Ítarlegar rannsóknir vantar á þessum efnum bæði varðandi umhverfisskaðsemi og áhrif þeirra á heilsu manna.
Ítarlegar rannsóknir vantar á þessum efnum bæði varðandi umhverfisskaðsemi og áhrif þeirra á heilsu manna.
Gerileyðandi hreinsiefni geta aukið vandamál vegna óæskilegra örvera og þau virka oft ekkert betur en venjuleg hreinsiefni. Ítarlegar rannsóknir skortir til að kanna áhrif þeirra frekar.

"Í stórum dráttum er munurinn á gerileyðandi hreinsiefnum (antibacterial) og venjulegum hreinsiefnum ekki mikill. Þetta eru vörur til að nota við hreingerningar sem í er bætt sérstökum efnum sem eiga að virka þannig að þau hindri vöxt óæskilegra örvera," segir Elín G. Guðmundsdóttir, efnafræðingur á eiturefnasviði hjá Hollustuvernd ríkisins. "Virknin gegn örverunum er ekki eingöngu af hinu jákvæða. Auðvitað virka efnin á einhverjar örverur en ekki allar. Þegar litið er á þetta í heild sinni þá hreinsa gerileyðandi hreingerningarlegir ekki endilega betur," segir Elín.

Geta myndað óþol

Aðspurð að því hvort gerileyðandi hreinsiefni geti eytt "góðum" bakteríum segir Elín að vandamálið sé að einhverjir örverustofnar myndi óþol. Ákveðnar bakteríur aðlaga sig þá að þessum efnum og þessar svokölluðu slæmu bakteríur geta náð yfirhöndinni. "Við þurfum auðvitað ákveðnar bakteríur og örverur, t.d. í líkamanum, en það eru venjulega ekki þær sem við ætlum að þvo í burtu. Hins vegar gætu þær sem á að þvo í burtu myndað óþol," segir Elín.

Hún segir að þessi efni geti verið skaðleg umhverfinu en þetta sé fjölbreyttur hópur efna þannig að það sé erfitt að alhæfa um áhrif þeirra. "Þetta eru t.d. stórar lífrænar sameindir sem brotna hægt niður í náttúrunni og safnast þá upp og valda skaða t.d. á vatnalífverum. Einnig skaða slík efni örverugróður sem á að brjóta niður skolp í rotþróm og skolphreinsistöðvum," segir Elín.

Ítarlegar rannsóknir vantar

"Í nýlegri grein í sænska tímaritinu Råd&Rön getur að líta grein um gerileyðandi hreinsiefni og í viðtali við lækni kemur fram að sum efnin hafi svipaða virkni og sýklaeyðandi lyf sem fólk er að taka inn. Slík efni geta haft skaðleg áhrif á líkamann. Þá kemur jafnframt fram að enn skorti ítarlegar rannsóknir á þessum efnum bæði varðandi umhverfisskaðsemi og áhrif þeirra á heilsu manna en þetta er tiltölulega ný neytendavara. Sænska heilbrigðiseftirlitið varar við notkun efnanna. Einnig er talað um í greininni að það hafi sýnt sig að með auknu hreinlæti þá séu asma- og ofnæmissjúkdómar að aukast. Hræðsluáróður hefur verið notaður til þess að selja umræddar vörur sem snýr að því að fólk þurfi að sótthreinsa í kringum sig.

"Það má ekki gleyma því að verið er að nota efni sem eru ekki öll holl fyrir lífverur," segir Elín.

Sala eykst erlendis

"Við höfum aðallega fengið fyrirspurnir varðandi efnin frá framleiðendum hér heima sem eru að setja þessar vörur á markað og höfum ekki verið með mikinn áróður gegn þessum efnum hingað til. Hins vegar hefur verið talað um að ekki sé æskilegt fyrir matvælafyrirtæki og heilsustofnanir að nota gerileyðandi hreinsiefni. Á sjúkrahúsum eiga alls ekki að koma hreinsiefni sem innihalda bakteríudrepandi efni.

Í umræddri sænskri grein sem og í grein í danska neytendatímaritinu Tenk+test kemur fram að sala þessara efna sé að aukast. Hvað sölu þessara vara snertir hér heima þá hugsa ég að það sé einfaldlega þannig að framboðið á þeim sé að aukast sem leiðir þá til aukinnar sölu," segir Elín.

Elín segir að ekki sé ástæða til að mæla með notkun gerileyðandi hreinsiefna við venjulegt heimilishald. "Það er vitað að mörg þessara efna eru óæskileg fyrir umhverfið og einnig eru mörg þeirra ofnæmisvaldandi fyrir menn. Þá er talað um

að það séu komnir upp þolnir stofnar sem geta valdið lungnabólgu sem mjög erfitt sé að ráða við, einnig harðgerðir stofnar salmonellu og berklabakteríu svo dæmi séu tekin," segir Elín.

Þess má að lokum geta að heimasíða Hollustuverndar er www.hollver.is en þar eru ýmsar upplýsingar sem og tenglar á erlendar vefsíður sem á er að finna góð ráð í sambandi við hreingerningar.