NIÐURGREIÐSLUR ríkisins á raforku til húshitunar hafa farið stighækkandi á undanförnum tíu árum, að undantekinni lítilli lækkun árið 1996.

NIÐURGREIÐSLUR ríkisins á raforku til húshitunar hafa farið stighækkandi á undanförnum tíu árum, að undantekinni lítilli lækkun árið 1996. Greiðslurnar hafa tvöfaldast á tíu árum; námu 296,3 milljónum króna árið 1990 en 592,2 milljónum króna tíu árum síðar, að því er fram kemur í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller þingmanns Samfylkingarinnar. Upphæðirnar eru umreiknaðar til verðlags árið 1999 miðað við vísitölu neysluverðs.

Niðurgreiðslur á hvern íbúa sem þeirra hafa notið hafa einnig hækkað jafnt og þétt á tímabilinu með sömu undantekningu og að framan greinir. Árið 1990 var upphæðin rúmlega 7 þúsund krónur en árið 1999 nam hún liðlega 15 þúsund krónum.

Notendur fimm orkuveitna njóta nú niðurgreiðslna ríkisins vegna rafhitunar íbúðarhúsnæðis. Þessar orkuveitur eru: Hitaveita Rangæinga, Hitaveita Reyðarfjarðar, Bæjarveitur Vestmannaeyja, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.