Sagði Guðni sem fæddist í Grísey: "Mitt glóðheita blóðið, það frýs ei; ýmsum unaði sviptur aldrei var giftur, en ég hef þó verið í Hrísey."
Ekki fellur tré við fyrsta högg. Ég hélt á tímabili að röng notkun orðsins fyrrum væri á hröðu undanhaldi, en nú þykir mér sem það hafi hafið gagnsókn. Ég eyk því leti mína og birti úr 648. þætti 11. júlí 1992. Ég get hvort eð er ekki gert þetta betur nú.
Úr 648. þætti:
Sá sem var fyrr , en er ekki lengur, er fyrrverandi . Að strangasta formi til er það orð lýsingarháttur , en þrásinnis notað sem lýsingarorð. Var þrásinnis, ætti ég kannski að segja, því að notkun þess fer minnkandi. Þetta er skráð í Blöndal "fyrverandi" og þýtt á dönsku forhenværende . Ekki er það merkt til varúðar, né heldur í Orðabók Menningarsjóðs . Orðið telst þar sem sagt gott og gilt.
Próf. Baldur Jónsson á Íslenskri málstöð minnir að einhverjir málvandir menn hafi þó talið fyr(r)verandi óæskilegt mál og vísað til danskra áhrifa, og svei mér ef mig rámar ekki í þessa afstöðu einhverra kennara minna fyrir löngu. Bæði af þeirri ástæðu og vegna lengdar orðsins hafa menn freistast til að nota fremur orðið fyrrum sem er helmingi færri atkvæði. Gallinn er bara sá, að þá getur svo farið, að atviksorðinu fyrrum sé þröngvað í ranga stöðu í setningunni, látið gegna hlutverki lýsingarorðs, eða á máli setningarfræðinnar, einkunnar . Kemur nú brátt til sögunnar enska orðið former sem alltaf er lýsingarorð.
Í grein eftir próf. Höskuld Þráinsson í 3. árg. Íslensks máls eru því gerð skemmtileg og greinileg skil hvernig Persakeisari hinn síðasti (Íranskeisari) og fall hans tók snögglega að hafa úrslitaáhrif á vissan þátt íslensks máls. Margt hafði keisari þessi á samviskunni, er mér tjáð, en spillingaráhrif á íslenska tungu mun hafa verið óviljaverk frá hans hendi, enda kom það í hlut fréttamanna að segja frá honum, falli hans og förum milli landa.
Nú kann umsjónarmaður ekkert í persneskri stafsetningu né málfræði, svo að nafn keisarans verður hér lítt stafað, en hann var í enskum fréttum löngum nefndur ásamt nafni sínu "the former Shah of Iran " , eftir að honum fataðist vald og heilsa. Þetta dundi á heimsbyggðinni, og þetta varð í fréttum ríkisútvarpsins íslenska "fyrrum Íranskeisari", ekki fyrrverandi eða fráfarandi Íranskeisari, og er þá komið að því sem ýmsa angrar: Fyrrum gegnir ekki lengur hlutverki sínu sem atviksorð, heldur hefur tekið stöðu lýsingarorðs. Þykir umsjónarmanni, þó seint sé, sjálfsagt og einboðið að hefja gagnsókn í þessu efni, þótt fátt sé frá keisara þessum sagt nú um stundir. En því meira er greint frá öðrum "fyrrum" fyrirbærum, og nú síðast líður varla sá dagur, að ekki sé sagt frá "fyrrum" lýðveldum Sovétríkjanna eða "fyrrum" lýðveldum Júgóslavíu. Þetta hljómar þó hóti skár, vegna þess að -um er lýsingarorðsendingin í þágufalli fleirtölu. Það er auðvitað ekkert athugavert við að segja "í öllum lýðveldum Júgóslavíu". Hitt dugar ekki. Það er málfræðilega rangt og ergir mig mjög. Að sama skapi er ég þakklátur fyrir grein próf. Höskulds.
En þetta er í minni málvitund ekki aðeins spurning um atviksorð eða lýsingarorð. Það er tvímælalaust tímamunur á fyrrum og fyrrverandi . Mér finnst fráleitt að Steingrímur Hermannsson sé "fyrrum forsætisráðherra", en hann er óumdeilanlega fyrrverandi forsætisráðherra. Hið fyrra gæfi mér til kynna að hann hefði gegnt þessu embætti ekki öllu síðar en um síðustu aldamót. Mér finnst ekki heldur hægt að segja að faðir hans, Hermann Jónasson, sé fyrrum forsætisráðherra, hann er of nálægt okkur í tímanum til þess. Ég bregst hinn versti við, ef ég er kallaður "fyrrum menntaskólakennari", eins og við hefur borið. Ég er fjarri því fæddur um síðustu aldamót eða þaðan af fyrr. En ég var menntaskólakennari og er fyrrverandi menntaskólakennari, ef ég þá fæ ekki að halda titlinum óeinkenndum, þótt hættur sé störfum.
Niðurstaða: Það er af tveimur ástæðum rangt að segja til dæmis: Hann keppir fyrir "fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna". Fyrrum er atviksorð og getur því ekki með góðu móti verið einkunn með nafnorði, - og Sovétríkin voru ekki stofnuð fyrr en 1917 og eru því ekki í nægilegri tímafjarlægð.
Hefjum gagnsókn, þótt seint sé. Fyrrverandi Persakeisari, sá síðasti sem þar ríkti, er einhvers staðar niður kominn, lífs eða liðinn, en sá hinn sami er víslega hvergi í fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna."
Hlymrekur handan kvað (að ósk Þ.Þ. avíólógs):
Sagði Guðni sem fæddist í Grísey:
"Mitt glóðheita blóðið, það frýs ei;
ýmsum unaði sviptur
aldrei var giftur,
en ég hef þó verið í Hrísey."
Stungið í vasa
Á alþingi óþarfra mála
menn einfaldar staðreyndir brjála,
en þefvís og ratvís -
ekki þvælandi og hvatvís -
gengur þorskurinn þegjandi í ála.
Til þess að bæta fyrir bölvið og ragnið á dögunum er hér lítilræði um biblíuorðin amen og hallelúja (halelújá). Þau eru bæði úr hebresku. Amen kom til Norður- og Vestur-Evrópu úr grísku og latínu. Það var upphaflega lýsingarorð og merkti sannur , hárréttur. Í sænsku er til orðtakið "öruggt eins og amen í kirkjunni", og við þekkjum þetta prýðilega í orðasambandinu að segja já og amen við einhverju.
Hallelúja er upphaflega tvö orð: Hallelu Jah. Hið fyrra er sögn og merkir að lofa og prísa, hið síðara er framparturinn af Jahve = guð almáttugur. Í gömlum sálmum má sjá upphaf sem hljóðaði á þessa leið: "Halelújá. Þakkið Drottni, því að hann er mildur, og góðvilji hans varir að eilífu."
Auk þess fær Elín Hirst plús fyrir að segja "hæst setti foringi Serba". Of oft, svo ótrúlegt sem það er, hefur heyrst hástigið "háttsettastur".
Trist er tíð,
talsvert stríð
á stundum,
en lofnarblíð,
ljúf og þýð
með sprundum.
(Runólfur ríman.)
Ath. vel: Tölvan gætir sín ekki alltaf, þegar skipt er milli lína. Því urðu tvær skekkjur af því tagi í síðasta þætti. "óv-inina" kom í stað óvin-ina og "ræg-ikarl" í stað rægi-karl . Þá var t að röngu sett inn í ættarnafnið Eggerz . Beðist er velvirðingar á þessu.