Glenda Jackson, þingmaður Verkamannaflokksins í Bretlandi, og Tryggvi Harðarson, bæjarfulltrúi og frambjóðandi til formanns, í djúpum samræðum á stofnfundi Samfylkingarinnar í Borgarleikhúsinu í gær.
Glenda Jackson, þingmaður Verkamannaflokksins í Bretlandi, og Tryggvi Harðarson, bæjarfulltrúi og frambjóðandi til formanns, í djúpum samræðum á stofnfundi Samfylkingarinnar í Borgarleikhúsinu í gær.
SJÁVARÚTVEGSMÁL voru fyrsta málefnið sem kom til umræðu á stofnfundi Samfylkingarinnar eftir hádegi í gær þegar þingmenn flokksins sátu við pallborð og svöruðu spurningum úr sal.

SJÁVARÚTVEGSMÁL voru fyrsta málefnið sem kom til umræðu á stofnfundi Samfylkingarinnar eftir hádegi í gær þegar þingmenn flokksins sátu við pallborð og svöruðu spurningum úr sal.

Hörður Bergmann spurði þingmennina hvort þeir teldu unnt að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd fyrir næstu kosningar að horfið verði frá ókeypis úthlutun aflaheimilda.

Fram kom í máli Sighvats Björgvinssonar, sem á sæti í nefnd um endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða, svonefndri sáttanefnd, að þar væri nákvæmlega ekkert að gerast. Svanfríður Jónasdóttir sagði að Samfylkingin þyrfti að skýra betur út fyrir þjóðinni hvernig hægt væri að leysa þá stóru deilu sem uppi væri um eignarhald og úthlutun veiðiheimilda.

"Þó við séum tilbúin til samstarfs um góða hluti, þá eru þarna mjög skýrar línur og við ætlum ekki að fara að má út þessar línur. Við ætlum ekki að fara að gera sátt við stjórnarflokkana um eitthvert smotterí," sagði Guðmundur Árni Stefánsson.

Morgunblaðið virðist hafa slegið af sínum kröfum

Össur Skarphéðinsson, formaður flokksins, sagði að nýfallinn dómur Hæstaréttar benti beinlínis á að taka ætti upp veiðileyfagjald. "Ég held að menn ættu ekki að gleyma því sem segir í stjórnarsáttmála en þar var skotið inn lítilli aukasetningu, þar sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn urðu sammála um að það kæmi til greina að láta sjávarútveginn borga fyrir þann kostnað sem hlýst af ýmissi þjónustu við hann. Hvað felst í því? Við vitum það ekki. Líklega munu þeir, áður en kemur til næstu kosninga, leggja fram einhverskonar hugmyndir um veiðileyfagjald. Það verða öðruvísi hugmyndir en okkar, en eins og Guðmundur Árni sagði, þá seljum við ekki sál okkar fyrir hvað sem er. Gleymum því ekki heldur að þeir sem hafa verið að slást hvað harðast í þessu máli er Morgunblaðið. Þeir virðast nú hafa slegið aðeins af sínum kröfum. Nú tala þeir bara um að prinsippið þurfi að nást en þeim er í reynd sama um hvað gjaldið verður hátt. Það er okkur ekki," sagði Össur.

Gísli Einarsson sagði andstæðinga flokksins á Alþingi smám saman vera að viðurkenna að sanngirni fælist í tillögum Samfylkingarinnar. "Þetta mun vinnast á tveimur þingum þannig að það verður sjáanleg breyting í þá átt sem við erum að fara. Eftir þessi tvö þing koma kosningar og þá komum við okkar málum í gegn," sagði hann.

Eyjabakkamálið skaðaði Samfylkinguna

Talsverðar umræður urðu einnig um umhverfismál á fundinum en Jakob Frímann Magnússon beindi þeirri spurningu til þingmannanna hvernig þeir teldu Samfylkinguna hafa komið út úr umdeildu virkjanamáli á Austurlandi þar sem þingmenn hennar væru sakaðir um að hafa ekki verið nægilega samstiga.

Þingmennirnir voru ekki á einu máli í svörum sínum við þessari spurningu. Einar Már Sigurðarson sagðist telja að það hefði verið styrkur Samfylkingarinnar í þessu máli að þingmenn hennar voru ekki sömu skoðunar í þessu máli.

"Það voru kannski fjárfestar sem björguðu okkur frá þessu máli. Það er einfaldlega komin upp ný staða í virkjana- og álversmálum á Íslandi," sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir þingflokksformaður var ekki sammála Jakob um að Samfylkingin hefði verið í vanda í virkjunarmálinu. "Samfylkingin er ekki á móti virkjunum en Samfylkingin vill vönduð vinnubrögð og við stóðum saman um það sem skiptir máli, nefnilega að vilja umhverfismat. Það stóðum við saman um. Það var svo þegar kom að síðari afgreiðslum sem þingflokkurinn skiptist," sagði hún.

"Ég held að þetta hafi skaðað okkur en það varð miklu minni skaði heldur en efni stóðu til," sagði Össur Skarphéðinsson.