MANCHESTER United hefur þegar sett stigamet í 38 leikja úrvalsdeild, hlotið 85 stig og á enn tvo leiki eftir. Stigametið í úrvalsdeildinni, 92 stig, sem félagið á sjálft frá árinu 1994, er aftur á móti ekki í hættu. Þá voru leiknir 42 leikir. Besti árangur félagsins í 38 leikja deild fram til þessa var 82 stig árið 1996.
Annað met gæti fallið. Stigamunur á efsta og næstefsta liði. Metið í úrvalsdeildinni á United, vann deildina með tíu stiga mun 1993. Metið í efstu deild á hins vegar Everton, sem sigraði í gömlu fyrstu deildinni með þrettán stiga mun 1985. United hefur nú sextán stiga forskot á Arsenal, sem á einn leik til góða.