SEÐLABANKINN spáir því að miðað við óbreytt gengi verði verðbólga um 5% frá upphafi til loka þessa árs en lækki í 4% frá upphafi til loka næsta árs.

SEÐLABANKINN spáir því að miðað við óbreytt gengi verði verðbólga um 5% frá upphafi til loka þessa árs en lækki í 4% frá upphafi til loka næsta árs. Spáin sé þó háð töluverðri óvissu, sérstaklega hvað varðar launaskrið og þróun húsnæðisverðs á næstu mánuðum.

Nánast engin merki sjást enn um að ofþenslan sem einkennt hefur þjóðarbúið á undanförnum misserum sé tekin að hjaðna. Vöxtur útlána innlánsstofnana og peningamagns er enn langt fyrir ofan það sem samrýmist lágri verðbólgu, spenna á vinnumarkaði hefur haldið áfram að aukast, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og innflutningur fyrstu þrjá mánuði ársins er umtalsvert meiri en í fyrra. Þetta kemur fram í Peningamálum, ársfjórðungsriti Seðlabankans sem út kom í gær.

Tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs til byrjunar apríl nam 6%, sem er meiri verðbólga en verið hefur nokkru sinni hér á landi eftir að verðbólguhjöðnun úr tveggja stafa verðbólgu lauk á fyrri hluta tíunda áratugarins. Þetta er einnig mun meiri verðbólga en í viðskiptalöndum Íslendinga og segir Seðlabankinn ljóst að ekki verði búið við hana til lengdar án þess að mikil röskun verði á þeim stöðugleika sem ríkt hefur á undanförnum árum. Verðbólgan undanfarna mánuði eigi rætur að rekja til almennrar ofþenslu eftirspurnar, spennu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og hækkunar bensínverðs á alþjóðlegum mörkuðum. Þannig megi rekja rúmlega 70% hækkunar neysluverðs það sem af er árinu til húsnæðisverðs og bensínverðs.

Viðskiptahallinn nánast einsdæmi meðal þróaðra ríkja

Viðskiptahalli á síðasta ári var 6,7% af landsframleiðslu og bendir Seðlabankinn á að svo mikill halli sé nánast einsdæmi meðal þróaðra ríkja, en það sem geri hann enn verri sé að árið 1999 var annað árið í röð með svo mikinn halla og að hann átti fremur rætur að rekja til neyslu en fjárfestingar. Talið er að viðskiptahallinn muni aukast um rúm 7% í ár og stefna síðan í 8%. Segir Seðlabankinn að það myndi leiða til þess að hreinar erlendar skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu hækkuðu úr 64% í lok síðastliðins árs í um 85% árið 2004 og hrein erlend staða þjóðarbúsins versnaði á sama tíma úr því að vera neikvæð um 49% í 61% af landsframleiðslu. Ólíklegt sé að svo mikið ójafnvægi í utanríkisviðskiptum verði til lengdar.