Ungir jafnaðarmenn  réðu ráðum sínum á stofnfundinum í gær.
Ungir jafnaðarmenn réðu ráðum sínum á stofnfundinum í gær.
MARGRÉT Frímannsdóttir var sjálfkjörin varaformaður Samfylkingarinnar á stofnfundinum í gær, Ágúst Einarsson prófessor var sjálfkjörinn formaður framkvæmdastjórnar og Eyjólfur Sæmundsson gjaldkeri.

MARGRÉT Frímannsdóttir var sjálfkjörin varaformaður Samfylkingarinnar á stofnfundinum í gær, Ágúst Einarsson prófessor var sjálfkjörinn formaður framkvæmdastjórnar og Eyjólfur Sæmundsson gjaldkeri. Í dag stefnir hins vegar í átök við kosningu í starf ritara en uppstillingarnefnd leggur til að Steinunn V. Óskarsdóttir borgarfulltrúi verði kjörin í það starf en Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Ungra jafnaðarmanna, býður sig fram gegn henni og nýtur m.a. stuðnings Ungra jafnaðarmanna.

Samkomulag um að efna ekki til mótframboðs

Um tíma leit út fyrir að fleiri flokksmenn myndu bjóða sig fram í embætti formanns framkvæmdastjórnar og varaformanns Samfylkingarinnar áður en framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs rann út kl. 13 í gær. Fljótlega lá þó fyrir að víðtækt samkomulag væri um að uppstillingarnefnd myndi gera tillögu um Margréti í embætti varaformanns og Ágúst í formennsku framkvæmdastjórnar án mótframboða og voru þau því sjálfkjörin í þessi embætti á fundinum þegar nefndin kynnti tillögu sína síðdegis. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður hugleiddi um tíma framboð til varaformennsku en ákvað svo að falla frá því eftir að fundurinn hófst.

Kosning í embætti ritara fer fram í upphafi fundar í dag. Steinunn Valdís, borgarfulltrúi R-listans, kemur úr Kvennalistanum, en Katrín úr Alþýðubandalaginu og er aukinheldur varaformaður Ungra jafnaðarmanna. Báðar tóku þær virkan þátt í starfi Röskvu - Samtaka félagshyggjufólks í Háskólanum.

Uppstillingarnefnd gerir tillögu um Steinunni í embætti ritara, en ekki er einhugur um þá ákvörðun og síðustu dagana fyrir stofnfundinn var skv. heimildum Morgunblaðsins gert ráð fyrir að Katrín yrði á lista nefndarinnar. Innan Kvennalistans er hins vegar lögð þung áhersla á að fá fulltrúa inn í forystu Samfylkingarinnar og þar er það sjónarmið ríkjandi að það sé eðlilegt þar sem Kvennalistinn sé einn þriggja flokka sem formlega standi að hinum nýja flokki.

Ungir jafnaðarmenn styðja Katrínu hins vegar ákaft og segja nauðsynlegt að hafa fulltrúa yngri kynslóðarinnar í stjórn hins nýja flokks. Hið sama er að segja um marga fyrrverandi liðsmenn Alþýðubandalagsins. Því er von á spennandi kosningu í morgunsárið.

Til stóð að kosningar færu fram á stofnfundinum í gær en vegna tæknilegra örðugleika í tölvukerfi við skráningu þingfulltrúa þurfti að fresta kjörinu.