Helga Jóhannesdóttir tvinnar saman leir, gler og málm.
Helga Jóhannesdóttir tvinnar saman leir, gler og málm.
LEIR - gler - málmur er yfirskrift fimmtu einkasýningar Helgu Jóhannesdóttur leirlistakonu, sem nú stendur yfir í Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Þar gefur að líta 19 verk, öll unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu á síðustu mánuðum.

LEIR - gler - málmur er yfirskrift fimmtu einkasýningar Helgu Jóhannesdóttur leirlistakonu, sem nú stendur yfir í Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Þar gefur að líta 19 verk, öll unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu á síðustu mánuðum.

Eins og yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna eru verkin unnin í leir, gler og málm, en að sögn Helgu hefur það verið viðfangsefni hennar í mörg ár að samtvinna þessi ólíku efni. "En þetta er í fyrsta sinn sem ég meðhöndla glerið sjálf, bræði það og móta. Áður hafði ég notað glerplötur ofan á leirborð, skorið út glerflísar og límt í leirinn en nú er ég að vinna með glerið á annan hátt," segir Helga, sem einnig er farin að blanda koparþynnum og vír við leirinn og glerið. "Mér finnst mjög gaman að vinna með þessi efni. Þau eru svo gjörólík en kalla á ákveðið samspil.

Yfirleitt nota ég frekar grófan steinleir en með því að

hafa glerið með finnst mér yfirbragðið léttast og skapa skemmtilegt mótvægi," heldur hún áfram.

Á mörkum nytjalistar og skúlptúrs

Hún segir verkin vera á mörkum nytjalistar og skúlptúrs, hluti sem vissulega megi nota en standa þó algjörlega einir og sér sem skúlptúrar.

Helga útskrifaðist frá leirlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991, var gestanemandi í Kaupmannahöfn og í Kesckemet í Ungverjalandi og nam málmsmíði við Slippery Rock University í Pennsylvaníu veturinn 1998. Síðastliðin níu ár hefur hún rekið eigið verkstæði að Álafossi í Mosfellsbæ og tekið þátt í fjölda samsýninga en síðasta einkasýning hennar var í Pittsburgh árið 1998.

"Sýningin í Stöðlakoti er í ákveðnu framhaldi af síðustu sýningu - eins og reyndar yfirleitt vill verða. Það skapast alltaf einhver neisti í hverri sýningu sem maður vill svo vinna áfram með," segir Helga. Þó að hún hafi lagt stund á nám í málmsmíði vestanhafs, segir hún að málmurinn hafi setið svolítið á hakanum hjá sér. "Leirinn er bara svo frekt efni," segir hún en hyggst þó gera þar bragarbót á á næstunni og fara að sökkva sér í tilraunir með málminn.

Alþjóðleg sýning í Kaíró

Í næstu viku opnar Helga svokallaða stuttsýningu í Galleríi Reykjavík, en hún stendur aðeins yfir í nokkra daga. Þar stillir hún upp í hluta af galleríinu nokkrum af verkunum af sýningunni í Stöðlakoti og einnig öðrum nýjum verkum sem hún hefur ekki sýnt áður. "Svo bauðst mér að taka þátt í alþjóðlega keramikbiennalnum í Kaíró í Egyptalandi, sem byrjar 23. maí," segir Helga, sem er búin að senda út ljósaskúlptúra á sýninguna og langar mikið til að fara sjálf alla leið til Kaíró en veit ekki alveg enn hvort það gengur upp. "En þetta er nokkuð sem manni býðst kannski einu sinni á ævinni," segir Helga og viðurkennir að það væri vissulega freistandi að drífa sig.

Sýningin í Stöðlakoti er opin kl. 15-18 um helgina en henni lýkur á morgun, sunnudag.