Tveir bankar, Búnaðarbanki Íslands og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, skiluðu þriggja mánaða uppgjöri í vikunni. Eitt af því sem athygli vakti í uppgjörunum tengist skuldabréfaeign bankanna.

Tveir bankar, Búnaðarbanki Íslands og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, skiluðu þriggja mánaða uppgjöri í vikunni. Eitt af því sem athygli vakti í uppgjörunum tengist skuldabréfaeign bankanna. Búnaðarbankinn færði til bókar um 400 milljóna króna tap vegna skuldabréfaeignar, en FBA hafði minnkað skuldabréfaeign sína mikið, eða úr rúmum 9 milljörðum um áramótin í um 4,8 milljarða í lok mars.

Ástæðan fyrir því að óhagstætt hefur verið að eiga skuldabréf undanfarna mánuði er sú að ávöxtunarkrafa þeirra hefur farið hækkandi, en hækkandi ávöxtunarkrafa þýðir að verðið lækkar. Ástæður hækkandi ávöxtunarkröfu geta verið ýmsar, en nefna má að hlutabréf hafa skilað mjög góðri ávöxtun framan af ári og voru þau orðin meira spennandi fjárfestingarkostur en áður í samanburði við skuldabréf. Þetta hefur m.a. sést á breyttri áherslu hjá lífeyrissjóðunum sem hafa aukið fjárfestingar sínar í hlutabréfum og erlendum verðbréfum. Einnig skiptir máli að þó ríkið hafi keypt töluvert upp af skuldabréfum hefur aukið framboð húsbréfa og húsnæðisbréfa gert meira en vega það upp auk þess sem eftirspurn eftir lánum vegna húsnæðiskaupa utan opinbera kerfisins hefur einnig verið mikil. Þetta hefur þrýst upp vöxtum og þannig stuðlað að verðlækkun skuldabréfa.

Skuldabréfastaða Búnaðarbankans fer lækkandi

Hækkandi vextir og þar með gengistap skuldabréfa leiddu til um 400 milljóna króna taps Búnaðarbankans af skuldabréfum fyrstu þrjá mánuði ársins. Í samtali Morgunblaðsins við Sigurjón Þ. Árnason framkvæmdastjóra hjá bankanum kom fram að staða bankans í skuldabréfum hefði á fyrsta ársfjórðungi ársins lækkað um 1,6 milljarða króna og farið niður í um 9 milljarða. Lagði Sigurjón áherslu á að eign Búnaðarbankans í skuldabréfum um áramót hefði ekki verið mikil í samanburði við Landsbanka og Íslandsbanka, auk þess sem eignin segði alls ekki alla söguna því bankar gætu átt stöður utan efnahagsreiknings á móti eigninni. Þannig geta afleiður, t.d. skiptasamningar eða framsamningar (e. forwards), sem banki á, vegið upp á móti bókfærðu tapi bankans þó afleiðurnar komi ekki fram í reikningum bankans.

Skuldabréfastaða Landsbankans 25 milljarðar um áramót

Tryggvi Tryggvason forstöðumaður markaðsviðskipta Landsbanka Íslands lagði einnig áherslu á þetta atriði og sagði að verulegur hluti skuldabréfaeignar Landsbankans og áhættunnar sem henni fylgir væri veginn upp með þessum hætti og því bæri Landsbankinn ekki áhættu nema af hluta bókfærðrar skuldabréfaeignar sinnar. Landsbankinn gefur ekki út þriggja mánaða uppgjör og því liggur skuldabréfastaða bankans í lok mars ekki fyrir, en um áramót var hún um 25 milljarðar króna. Tryggvi sagði að sér væri ekki heimilt að birta tölur um hluta af rekstri bankans á milli uppgjöra því strangar reglur giltu um upplýsingagjöf, en sagði þó að staðan hefði ekki verið að breytast mikið að undanförnu. Tryggvi sagði að öllum væri ljóst að ávöxtun skuldabréfa hefði verið afleit síðustu mánuði, ekki síst frá áramótum, og að ávöxtun þessa hluta eigna bankans hefði verið afar slök. Sagði hann Landsbankann líta á skuldabréfaeign sína sem langtímafjárfestingu og að mat bankans sé að bréfin muni hækka á ný því vextir muni lækka til lengri tíma litið.

Hvernig skuldabréfaeign er færð skiptir máli

Íslandsbanki gefur ekki út uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung frekar en Landsbankinn og því liggur skuldabréfaeign hans í lok mars ekki fyrir. Um áramótin var eign bankans í markaðsskuldabréfum 15,7 milljarðar króna og skiptist sú tala til helminga á milli veltubókar og fjárfestingarbókar. Munurinn á þessum tveimur bókum er sá að veltubók er hugsuð fyrir skammtímafjárfestingar og er gerð upp á markaðsvirði, bréf í fjárfestingarbók eru hins vegar langtímafjárfesting og breytist bókfært virði þeirra ekki með gengi á markaðnum. Þetta þýðir að töluverðu máli getur skipt hvernig skuldabréfaeignin hefur verið færð þegar verið er að meta stöðu banka eftir efnahagsreikningi og hversu mikið banki hefur hagnast eða tapað á viðskiptum sínum með skuldabréf. Að sögn Ólafs Ásgeirssonar forstöðumanns fjárstýringar hjá Íslandsbanka eru upplýsingar um stöðu bankans í skuldabréfum á hverjum tíma viðkvæmar og því ekki hægt að gefa þær upp. Hann sagði að athuga þyrfti ýmis atriði, eins og tímalengd bréfa vegna mismunandi vaxtanæmi, flokka bréfanna og svo stöður utan efnahagsreiknings, þ.e. afleiður. Sagði hann að þegar vextir væru að hækka væri auðvitað betra að eiga minna en meira af skuldabréfum, en bankinn væri sáttur við stöðuna og að vaxtaáhættan hefði verið að minnka að undanförnu. Þetta væri fyrst og fremst vegna viðskiptavaktar og að eftirspurn hefði verið heldur meiri en framboð, þó bankinn hefði ekki verið að reyna að losa stöður inn á markaðinn, þ.e. að selja bréf. Ólafur sagðist telja að það ástand sem verið hefði á skuldabréfamarkaði gæti ekki varað til lengri tíma og að markaðurinn mundi taka við sér. Hann sagðist jafnframt álíta að áhugi erlendis færi vaxandi og að áformað rafrænt form viðskiptanna auk tengingar við norrænu markaðina í gegnum NOREX mundi hafa áhrif til hækkunar á verði skuldabréfanna.

Óverulegt tap af skuldabréfum hjá FBA

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins minnkaði skuldabréfaeign sína úr um 9 milljörðum króna í 4,8 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins eins og fram kom hér að ofan. Að sögn Benedikts Gíslasonar starfsmanns á markaðsviðskiptadeild FBA er megnið af því sem eftir er ýmist skuldabréf, sem bankinn á til mótvægis vegna skiptasamninga, eða ríkisvíxlar. Sagði Benedikt að tap bankans vegna skuldabréfanna á fyrsta ársfjórðungi hefði verið óverulegt og að ástæða þess sé m.a. sú að bankinn hafi losað stöðuna snemma í janúar að mestu leyti.

Sagði hann að bankinn hefði ekki áform um að breyta stöðunni og bætti því við að nú þyrfti bankinn að horfa á stöðuna með tilliti til stöðu Íslandsbanka, vegna sameiningar bankanna tveggja.