrosið í fjölmiðlum. Segist ánægður með sinn hlut. Því hefur þó verið haldið fram að þannig sé þetta ekki undir niðri, þolinmæði hans sé á þrotum. Solskjær gæti verið á þröm þessa að knýja dyra hjá Ferguson. "Nú spila ég meira eða fer," gæti orðið kjarninn í máli hans. Fjölmörg frambærileg félög væru tilbúin að hreppa hnossið. Ferguson fær því, ef að líkum lætur, að brjóta heilann í sumar.
Ótvíræðir yfirburðir
Yfirburðir United í vetur hafa verið ógurlegir. Liðið hafði svo gott sem tryggt sér meistaratitilinn snemma í febrúar, án þess þó að sýna sínar sterkustu hliðar, um það eru menn sammála. Það er ekki fyrr en á síðustu vikum að liðið hefur leikið við hvurn sinn fingur. Það segir þó meira um hin liðin í deildinni en meistarana sjálfa.Leeds United var í hlutverki hérans lengi vel, hélt uppi hraðanum. Þegar á reyndi hafði lið Dave O'Learys hvorki úthald né mannafla til að elta meistarana uppi. Þess tími er einfaldlega ekki kominn.
Arsenal, sem veitt hefur United verðuga keppni undanfarin tvö ár, hefur verið brokkgengt á leiktíðinni og ekki sýnt klærnar fyrr en á allra síðustu vikum, þegar það var um seinan. Meiðslum lykilmanna hefur verið kennt um. Eitthvert andleysi var aukinheldur að hrjá Arsenalmenn fram eftir vetri.
Liverpool getur vel við sinn hlut unað, þrátt fyrir þrálátan hiksta í síðustu leikjum. Liðið er loksins komið á beinu brautina aftur, eftir mörg mögur ár, og í aðstöðu til að tryggja sér sæti í meistaradeildinni næsta haust. Spennandi verður að fylgjast með Rauða hernum á næstu einu til tveimur árum.
Fimmta liðið í toppbaráttunni, Chelsea, sparaði kraftana fyrir meistaradeildina, þar sem framganga þessa fullorðna flokks var til fyrirmyndar. Fyrir vikið heltist liðið úr lestinni fyrir jól heimafyrir. Það getur þó yljað sér við 5:0 sigurinn á United síðastliðið haust.
Fyrir utan þetta misjafna gengi keppinautanna eru margir á því að sólbaðsdvölin á Sambaströnd í janúar hafi komið meisturunum til góða. Að vísu var gengi liðsins fyrir neðan allar hellur í heimsmeistaramótinu svokallaða en úr varð fyrir bragðið dágott miðsvetrarfrí meðan Arsenal, Liverpool, Leeds og allir hinir óðu aurinn í frostinu heima fyrir. Unitedmenn eru vissulega vanir að toppa á vormánuðum en aldrei sem nú. Þar hefur sólbaðið sitt að segja.
Ekki svo að skilja að United hefði að öðrum kosti ekki farið með sigur af hólmi. Það hefði liðið gert. Bara ekki með eins miklum yfirburðum og raun ber vitni.
Sex meistaratitla hefur Manchester United nú unnið á átta árum, aðeins tvö önnur félög hafa komist að meðan úrvalsdeildin hefur verið við lýði, Blackburn Rovers 1995 og Arsenal 1998. Gæti hugsast að Englendingar séu að sigla inn í sama "ófremdarástand" og Skotar, þar sem Glasgow Rangers hefur hampað titlinum ellefu sinnum á tólf árum?
Á að vera á toppnum
Eðlilegt er að menn velti þessu fyrir sér. United er klárlega með besta liðið, breiðasta leikmannahópinn, klókasta knattspyrnustjórann, stærsta leikvanginn, flesta stuðningsmenn og mesta fjármagnið - risafyrirtæki á alþjóðamælikvarða. Það malar gull. Um það bera "kaupin" á van Nistelrooy vitni, ekkert annað félag á Englandi hefði getað lagt nítján milljónir sterlingspunda út fyrir mann sem að mörgu leyti er enn óskrifað blað. Miðað við stærð og styrk á United að vera á toppnum. Hættan á einokun er því óneitanlega fyrir hendi, þótt stuðningsmenn United skynji ástandið auðvitað ekki sem hættu.Margt veltur á Ferguson. Hann er leikhússtjórinn í Leikhúsi draumanna og maðurinn sem leysir hann af hólmi, þegar þar að kemur, mun standa andspænis þrítugum hamri. Grunnurinn verður auðvitað á sínum stað en kænska Fergusons er ekki mörgum í blóð borin.
Annars er vont að horfa fram í tímann í þessu efni. Veldi Liverpool á áttunda og níunda áratugnum var ekki árennilegt en allt í einu riðaði það til falls. Rétt sísona. Nú, tíu árum síðar, er skútan loksins að komast á réttan kjöl aftur. Ekki sér maður United þó sökkva svo djúpt, þó óhjákvæmilega komi að því, fyrr eða síðar, að Rauðu djöflunum verði velt úr sessi sem besta liði enskrar knattspyrnu. Að minnsta kosti um stundarsakir.