ÍSLENSKIR stúkumenn munu ræða um hugmyndir um breytt starf á Stórstúkuþingi sem verður 1.-3. júní næstkomandi í samræmi við hugmyndir sem hefur verið hrundið í framkvæmd í Noregi.

ÍSLENSKIR stúkumenn munu ræða um hugmyndir um breytt starf á Stórstúkuþingi sem verður 1.-3. júní næstkomandi í samræmi við hugmyndir sem hefur verið hrundið í framkvæmd í Noregi. Björn Skau, norskur bindindisfrömuður,

kom hingað til lands á vegum Stórstúkunnar til að kynna henni hvað norskir bindindismenn væru að gera og tekur hann þátt í umræðum um hugsanlegar breytingar hér á starfsháttum og starfsaðferðum íslensku Stórstúkunnar.

Gunnar Þorláksson, stórritari Stórstúku Íslands, segir að breyttir tímar og breyttur tíðarandi fái menn til að endurskoða starf sitt. Einnig er hitt að menn telja jafnvel að betur verði náð til almennings með breyttu fyrirkomulagi á hreyfingunni. Endurnýjun hafi ekki verið hjá Stórstúkunni eins og menn vildu. Hugmyndirnar eru þær að bjóða áfram upp á þann valkost að menn geti starfað áfram í stúkuformi þeir sem það vilja en að öðru leyti verði starfið líkara almennum félagsskap og höfði meira til þeirra sem síður vilja binda sig í siðastarfi og stúkuformi. Gunnar gerir ráð fyrir því að breytingar sjáist á starfinu á þessu ári. Menn geri sér vonir um að þær skili sér í fleiri verkefnastjórnum sem fleirum hugnist að leggja lið.

Þorgerður Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri áfengis- og vímuvarnaráðs, fagnar því ef stúkan finnur leið til þess að ná hljómgrunni á ný. "Ég held að það sé ákjósanlegt að þeir sem vinna á þessum vettvangi séu sem fjölbreyttastir og endurspegli þjóðfélagið í heild. Grunnhugmynd stúkunnar er áfengisleysi og þeirra starf hefur miðast mest við áfengi en ekki eiturlyf. Ég er ekki hrifin af neinum öfgum og held ekki að það skili okkur í nútímasamfélagi fram á veginn. En allt sem hjálpar okkur er til góðs og það er ánægjulegt ef stúkan finnur sér farveg sem nær hljómgrunni," segir Þorgerður.