NEFND sem skipuð var samkvæmt lögum til að fjalla um áfengiskaupaaldur unglinga hefur skilað áliti og leggur m.a. til að réttur til áfengiskaupa verði áfram miðaður við 20 ár.

NEFND sem skipuð var samkvæmt lögum til að fjalla um áfengiskaupaaldur unglinga hefur skilað áliti og leggur m.a. til að réttur til áfengiskaupa verði áfram miðaður við 20 ár. Verði hins vegar gerð tilraun með að lækka aldurinn leggur nefndin til að sú tilraun verði gerð einungis með léttvín og bjór, en ljóst sé að samhliða þurfi að stórauka forvarnir, eftirlit og löggæslu.

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra kynnti skýrslu nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi í gær. Hefur allsherjarnefnd Alþingis fengið skýrsluna afhenta og er gert ráð fyrir að skýrslan verði prentuð sem þingskjal.

Helstu niðurstöður nefndarinnar eru þær að áfengiskaupaaldur verði óbreyttur. Að skoðað verði hvort ástæða sé til að hækka aldurstakmark fyrir ökuleyfi, sem nú er 17 ár, í 18 ár og að leyfilegt áfengismagn í blóði 17-20 ára fólks við akstur verði lækkað í 0 prómill. Þá leggur nefndin til að aukið verði markvisst löggæslu- og forvarnarstarf til að fylgja málum eftir. Loks segir nefndin, að verði ákveðið að gera tilraun með að lækka áfengiskaupaaldurinn verði það einungis gert fyrir léttvín og bjór en jafnframt sé ljóst að stórauka þurfi samhliða forvarnir og löggæslu.

Í nefndinni sátu Sandra Baldvinsdóttir fyrir hönd dómsmálaráðuneytis, Jónína Bjartmarz alþingismaður, Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn, Óttar Guðmundsson geðlæknir, Þorgerður Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri og Ingibjörg Guðbjartsdóttir framhaldsskólanemi.