TITILLINN í ár er sjötti meistaratitill Manchester United á átta árum. Það er með því besta sem sögur fara af á Englandi en lið reyndu þar fyrst með sér í deildarkeppni veturinn 1888-89.

TITILLINN í ár er sjötti meistaratitill Manchester United á átta árum. Það er með því besta sem sögur fara af á Englandi en lið reyndu þar fyrst með sér í deildarkeppni veturinn 1888-89. Eina félagið sem skákar sigurgöngu United er Liverpool sem varð sjö sinnum meistari á níu árum, frá 1976-84. Raunar var einokunarskeið Rauða hersins lengra, því félagið vann alls tíu meistaratitla á fimmtán árum frá 1976-90 og missti aldrei nema eitt ár úr í senn. Á þessum tíma varð Liverpool einnig Evrópumeistari meistaraliða í fjórgang, þannig að hið frækna lið Fergusons stendur því ekki enn á sporði. Alls hefur Liverpool átján sinnum orðið Englandsmeistari en United þrettán sinnum. Í þriðja sæti er Arsenal með ellefu titla. Þá Everton með níu.

Fyrstu meistararnir á Englandi voru Preston North End en fyrsta félagið til að deila og drottna þar um slóðir var Aston Villa sem bar fimm sinnum sigur úr býtum á sjö árum, frá 1894-1900. Valdajafnvægi var við lýði fram á þriðja áratuginn, að Huddersfield Town varð hlutskarpast þrjú ár í röð, fyrst félaga, 1924, '25 og '26. Þetta eru raunar einu meistaratitlar þess fornfræga félags. Knattspyrnustjóri Huddersfield tvö fyrrnefndu árin var Herbert Chapman sem fáum árum síðar lagði drög að öðru stórveldi, Arsenal.

Skytturnar báru ægishjálm yfir önnur lið á fjórða áratugnum, hömpuðu meistarabikarnum fimm sinnum á átta árum, frá 1931-38. Chapman andaðist raunar árið 1934 en fyllir án efa flokk farsælustu og áhrifamestu knattspyrnustjóra Englandssögunnar ásamt Bill Shankly og Bob Paisley hjá Liverpool og United-mönnunum Matt Busby og Alex Ferguson.

Heimsstyrjöldin síðari rauf sigurgöngu Arsenal og ýmis nöfn voru letruð á bikarinn fyrstu árin eftir að friður komst á að nýju, meðal annars Manchester United í þrígang á sjötta áratugnum, 1952, '56 og '57. Þetta voru "The Busby Babes", eitt nafntogaðasta lið allra tíma, sem fórst svo gott sem á einu bretti á köldu febrúarkvöldi í München 1958.

Ekkert lið vann oftar en tvisvar á sjöunda áratugnum en Liverpool hafði tögl og hagldir bæði á þeim áttunda og þeim níunda, svo sem lýst hefur verið.

Þrisvar sinnum hefur Manchester United unnið meistaratitilinn tvisvar í röð á síðasta áratug og alls leikið þann leik fjórum sinnum. Félagið hefur á hinn bóginn aldrei lyft bikarnum þrjú ár í röð. Það hefur raunar staðið í liðum gegnum tíðina, aðeins þrjú hafa náð þeim árangri: Huddersfield 1924, '25 og '26, Arsenal 1933, '34 og '35 og Liverpool 1982, '83 og '84.

Kemur röðin að Manchester United á næsta ári?