Timhan Jumdan, 13 ára gamall drengur og fyrrverandi liðsmaður skæruliðahreyfingarinnar Abu Sayyaf, vísar stjórnarhermönnum veginn á eynni Basilan.
Timhan Jumdan, 13 ára gamall drengur og fyrrverandi liðsmaður skæruliðahreyfingarinnar Abu Sayyaf, vísar stjórnarhermönnum veginn á eynni Basilan.
STÆRSTA hreyfing íslamskra aðskilnaðarsinna á Filippseyjum, MILF, tilkynnti í gær að hún hygðist gera hlé á árásum sínum um helgina eftir vikulanga bardaga og sprengjuárásir í suðurhluta landsins.

STÆRSTA hreyfing íslamskra aðskilnaðarsinna á Filippseyjum, MILF, tilkynnti í gær að hún hygðist gera hlé á árásum sínum um helgina eftir vikulanga bardaga og sprengjuárásir í suðurhluta landsins.

Joseph Estrada, forseti Filippseyja, kvaðst vera að "meta" vopnahlésyfirlýsinguna og vona að hún greiddi fyrir friðarviðræðum við aðskilnaðarsinnana. Hann bætti þó við að ekki kæmi til greina að fallast á kröfu MILF um að stofnað yrði íslamskt ríki á sunnanverðum Filippseyjum.

Vopnahléið átti að hefjast klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma og standa í tvo daga. Mohamed Murad, varaformaður MILF, sagði að vopnahléð ætti að gera leiðtogum hreyfingarinnar og ráðamönnum á Filippseyjum kleift að draga úr spennunni á Mindanao-eyju þar sem harðir bardagar hafa geisað síðustu daga, auk þess sem skæruliðar MILF hafa gert sprengjuárásir á nokkrar borgir og herstöðvar. Ófriðurinn hefur orðið til þess að 100.000 íbúar eyjunnar hafa flúið heimili sín.

42 hafa beðið bana og að minnsta kosti 87 særst í árásunum, hinum mannskæðustu í landinu í nokkur ár.

Að sögn Murads höfðu áhrifamikil öfl á Mindanao, þeirra á meðal trúarleiðtogar og frammámenn í viðskiptalífinu, skorað á hreyfinguna að lýsa yfir vopnahlé. Hann sagði að vopnahléð yrði virt á allri eyjunni og skæruliðarnir myndu ekki berjast nema á þá yrði ráðist.

Átökin hófust þegar stjórnarherinn reyndi að flæma skæruliða frá mikilvægum þjóðvegi og leiðtogar MILF óttuðust að markmiðið væri að ráðast á aðalbækistöðvar skæruliðanna sem eru nálægt veginum.

Mannræningja leitað

MILF hefur barist fyrir stofnun íslamsks ríkis á sunnanverðum Filippseyjum í 22 ár. Minni en róttækari hreyfing íslamskra skæruliða, Abu Sayyaf, hefur haldið 20 útlendingum og einum Filippseyingi í gíslingu á Jolo-eyju frá því á páskadag. Til átaka hefur komið nokkrum sinnum milli mannræningjanna og stjórnarhermanna, sem hafa setið um þá.

Nur Misuari, fyrrverandi leiðtogi íslamskra uppreisnarmanna, sem Estrada forseti hefur falið að semja um lausn gíslanna, sagði í gær að mannræningjarnir hefðu flúið fylgsni sitt vegna aðgerða hersins og sendimenn stjórnarinnar hefðu því ekki getað haft samband við þá. Sendimennirnir hafa séð gíslunum fyrir matvælum og lyfjum.

Misuari skoraði á herinn að hætta umsátrinu þar sem það stofnaði lífi gíslanna í hættu. Daginn áður hafði hann hótað að draga sig í hlé sem samningamaður ef hermönnunum yrði ekki skipað að fara af svæðinu.

Yfirmenn hersins sögðu í gær að hermennirnir væru að leita að nýjum felustöðum mannræningjanna en tóku fram að ekki væri ráðgert að svo stöddu að ráðast á þá til að reyna að bjarga gíslunum.

Filippseyskur landamæravörður kvaðst í gær hafa séð nokkra gíslanna og skæruliða í afskekktu þorpi á Jolo-eyju. Skæruliðarnir skiptu gíslunum upp í fimm hópa á dögunum til að komast undan hermönnunum en frönsk stjórnvöld sagði í gær að flest benti til þess að gíslarnir hefðu verið sameinaðir aftur og væru heilir á húfi.

Cotabato, Manila, Talipao. AFP.

Höf.: Cotabato, Manila, Talipao. AFP